Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Er þyrlað upp ryki?
Mynd / BBL
Lesendarýni 14. nóvember 2018

Er þyrlað upp ryki?

Höfundur: Baldur Helgi Benjamínsson, Jóhann Nikulásson og Sigurður Loftsson.
Nýir formenn MS og Auðhumlu hafa undanfarið haldið bændafundi víða um land. Þessir nýju formenn komu báðir inn með allnokkrum gusti á síðustu mánuðum, studdir meirihluta stjórna sinna og þar með var vikið til hliðar fólki með áratuga reynslu, þar með töldum einum helsta lykilmanni í sameiningarferli mjólkuriðnaðarins á sínum tíma. 
 
Baldur Helgi Benjamínsson.
Eðlilega ríkti því nokkur spenna að heyra hvað þessir nýju formenn hefðu til málanna að leggja. Á fundunum var farið yfir ýmislegt í rekstri mjólkuriðnaðarins, en meginþungi umræðunnar snerist þó um að rangar ákvarðanir hefðu verið teknar í rekstri undangengin misseri, einkum varðandi innvigtunargjald á svonefnda umframmjólk og um það hafi verið deilur innan stjórnar. Þar sem ýmislegt vakti furðu hjá undirrituðum í málflutningi formannanna, en þó ekki síður það sem ekki var rætt, teljum við rétt að víkja að nokkrum atriðum í þessu sambandi. 
 
Sigurður Loftsson.
Markaðsstaða mjólkuriðnaðarins
 
Undanfarin fimm til sex ár hafa verið fordæmalaus í vexti markaðar fyrir mjólkurafurðir hér á landi. Lætur nærri að neysla á fitugrunni hafi aukist um 25% á tímabilinu en slíkan vöxt mun hvergi að finna í þróuðu landi. Munur á innanlandsneyslu fitu og próteins hefur einnig vaxið mjög mikið á tímabilinu en
fram á vormánuði 2013 var neysla próteins meiri en fitu; í dag er fituneysla 15,5 milljónum lítra meiri en neysla á próteini. Það samsvarar framleiðslu rúmlega 50 meðalbúa eða nærri ársframleiðslu allra búa í Skagafirði.
 
Jóhann Nikulásson.
Þessi þróun hefur skapað margvísleg og flókin úrlausnarefni fyrir mjólkuriðnaðinn. Geta framleiðenda til að bregðast við þessari nýju stöðu er ákaflega misjöfn, enda er það svo að mörg bú hafa undanfarin ár ekki náð að framleiða að fullu sitt greiðslumark. Því til sanninda er að árin 2014-2017 komu alls 26,5 milljónir lítra til útjöfnunar á framleiðslu umfram greiðslumark, mest 9,1 milljón lítra árið 2015, vegna vangetu greiðslumarkshafanna til að uppfylla þarfir markaðarins. 
 
Til að tryggja nægjanlegt hráefni hefur því verið nauðsynlegt að greiða nægjanlega hátt verð fyrir umframmjólk svo að framleiðendur sjái sér hag í að framleiða hana. Lengst af ríkti samstaða um mikilvægi þess. Á fundum haustsins hafa nýir forsvarsmenn mjólkuriðnaðarins hins vegar verið með ýmsar kenningar um að í ljósi reynslunnar hafi ákvarðanir forvera þeirra verið rangar, þó öllum hugsandi mönnum sé ljóst að þær voru teknar við einstakar aðstæður sem engin fordæmi voru fyrir (greiðslumarkið var aukið um 15 milljónir lítra 2015) og sneru allar að því að verja verðmætasta markað íslenskra bænda. Þá hljóta allir að sjá að ákvarðanir sem teknar eru á hverjum tíma hafa mismunandi áhrif. Því er algerlega fráleitt að gefa sér að aðrar ákvarðanir hefðu skilað betri árangri. Að halda slíku fram, mörgum árum síðar, er með öllu óboðleg eftiráspeki.  
 
Fjárhagsstaða mjólkuriðnaðarins
 
Þegar þessi mál eru rædd, er nauðsynlegt að skoða samspil markaðsþróunar og hinnar opinberu verðlagningar, sem á sér áratugagamla sögu. Vonandi þekkja flestir lesendur að samkvæmt búvörulögum nr. 99/1993 er iðnaðinum skylt að greiða lágmarksverð til framleiðenda fyrir alla mjólk innan greiðslumarks. Sömu lög ákveða jafnframt hámarks heildsöluverð á leiðandi vöruflokkum mjólkurafurða, þar á meðal smjöri sem hefur verið undirverðlagt árum saman og enn í dag skilar heildsöluverð ekki hráefniskostnaði við framleiðsluna, þrátt fyrir ýmsar lagfæringar undanfarin ár (11,6% hækkun 2015 og 15% hækkun 2018). Vegna þessarar stöðu virkar hin mikla aukning á sölu smjörs undangengin ár því sem eitruð blanda fyrir fjárhagsstöðu mjólkuriðnaðarins. Um þetta hafa forsvarsmenn mjólkuriðnaðarins lítið að segja, enda eru mikilvægustu ákvarðanirnar sem þetta varða teknar utan fyrirtækisins, í verðlagsnefnd búvara. 
 
Mikill og vaxandi munur á sölu fitu og próteins er fjárhagslega mjög íþyngjandi fyrir mjólkuriðnaðinn. Forstjóri MS, Ari Edwald, gerir efnahallanum og kostnaði fyrirtækisins vegna hans svofelld skil í ársskýrslu Auðhumlu fyrir árið 2017:
 
„Þessum vaxandi efnahalla hefur svo fylgt lágt verð á heimsmarkaði fyrir undanrennuduft samhliða sterku gengi krónunnar. MS er í raun að tapa um 790 milljónum króna á síðustu 13 milljón lítrunum sem fyrirtækið kaupir innan greiðslumarks. Ljóst er að MS getur ekki til lengdar tekið á sig þennan kostnað eða hækkað verð á öðrum vörum til neytenda til þess að standa straum af kostnaðinum. Það er úrlausnarefni sem eigendur MS og stjórnvöld þurfa að ræða á næstu vikum og mánuðum.“
 
Efnahallinn hefur aukist talsvert á þessu ári, auk þess sem lágmarksverð mjólkur hefur nýlega hækkað. Fjárhagsleg áhrif efnahallans á þessu ári eru því hátt í 1 milljarður kr.  Það hlýtur því að vera umhugsunarefni, þegar horft er til söluþróunar síðustu ár, hvort sé meira virði, mjólk innan greiðslumarks þar sem selja þarf allan próteinhlutann úr landi, eða mjólk utan greiðslumarks sem keypt er til að styrkja birgðastöðu innanlands og hvað réttlæti verðmun þar á milli?
 
Öll hagræðing til bænda og neytenda
 
Fyrir um þremur áratugum voru 17 mjólkursamlög starfandi hér á landi. Mörg þeirra voru afar smá og fjárhagslega veikburða. Sameining og hagræðing innan mjólkuriðnaðarins hefur staðið sleitulítið síðan um 1990. Öllum ávinningi af þeim umfangsmiklu aðgerðum hefur verið skilað til neytenda í formi lægra vöruverðs og bænda í formi hærra afurðastöðvaverðs. Umfangið til neytenda er um 2 milljarðar kr. árlega og um 1 milljarður kr. til bænda, ár hvert. Þessar ákvarðanir hafa verið teknar á vettvangi verðlagsnefndar búvara. Sjálfur hefur mjólkuriðnaðurinn lítils sem einskis notið, enda hefur svigrúm hans til fjárfestinga og endurnýjunar verið afar takmarkað. Til að mynda er nýjasta vinnslustöð iðnaðarins, Bitruháls 1, aldarþriðjungs gömul. Duftgerðin á Sel­fossi er á fertugsaldri. Af þessu leiðir að bráðnauðsynlegri endurnýjun á tækjabúnaði hefur verið mætt með hlutafjáraukningu og skuldsetningu eins og ítarlega er rakið í ársskýrslum Auðhumlu á undanförnum árum.   
 
Samkeppnismál – sekt eða ekki?
 
Allt frá því að farið var að vinna að sameiningu mjólkuriðnaðarins, samkvæmt ákvæðum búvörulaga og niðurstöðu opinberrar stefnumörkunar hefur greinin verið undir vökulu auga samkeppnisyfirvalda, sem m.a. hafa framkvæmt umfangsmikla húsleit hjá fyrirtækinu, án niðurstöðu. Vegna óþarfrar flækju við sameiningu mjólkuriðnaðarins, þarf því miður að miðla hráefni innan fyrirtækisins samkvæmt framlegðarskiptasamningi milli þeirra aðila sem að því standa. Upp kom ágreiningur um verð á mjólk sem miðlað var innan samstæðunnar og mjólk sem seld var án skuldbindinga til óskylds aðila. Leiddi það til þeirrar niðurstöðu að samkeppnisyfirvöld töldu fyrirtækið hafi misnotað markaðsráðandi stöðu og lagt á það sekt upp á 440 m.kr. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hnekkti þeirri niðurstöðu en héraðsdómur staðfesti hana. Dómi héraðsdóms hefur verið áfrýjað og er niðurstöðu Landsréttar í máli 516/2018 að vænta á nýju ári. Vegna alls þessa hefur sektarupphæðin verið að flakka inn og út af bankareikningum mjólkuriðnaðarins undanfarin ár. Verði það niðurstaða dómstóla að fyrirtækið þurfi að greiða þessa sekt, mun það að sjálfsögðu hafa veruleg áhrif á rekstur þess. Þá niðurstöðu er hins vegar ekki hægt að rekja til ákvarðana í rekstri.  
 
Til móts við aukna samkeppni
 
Undanfarin ár hefur innflutningur mjólkurafurða aukist mikið og fyrirsjáanlegt er að hann aukist enn meira með tilkomu tollasamnings við ESB. Innflutningurinn er einkum á framlegðarháum vörum eins og osti en fyrstu 9 mánuði ársins voru flutt inn 380 tonn af osti. Fjárhagsleg áhrif af tollasamningnum á mjólkuriðnaðinn hafa verið metin vel á annan milljarð kr. á ári. Núgildandi fyrirkomulag við verðlagningu gerir mjólkuriðnaðinum nær útilokað að takast á við þessa grundvallarbreytingu á rekstrar­umhverfinu.
 
Það sem vekur athygli er að þessi staða, sem tvímælalaust er brýnasta úrlausnarefni mjólkuriðnaðar á Íslandi, er nánast ekkert rædd á ofangreindum fundum. Á sama tíma má skilja ummæli forustumanna iðnaðarins sem svo, að vegna harðnandi samkeppni á erlendum mörkuðum sé ekki arðvænlegt að sækja á um útflutning á íslensku skyri og þeirri sérstöðu sem í því felst. Skilja má það svo að vænlegra sé að láta mjólkurframleiðendum nágrannalandanna eftir að nýta þau tækifæri. Því miður læðist að sú tilfinning, að í undirbúningi sé skipulegt undanhald íslenskrar mjólkurframleiðslu og mjólkur­iðnaðar. Er einungis verið að þyrla upp ryki til að fela það?
 
Baldur Helgi Benjamínsson
Jóhann Nikulásson
Sigurður Loftsson
Áfellisdómur um eftirlit MAST með dýravelferð
Fréttir 11. desember 2023

Áfellisdómur um eftirlit MAST með dýravelferð

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um stjórnsýsluúttekt á eftirliti Matvælastofnunar (MA...

Ungmenni berjast gegn stöðnun í dreifbýli
Fréttir 11. desember 2023

Ungmenni berjast gegn stöðnun í dreifbýli

Norrænt ráð 25 ungmenna frá öllum Norðurlöndum sat nýlega fund með norrænum ráðh...

Bæta má orkunýtingu í landbúnaði talsvert
Fréttir 8. desember 2023

Bæta má orkunýtingu í landbúnaði talsvert

Unnt er að spara allt að 1.500 GWst árlega á Íslandi og þar af um 43 GWst í land...

Opnunarhóf í Miðskógi
Fréttir 8. desember 2023

Opnunarhóf í Miðskógi

Byggingu nýs kjúklingahúss í Dölunum er lokið og verður tekið í notkun 1. desemb...

Skilgreina opinbera grunnþjónustu
Fréttir 8. desember 2023

Skilgreina opinbera grunnþjónustu

Unnin hafa verið drög að skilgreiningu á opinberri grunnþjónustu, ásamt greinarg...

Innleiða þarf vistkerfisnálgun
Fréttir 7. desember 2023

Innleiða þarf vistkerfisnálgun

Tímabært þykir að innleiða vistkerfisnálgun á Íslandi með skipulögðum hætti. Fræ...

Verðmætasköpun eykst og mikil sala
Fréttir 7. desember 2023

Verðmætasköpun eykst og mikil sala

Æðarræktarfélag Íslands (ÆÍ) hélt aðalfund að Keldnaholti 18. nóvember. Alls mæt...

Tilraun til að bjarga færeyska hrossakyninu
Fréttir 6. desember 2023

Tilraun til að bjarga færeyska hrossakyninu

Færeyska hestakynið er í útrýmingarhættu en í dag eru til 89 færeysk hross og af...