Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Enginn kemur upp iðnaði af þessu tagi einn og óstuddur
Líf&Starf 28. júlí 2015

Enginn kemur upp iðnaði af þessu tagi einn og óstuddur

Höfundur: Margrét Þ. Þórsdóttir

„Það er alveg magnað hvað allir hafa tekið rabarbaranum vel. Hugmyndir mínar varðandi vöruþróun og framleiðslu á rabarbaraafurðum hafa hlotið góðan hljómgrunn og mikinn byr. Það er alveg ómetanlegt að fá svona vind í seglin fyrir verkefni sem þetta,“ segir Edda Kamilla Örnólfsdóttir, sem ræktað hefur rabarbara í hálfum hektara lands skammt ofan við Hólavatn í Eyjafjarðarsveit undanfarin þrjú sumur.

Hún fór af stað með verkefni sem nefnist Rabarbaraverksmiðjan og hlaut það önnur verðlaun á atvinnu- og nýsköpunarhelgi sem haldin var í Háskólanum á Akureyri á liðnum vetri. Verkefnið hefur síðan fengið styrki bæði frá Rannís og Impru - Átaki til atvinnusköpunar. Styrkurinn frá Rannís er unninn í samstarfi við Háskólann á Akureyri og Matís, en styrkurinn frá Impru í samstarfi við Háskólann á Akureyri. Edda segir að styrkirnir verði nýttir til rannsókna á rabarbaranum og til vöruþróunar.

„Við munum leggja áherslu á blöðku rabarbarans, en það er hráefni sem fram til þessa hefur verið hent,“ segir hún.

Passar ekki í ferðatösku

Hún segir að þátttaka stofnana á borð við Háskólann á Akureyri, Matís, Rannís og Impru séu verkefninu ómetanleg.

„Það er gríðarleg viðurkenning að fá þessar stofnanir til liðs við verkefnið og ég er afskaplega þakklát fyrir að það er komið í þennan farveg. Það kemur enginn á fót iðnaði sem þessum einn og óstuddur. Ég gæti ekki unnið að þessu verkefni án þeirrar þekkingar og þess styrks sem stofnanirnar búa yfir. Nálægðin við þá þekkingu sem þarna er að finna er mér sem frumkvöðli gríðarlega mikilvæg. Ef ég þyrfti að sækja alla aðstoð vegna þessa verkefnis suður gengi það ekki upp. Rabarbaragarðurinn minn passar bara ekki í ferðatösku,“ segir Edda.

Rannsóknir í samstarfi við Háskólann

Á liðnum vetri skoðaði Sara Björk Gunnarsdóttir, líftækninemi við Háskólann á Akureyri, lífvirkni rabarbarans.

„Ég hlakka mjög til að sjá hvaða niðurstöður koma úr úr hennar rannsóknum. Það er alveg magnað að fá utanaðkomandi aðila með allt annan bakgrunn en ég hef til að vinna að þessu verkefni. Möguleikarnir margfaldast og fjöldi hugmynda kviknar við hvern þann sem tekur þátt í þessu með mér, möguleikar rabarbarans eru endalausir.“

Dr. Rannveig Björnsdóttir hefur farið fyrir rannsóknum á rabarbaranum innan veggja HA og segir Edda það mikilvægt að hafa tækifæri til að byggja upp þekkingu með rannsóknum á rabarbaranum heima í héraði.

„Ég sé fyrir mér að þá þekkingu sem við erum að afla með rannsóknum verði hægt að nýta t.d. á þann hátt að koma upp klasasamstarfi bænda, rannsakenda og framleiðenda ýmissa afurða sem búa má til úr rabarbaranum. Slíkt samstarf kemst eflaust á í framtíðinni og ég sé fyrir mér að um atvinnuskapandi verkefni verði að ræða sem eflir og styrkir okkar nærumhverfi,“ segir Edda.

Blöðkurnar virka hægðalosandi á sauðfé

Hún hefur sem fyrr segir til umráða um hálfan hektara lands í Eyjafjarðarsveit undir rabarbararæktun og hefur komið honum upp af fræjum. Í fyrra forsáði hún um 400 fræjum, en fékk einungis upp um 100 til 120 plöntur.

„Það var talsverður skellur að fá svona mörg skemmd fræ, því ef sáningin heppnast ekki þarf að bíða í ár eftir næsta tækifæri,“ segir hún en bætir við að ræktunin hafi að öðru leyti gengið áfallalaust utan stöku ágangsfénaðar.

„Kindurnar eiga það til að fara í garðinn og gera sér blöðkurnar á rabarbaranum að góðu. Það kom mér á óvart því blaðkan er rík af oxalsýru og ekki talin æskileg til fóðrunar. Eitthvað virðist hún þó virka hægðalosandi á blessaðar ærnar, þær fá nánast undantekningarlaust skitu eftir að hafa heimsótt hjá mér rabarbaragarðinn,“ segir Edda.

Lítið þarf að hafa fyrir rabarbararæktun eftir að hann er kominn í jörðina, að vori og hausti segist hún færa honum duglega af hrossaskít, en að öðru leyti sér hann um sig sjálfur. Kostnaður við ræktun rabarbara er ekki mikill og mesta vinnan felst í uppskerustörfum þegar að þeim kemur.

Hvet bændur til að skoða þennan möguleika

Edda segir að arðbærni rabarbararæktunar sé virkilega fyrir hendi, „og þegar hjólin verða farin að snúast þarf mun meira af rabarbara en ég get framleitt. Ég hvet bændur hér í kring að skoða þennan möguleika sem fyrir hendi er í rabarbararæktun, en við megum aldrei gleyma því að ræktun er maraþon, ekki spretthlaup.“

Varðandi næstu skref við verkefnið segir Edda að fylgja þurfi eftir þeim rannsóknum sem gerðar verða í sumar. „Við munum svo ákveða framhaldið þegar niðurstöður rannsókna liggja fyrir.“

Skylt efni: ræktun | rabarbari | nýsköpun

Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...

Grípa þarf tækifærin
Fréttir 26. mars 2024

Grípa þarf tækifærin

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, telur að bændur eigi að leyfa sér að hor...