Ekki náð að standa í skilum við bændur
Vegna viðvarandi rekstrarvanda hjá Ístex síðustu 12 mánuði hefur ekki tekist að gera upp við sauðfjárbændur fyrir ullarinnlegg á þessu ári.
Sigurður Sævar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Ístex, segir að sala á þessu tímabili hafi minnkað um rúmar 400 milljónir miðað við sama tímabil árið áður. „Þessi mikli samdráttur veldur því að við eigum í vanda með að standa í skilum við okkar lánardrottna, þar með talið bændur.“
Engin lausn varðandi greiðslur til bænda
„Staðan er áfram snúin og flókin. Áfram verður gripið til margvíslegra ráðstafana í hagræðingarskyni. Það er því miður þannig að ekki hefur enn fundist lausn á því hvernig við getum staðið við greiðslur til bænda,“ útskýrir Sigurður.
„Samdráttur hefur að mestu verið í sölu á handprjónabandi erlendis, aðallega til Þýskalands og Bandaríkjanna. Brugðist hefur verið við þessum rekstrarvanda með samdráttaraðgerðum í rekstri Ístex. Þrátt fyrir það er fyrirtækið í vanda með að standa í skilum við lánardrottna, þar með talið bændur,“ segir hann enn fremur.
Markaðsaðstæður í september oft verið betri
Fyrst fór sala á handprjónabandi að minnka í Þýskalandi og síðar í Bandaríkjunum. „Nú er að hefjast nýtt sölutímabil, en markaðsaðstæður fyrir sölu á ullarbandi hafa oft verið betri, bæði fyrir okkur og okkar samkeppnisaðila. Dreifing í Þýskalandi hefur verið styrkt, en að sama skapi þá hefur áhyggjuhljóð frá viðskiptavinum á Norðurlöndum aukist frá því í vor.
Allra leiða er leitað til að auka sölu og finna lausnir fyrir bæði lánardrottna og viðskiptavini,“ segir Sigurður.
