Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Horft yfir Borgarfjarðarhérað nálægt landamerkjum Skorradalshrepps og Borgarbyggðar.
Horft yfir Borgarfjarðarhérað nálægt landamerkjum Skorradalshrepps og Borgarbyggðar.
Mynd / Aðsendar
Fréttir 17. september 2025

Ekki bjartsýnn á sameiningu

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Jón Eiríkur Einarsson, oddviti sveitarstjórnar í Skorradalshreppi og bóndi á Mófellsstaðakoti, er ekki bjartsýnn á að sameining við Borgarbyggð verði samþykkt í íbúakosningum sem hófust á föstudaginn og standa til klukkan 18.00 þann 20. september.

Jón Eiríkur Einarsson.

„Hingað virðist streyma fólk til þess að taka lýðræðið af íbúunum,“ segir Jón. „Fólk skráir sig hér með lögheimili, bæði í eyðibýli, óstaðsett í hús og í heimahúsum. Fólk sem alls ekki býr hér. Svo virðist sem Þjóðskrá hafi ekki þau vopn sem þarf til þess að taka á svona skráningum. Ég hef verulegar áhyggjur af því að lýðræðinu sé ógnað – að fólk sé að flytja sig, á pappírunum, inn í dalinn til þess að taka valdið af okkur heimafólki. Ég veit ekki hvernig fólk kýs eða hvort það sé að flytja sig í sveitarfélagið til þess að segja nei, en ég hef grun um að þessar skráningar séu til þess að fella kosninguna.“

Kaupa þjónustu af Borgarbyggð

Aðspurður af hverju sveitarstjórnin leitaðist eftir sameiningu núna segir Jón: „Það er búið að reyna þetta nokkrum sinnum. Eftir að hafa talað við sveitunga mína taldi ég raunhæfan kost að gera eina alvöru tilraun núna,“ segir hann, en fyrri sameiningarumleitanir hafi ekki náð jafnlangt. „Auk þess óttast ég óöryggi þessa litla sveitarfélags þar sem við þurfum að semja um alla þjónustu. Við erum ekki með grunnskóla, leikskóla, slökkvilið eða neitt slíkt. Þetta kaupum við allt af Borgarbyggð. Maður veit aldrei hvenær Borgarbyggð ákveður að viðkomandi þjónusta sé ekki til sölu. Ég vona að Borgbyggðungar vilji fá okkur með sér í lið, bæði íbúana og þetta landsvæði, en það er eitthvað sem verður að koma í ljós þegar talið verður upp úr kössunum.“

Aðspurður um hvort tekjur sveitarfélagsins af sumarhúsalóðum geti útskýrt af hverju andstaða sé við sameiningu svarar Jón: „Það er augljóst mál að við erum enn þá sjálfstæð vegna þess að við getum það peningalega. Tekjur af fasteignagjöldum á hvern íbúa eru mjög háar,“ segir hann. Íbúar séu í kringum sextíu á meðan sumarbústaðir séu á bilinu fimm til sex hundruð.

Hræðsluáróður gegn sameiningu

„Hagsmunirnir sem barist er gegn eru að mínu viti engir. Fasteignagjöld eru lægri í Borgarbyggð en í Skorradal eins og staðan er núna. Útsvar er örlítið hærra, sem myndi þýða að álögur á íbúa myndu hækka en ekki hjá sumarhúsaeigendum. Ég hef heyrt hræðsluáróður, eins og að vegir verði ekki mokaðir eða sorpið ekki hirt. Þessi þjónusta er ekkert verri í Borgarbyggð.“

Jón segir ekki koma til greina að sameinast öðru sveitarfélagi. „Það er ekki út af því að einhver sveitarfélög séu verri eða betri en önnur, heldur liggur þetta landfræðilega vel saman. Börnin héðan úr Skorradalshreppi fara, eins og önnur börn í uppsveitum Borgarfjarðar, fyrstu árin í grunnskóla á Hvanneyri. Þangað er tíu mínútna akstur. Eftir fimmta bekk fara þau upp að Kleppjárnsreykjum. Einnig höfum við góðan aðgang að leikskóla á Hvanneyri,“ segir hann.

Verði sameining sveitarfélaganna samþykkt mun hún ganga í gegn í kjölfar sveitarstjórnarkosninga næsta vor.

Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu
Fréttir 11. desember 2025

Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu

Ný rannsókn Matís sýnir að kolefnisspor helstu íslenskra matvæla – mjólkur, kjöt...

Þörungakjarni með mörg hlutverk
Fréttir 11. desember 2025

Þörungakjarni með mörg hlutverk

Undirrituð hefur verið formleg viljayfirlýsing um stofnun Þörungakjarna á Akrane...

Húsaeiningar frá Noregi
Fréttir 9. desember 2025

Húsaeiningar frá Noregi

Nýlega komu um tvö þúsund fermetrar af svonefndum „Modulum“, sem eru forsmíðaðar...

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni

Alþingi hefur samþykkt framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár til ársins 2029. Um tí...

Gervigreind í Grímsnesi
Fréttir 9. desember 2025

Gervigreind í Grímsnesi

Grímsnes- og Grafningshreppur tekur nú þátt í þróunarverkefni í samstarfi við up...

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti
Fréttir 8. desember 2025

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti

Niðurstöðu COP30 sem fram fór í Brasilíu í nóvember hefur verið lýst sem lægsta ...

Fituúrgangur til framleiðslu á hreinsivörum
Fréttir 8. desember 2025

Fituúrgangur til framleiðslu á hreinsivörum

Nýsköpunarfyrirtækið Gefn sérhæfir sig í framleiðslu á umhverfisvænum bílahreins...