Dönsk kona leitar upplýsinga um afa sinn
Tina Gynther Jensen leitar að upplýsingum um afa sinn sem dvaldi á Íslandi árið 1928.
Hann hét Martin Gynther Jensen og fæddist á Fjóni í Danmörku árið 1911. Afi hennar ferðaðist til Íslands í eins konar starfsnámi til þess að kynnast íslenskum búskap og læra um íslenska hestinn en slík ferð þótti mjög óvenjuleg á þessum tíma. Því miður skortir Tinu upplýsingar um ferðir afa síns til Íslands og vill gjarnan komast að því á hvaða býli hann starfaði. Tina hefur nú búið á Íslandi í þrjú og hálft ár og finnur til mikillar tengingar við land og þjóð, tengingar sem hún telur að afi sinn hafi deilt með sér. Á meðfylgjandi mynd má sjá Martin að störfum í íslenskri sveit.
Lesendur Bændablaðsins eru hvattir til þess að hafa samband við bbl@bondi.is ef þeir búa yfir frekari upplýsingum um þennan Íslandsvin.
