Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Garðstaðir er í Ögurvíkinni við Ísafjarðardjúp og næsti bær við Ögur.
Garðstaðir er í Ögurvíkinni við Ísafjarðardjúp og næsti bær við Ögur.
Mynd / Hafliði Halldórsson
Fréttir 7. júlí 2020

Deilt um bílhræ á bújörð sem nú hefur verið breytt í iðnaðarsvæði

Höfundur: HKr.
Ögurhreppur, eða Ögursveit, var hreppur sunnan Ísafjarðardjúps í Norður-Ísafjarðarsýslu, kenndur við bæinn og kirkjustað­inn Ögur. Hinn 1. janúar 1995 sameinaðist Ögurhreppur Reykjar­fjarðar­hreppi og Súðavíkurhreppi undir merkjum hins síðastnefnda. 
 
Tveir bæir hafa verið í Ögur­víkinni, þ.e. Ögur og Garðstaðir, sem var upphaflega hjáleiga út úr Ögurlandi. Engin eignatengsl eru í dag með þessum tveim jörðum, en skipulagslögsaga yfir öllu svæðinu er nú í höndum sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps. 
 
Í Ögri hefur verið stunduð ferða­þjónusta undanfarin ár, en allir sem þangað koma og aka þar um þjóðveginn komast ekki hjá að sjá að töluverð umsvif blasa við á Garðstöðum. Fyrir ókunnuga mætti í fyrstu ætla að þarna færi fram stóriðja af einhverjum toga, en þegar betur er að gáð þekja ónýt bílhræ stóran hluta af túninu á Garðstöðum. 
 
Til ábúenda á Garðstöðum hafa margir bílaáhugamenn getað leitað eftir varahlutum í gamla bíla í gegnum árin, en ábúendur í Ögri eru ekki eins hrifnir. Þeir segja bæði stafa af þessu sjónmengun og telja óhjákvæmilegt annað en að talsverð grunnvatnsmengun sé af þessum bílhræjum. Hafa þeir átt í samskiptum við skipulagsyfirvöld í Súðavík árum saman og vilja að eigendum verði skipað að fjarlægja þessi bílhræ. 
 
Bújörð breytt í iðnaðarsvæði á aðalskipulagi
 
Nýjustu tíðindin af bújörðinni Garð­stöðum eru þau að þar hefur ekki verið stundaður búskapur um áratuga skeið. Sóttu eigendur því um að tilgangi jarðarinnar yrði breytt í aðalskipulagi og jörðin skilgreind að hluta sem iðnaðarsvæði. Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri Súðavíkur­hrepps, staðfesti í samtali við Bænda­blaðið að nú í byrjun júní hafi nýtt aðalskipulag verið samþykkt í sveitarstjórn þar sem heimild er gefin fyrir iðnaðarsvæði á Garðstöðum (3,4 hektarar eða 34.000 fermetrar, innsk. blm.). Iðnaðar­rekstur á því svæði væri þó háður starfsleyfum tilheyrandi stofnana. 
 
Bragi sagði jafnframt að hann skildi vel áhyggjur ferða­þjónustu­aðila í Ögri og að hann hefði ákveðna samúð með þeirra sjónarmiðum. Þótt mönnum þyki ásjón Garðstaða og fleiri sveitabæja víða um land ekki boðleg fyrir ferðamenn, þá sé ekki einfalt fyrir sveitarfélögin að grípa þar inn í. Garðstaðir séu eignarland og réttur eigenda því mjög sterkur og spurning hver eigi að greiða fyrir hreinsun á svæðinu verði þess krafist. Þá benti Bragi á að bílhræ hafi safnast þarna upp á nokkrum áratugum og útilokað væri að þau hafi öll komið frá íbúum Súðavíkurhrepps. Stærsti hluti þeirra væri trúlega ættaður frá öðrum sveitarfélögum á norðanverðum Vestfjörðum. Því gæti þetta líka verið spurning um sameiginlega ábyrgð þeirra á málinu.  
 
Varðandi mögulega mengun af viðkomandi bílhræjum sagði hann að þær athuganir sem gerðar hafi verið hafi ekki leitt í ljós mengun á svæðinu. Annars heyrðu þau mál frekar undir heilbrigðisnefnd Vestfjarða og umhverfisráðuneyti. 
 
Meint sorpbrennsla harðlega gagnrýnd
 
Auk söfnunar á bílhræjum á Garð­staða­túnið, þá hafa eigendur Ögurs gagnrýnt meinta ólöglega brennslu á sorpi á Garðstöðum í stórum ofni sem þar er á bæjarhlaðinu. Benda þeir m.a. á myndir máli sínu til stuðnings þar sem flutningabíll, sem merktur er stærsta sjávarútvegsfyrirtæki Vestfjarða, hefur ítrekað sést koma með ruslafarma að bænum. Segjast þeir hafa orðið vitni að brennslu í ofninum. Þá hafi sami flutningabíll flutt þangað vörubretti sem komið er fyrir á brennustæði fast við þjóðveginn utar í Ögurvíkinni. Telja eigendur Ögurs að hvort tveggja sé ólöglegt. 
 
Sveitarstjóri Súðavíkurhrepps segist ekki hafa nein staðfest gögn frá heilbrigðisyfirvöldum í höndum um þessa meintu sorpbrennslu. 
 
„Það var mjög lagt að okkur að hafa eftirlit með þrettándabrennu sem þarna hefur farið fram árlega. Ég mætti þar á staðinn með heilbrigðiseftirlitsmanni fyrir forvitnissakir. Við tókum út brennuna, en það var ekkert ólöglegt að sjá í henni. Þetta var bara stór bálköstur af timbri.“
 
Hann segir því ljóst að tekið hafi verið á kvörtunum þó ógerningur væri fyrir svo lítið sveitarfélag að hafa stöðugt eftirlit þarna í gangi 365 daga á ári. 
 
Fyrst og fremst sjónmengun
 
„Ef ávæningur er um að þarna sé einhver ólögleg starfsemi í gangi þá er það hlutverk heilbrigðiseftirlits og lögreglu að taka á því. Eigendur Ögurs hafa beint til okkar kvörtunum og ég hef átt með þeim fundi og ýmis samtöl. Það eru allt kvartanir sem hafa ekki verið staðfestar af eftirlitsaðilum. Þar með talin meint brennsla á rusli. Ég hef ekki staðfesta vitneskju um nein brot af þeim toga og get því lítið aðhafst í málinu. Ég er þó alls ekki að mæla því bót hvernig staðan er þarna. Þetta er þó fyrst og fremst sjónmengun en ekki staðfest mengun í jarðvegi eða öðru sem ýjað hefur verið að,“ segir  Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps.  
 
Heilbrigðiseftirlitið mun gera úttekt vegna starfsleyfis
 
Anton Helgason, framkvæmdastjóri  Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða, segist reikna með að eigendur Garðstaða sæki um starfsleyfi á jörðinni í kjölfar breytinga á aðalskipulagi.
 
„Þeir sóttu um starfsleyfi fyrir bílapartasölu 2004, en var hafnað af skipulagsástæðum. Nú hefur skipulagi verið breytt og væntanlega færi slík umsókn nú í hefðbundinn farveg.
 
Við höfum farið þarna að skoða nokkuð oft. Öll olía hefur verið tæmd af þessum bílum og rafgeymar teknir úr svo það er engin bráð mengunarhætta af þessu, en þetta er vissulega ljótt ásýndar,” segir Anton.Varðandi sorpbrennslu á svæðinu segist hann ekki hafa neina staðfestingu um slíkt.  
Nesbú með nýtt lífrænt hænsnahús í Flóanum fyrir 18 þúsund fugla
Fréttir 16. maí 2022

Nesbú með nýtt lífrænt hænsnahús í Flóanum fyrir 18 þúsund fugla

Nesbú á Vatnsleysuströnd er þessa dagana að taka í notkun nýtt og glæsilegt lífr...

Kolvetnasnauðu Queen Anne kartöflurnar fá góðar viðtökur
Fréttir 16. maí 2022

Kolvetnasnauðu Queen Anne kartöflurnar fá góðar viðtökur

Nýverið kom á markað kartaflan Queen Anne frá Þórustaða Kartöflum sem hefur mun ...

Arfgerðin T137 finnst á Botnum og reynist útbreidd á Árskógsströndinni
Fréttir 16. maí 2022

Arfgerðin T137 finnst á Botnum og reynist útbreidd á Árskógsströndinni

Arfgerðar­greiningar á príon­próteini (PrP) kinda eru nú í fullum gangi. Að sögn...

„Ég hef lagt niður vopnin“
Fréttir 13. maí 2022

„Ég hef lagt niður vopnin“

Sigríður Jónsdóttir bóndi og fjölskyldan í Arnarholti í Biskups­tungum ætla að h...

Kúabændur misvel í stakk búnir til að bregðast við versnandi rekstrarhorfum
Fréttir 13. maí 2022

Kúabændur misvel í stakk búnir til að bregðast við versnandi rekstrarhorfum

Herdís Magna Gunnarsdóttir, bóndi á Egilsstöðum á Fljóts­dalshéraði, var kjörin ...

Verndandi arfgerðir gegn riðu nokkuð algengar í íslensku fé á Grænlandi
Fréttir 13. maí 2022

Verndandi arfgerðir gegn riðu nokkuð algengar í íslensku fé á Grænlandi

Sandkoli og hryggleysingjar
Fréttir 13. maí 2022

Sandkoli og hryggleysingjar

Atvinnuveganefnd hefur til umfjöllunar frumvarp þar sem fjallað er um veiðistjór...

Tryggir félagslegan stuðning við bændur
Fréttir 12. maí 2022

Tryggir félagslegan stuðning við bændur

Tryggir félagslegan stuðning við bændur Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og ...