Borað eftir heitu vatni
Á vegum sveitarfélagsins Bláskógabyggðar er nú borað eftir heitu vatni í Reykholti.

Að sögn Helga Kjartanssonar, oddvita sveitarstjórnar, hefur mikil uppbygging átt sér stað í Reykholti á undanförnum árum á öllum sviðum; bæði hjá ylræktarbændum og á íbúðarhúsnæði.
Uppbygging sem kallar á meiri heitavatnsnotkun
Helgi segir að öll þessi uppbygging hafi kallað á meiri notkun á heitu vatni. „Til að enn frekari uppbygging geti átt sér stað var nauðsynlegt að fara í heitavatnsöflun. Þessa dagana er Ræktunarsamband Flóa og Skeiða að bora eftir heitu vatni í Reykholti, að undangenginni ákveðinni undirbúningsvinnu.
Við fengum Ísor í ráðgjöf með okkur til að kortleggja svæðið í Reykholti. Í framhaldi af tilraunaholum sem boraðar voru var vinnsluhola staðsett. Við gerum okkur vonir um að fá nægjanlegt af heitu vatni til að geta styrkt okkar kerfi enn frekar. En eins og við vitum er alltaf einhver óvissa þegar farið er í slíka leit. Við værum í ágætis málum ef við fengjum um 33 sekúndulítra.“
Hvatning til stækkunar á ylræktarstöðvum
Ef vel tekst til er talið að garðyrkjubændur geti farið að huga að frekari stækkunum á sínum stöðvum. „Garðyrkjan hefur eflst mjög mikið, þar sem gróðurhús á mörg þúsund fermetrum hafa verið byggð á árunum um og eftir Covid. Öll uppbyggingin í garðyrkjunni hefur verið unnin af mikill fagmennsku þar sem nýtísku gróðurhús hafa verið byggð til ræktunar á tómötum, gúrkum, jarðarberjum, afskornum blómum og garðplöntum,“ heldur Helgi áfram.
„Þá var hótel með 44 herbergjum tekið í notkun árið 2021 og stefnt er á enn frekari stækkun á næstu tveimur árum. Mikil uppbygging á íbúðarhúsnæði hefur einnig átt sér stað í Reykholti á síðustu árum, en á árunum 2020 til 2024 hefur lóðum fyrir um 100 íbúðum verið úthlutað. Verkalýðsfélagið Efling hefur einnig byggt 12 orlofsíbúðir í Reykholti sem eru í mikilli og góðri notkun. Með allri þessari uppbyggingu hefur íbúum fjölgað í Reykholti um 56 prósent á árunum 2020–2024.“
Góð kjör á heitu vatni
Að sögn Helga hefur sveitarfélagið ekki lent í verulegum vandræðum með afhendingu á heita vatninu í kuldatíðinni. „Við höfum þó aðeins dregið niður í sundlauginni til öryggis,“ segir hann. Helgi hefur trú á því að garðyrkjan muni eflast enn frekar í Reykholti á komandi árum. „Það veltur að vísu á nokkrum þáttum, meðal annars á raforkuverðinu og hvaða stefnu stjórnvöld taka með fæðuöryggi þjóðarinnar. Við í sveitarstjórn teljum okkur styðja vel við garðyrkjuna með hagstæðum kjörum á heitu vatni, seljum sekúndulítrann á 38,3 krónur sem er örugglega með því hagstæðasta sem gerist á landinu. Enda hefur mikil uppbygging átt sér að stað í garðyrkju í Bláskógabyggð á undanförum árum.“