Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Bláberjatoppur – Lonicera caeulea var. kamtschatica. Mynd / Leif Blomqvist
Bláberjatoppur – Lonicera caeulea var. kamtschatica. Mynd / Leif Blomqvist
Á faglegum nótum 7. apríl 2017

Bláberjatoppur er framtíðin í berjarækt

Höfundur: Vilmundur Hansen

Áhugi á ávaxta- og berjarækt hefur aukist talsvert undanfarin ár og úrval ávaxtatrjáa og berjarunna sem hægt er að rækta á Íslandi eykst með hverju ári.

Finnski garðyrkjumaðurinn og rithöfundurinn Leif Blomqvist hélt fyrir skömmu fyrirlestur á málþingi um berjarækt sem haldið var á Hótel Sögu í samvinnu Bændasamtakanna, Garðyrkjufélagsins og LbhÍ.

Fyrirlestur Blomqvist fjallaði um möguleika á berjarækt sem búgreinar hér á landi. Auk Blomqvist héldu Jón Kr. Arnarson, garðyrkjufræðingur og kennari við Landbúnaðarháskóla Íslands, og Jón Guðmundsson garðyrkjufræðingur erindi um hérlenda reynslu af berja- og ávaxtarækt. Um 120 manns mættu á fyrirlesturinn.

Blomqvist er einn helsti sérfræðingur á Norðurlöndum og þótt víðar væri leitað í ræktun ávaxtatrjáa og berja á norðurslóðum. Auk Norðurlandanna hefur hann ferðast um Rússland, Síberíu austanverða, Kína, Kanada og víðar til að kynna sér ávaxta- og berjarækt og safna nýjum tegundum og kvæmum sem hann ræktar í garðyrkjustöð sinni í Lepplax í Finnlandi. Leif er einnig höfundur bóka um ávaxta- og berjarækt, Tradgardens bar og Vara fruktsorter, og bókar um rósir sem heitir Rosor í norr.

Lærði að rækta ber hjá ömmu sinni

Blaðamaður Bændablaðsins tók Blomqvist tali þegar hann var staddur á landinu og forvitnaðist um starfsemi hans í Finnlandi, flakk hans um heiminn í leit að nýjum tegundum og möguleika Íslendinga til að rækta berjaplöntur í atvinnuskyni.

„Berjarækt er mér mjög hugleikin þar sem ég hef stundað hana alla mína ævi auk þess sem ég hef mikinn áhuga á að finna nýjar tegundir og kvæmi til ræktunar. Ég kynntist berjarækt þegar ég var barn hjá ömmu minni sem ræktaði ber. Hjá henni smakkaði ég fjölda ólíkra tegunda og kvæma og ég held að áhugi minn á berjum hafi byrjað þar.“

Leif starfaði sem ljósmyndari á veturna í mörg ár en á sumrin ræktaði hann ávexti og ber sem hann seldi á mörkuðum. Seinna stofnaði hann garðyrkjustöð sem til að byrja með ræktaði aðallega sólber sem hann seldi úr skottinu á bílnum sínum á mörkuðum. Í dag er stöðin aðallega þekkt fyrir mikið úrval af ávaxtatrjám, berjaplöntum og rósum.

Yfir háannatímann starfa um 35 manns við stöðina og þar eru á boðstólum um 180 mismunandi yrki af ávaxtatrjám og berjunum fer fjölgandi. Ársframleiðslan af ávaxtatrjám er um 18 þúsund tré sem bæði eru seld innanlands og flutt út. Ávaxtatré, epli, kirsuber, perur og plómur frá Blomqvist plantskola hafa verið flutt til Íslands í nokkur ár og reynst vel.

Hvít kirsuber frá Kína

Leif segir að á ferðalögum sínum um heiminn í leit að nýjum tegundum hafi hann kynnst mörgum spennandi yrkjum og kvæmum ávaxta og berja.

„Í heimsókn minni til norðurhéraða Kína kynntist ég kirsuberjayrki sem ber hvít ber. Berin eru sæt og plantan harðgerð og lofa því góðu fyrir okkur. Ég hef einnig fundið mikið af yrkjum í Kanada sem eru óþekkt á Norðurlöndum. Í mínum huga er Rússland og Síbería samt áhugaverðast enda komið í ljós eftir að landið opnaðist að þar er að finna mikið af áhugaverðum nýjungum fyrir okkur.“

Meðal tegunda sem Leif nefnir sérstaklega og hann talaði um á fyrirlestri sínum er bláberjatoppur, Lonicera caeulea var. kamtschatica. Leif er með tuttugu mismunandi yrki á bláberjatoppi í ræktun og um 75% þeirra eru yrki sem blómstra snemma og lofa góðu sem ræktunarafbrigði á norðurslóðum.

Kostir Íslands til berjaræktar

Þegar Leif er inntur eftir möguleikum framtakssamra Íslendinga til að rækta ber í atvinnuskyni tekur hann fram að hann sé ekki sérfróður um veðurfar á Íslandi.

„Ég hef komið til Íslands nokkuð oft og heimsótt ræktendur víða um land. Ég tel mig því geta gert mér einhverja grein fyrir hver helstu vandamálin og kostirnir í berjarækt á Íslandi séu.

Helsta vandamálið er hversu sumrin hér eru stutt og því nauðsynlegt að finna tegundir og yrki sem vaxa hratt og þroskast snemma. Bláberjatoppur er dæmi um plöntu sem þroskar aldin snemma og að jafnaði tveimur vikum fyrr en jarðarber, svo dæmi sé tekið.

Annar kostur við bláberjatoppinn er að hann er mun bragðbetri en mörg af yrkjunum sem við erum að fá frá Rússlandi og hafa verið í ræktun á Norðurlöndunum til þessa. Ég tel því að bláberjatoppur eigi eftir að vera vænlegur kostur fyrir Íslendinga í framtíðinni, bæði fyrir heimilisgarða og til framleiðslu á berjum á markað. 

Meðal þess sem er Íslandi til góða þegar kemur að berjarækt er Golfstraumurinn. Hér er bjart allan sólarhringinn yfir hásumarið og það veldur því að ber fá sterkari ilm. Svalar sumarnætur gera berin sætari og bragðbetri. Mikið magn af útfjólubláum geislum í sólarljósi gerir það að verkum að magn andoxunarefna er hátt í þeim. Á Íslandi er lítið af meindýrum og plöntusjúkdómum sem herja á plönturnar sem dregur úr notkun eiturefna við ræktun.

Jarðarber og hafþyrnir

Auk bláberjatopps telur Leif að ræktun á jarðarberjum utandyra ætti að geta verið arðvænleg hér á landi.

„Jarðarberjarækt í Evrópu á víða undir högg að sækja vegna sjúkdóma og aukinnar eiturefnanotkunar og í flestum tilfellum eru það sjúkdómar sem ekki þekkjast á Íslandi. Að mínu mati er það líka kostur að jarðarber sem ræktuð eru utandyra á Íslandi verða aldrei eins stór og fyrir vikið bragðbetri en jarðarber sem ræktuð eru í Suður-Evrópu.

Önnur áhugaverð tegund fyrir Ísland er hafþyrnir, Hippophae rhamnoides, Við erum með í ræktun afbrigði sem er blendingur milli hafþyrnis sem vex villtur í Finnlandi og stórvaxinnar hafþyrnistegundar frá Rússlandi.“ Hafþyrnir er sérbýlisplanta og því þarf bæði kyn til að frjóvgun geti átt sér stað og plantan þroskað aldin. Leif segir að plöntur sem eru blendingar milli finnsku og rússnesku tegundanna kallist Ottó og Eva eftir kyni og að ekki sé annað að sjá en að þær dafni vel í Lepplax, sem er á svipaðri breiddargráðu og Reykjavík.

Kirsuber frá Kanada

"Helsta nýjungin í gróðrarstöðinni er nýtt afbrigði af kirsuberjum sem upprunnið er í Kanada. Berin þroskast snemma og eru mjög bragðgóð og sæt. Ég er nokkuð viss um að þetta afbrigði henti vel á Íslandi þar sem það er harðgert og tekur ekki á sig mikinn vind vegna þess hversu lágvaxið það er."

Leif segist sannfærður um að enn sé hægt að finna fjölda afbrigða af ávaxtatrjám og berjarunnum sem geti vaxið og gefið aldin á Íslandi.


„Við erum rétt að byrja að skoða allan þann fjölda sem er á boðstólum og ef við gefum okkur tíma og prófum okkur áfram þá eigum við eftir að ná árangri.“

Skylt efni: Garðyrkja | ræktun | Leif Blomqist

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði
Fréttir 16. apríl 2024

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði

Matvælastofnun hefur birt leiðrétta skýrslu yfir áburðareftirlit síðasta árs.

Ísteka í yfirburðastöðu
Fréttir 15. apríl 2024

Ísteka í yfirburðastöðu

Í nýrri ályktun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að Ísteka beiti sterkri stöðu ...