Bændum tryggt svigrúm til hagræðingar
Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra segir að vinna standi yfir við nýtt lagafrumvarp sem hún ætli að leggja fram á næsta löggjafarþingi sem miðar að því að tryggja að innlendir frumframleiðendur, það er bændur, hafi ekki lakara svigrúm til hagræðingar og samstarfs en gengur og gerist í nágrannalöndum.
Í frumvarpi Svandísar Svavarsdóttir, þáverandi matvælaráðherra, sem lagt var fram 14. nóvember 2023, um framleiðendafélög, var gert ráð fyrir að heimila fyrirtækjum í eigu eða undir meirihlutastjórn frumframleiðenda að eiga með sér samstarf um afmarkaða þætti líkt og tíðkast í nágrannalöndum. Tryggja ætti að innlendir framleiðendur hefðu ekki lakara svigrúm til hagræðingar og samstarfs en framleiðendur í nágrannalöndum þar sem starfað sé samkvæmt löggjöf Evrópska efnahagssvæðisins.
Í því frumvarpi var gert ráð fyrir að félag gæti talist til framleiðendafélags ef frumframleiðendur réðu að lágmarki yfir 51 prósents atkvæða í félaginu. Einkum var horft til reglna Evrópusambandsins á þessu sviði og með frumvarpinu var stefnt að því að styrkja stöðu frumframleiðenda búvara og skapa tækifæri til aukinnar samvinnu og verðmætasköpunar.
Frumvarpið tók efnislegum breytingum í þinglegri meðferð áður en það var samþykkt á vordögum 2024 og í endanlegri útgáfu var ekki gerð krafa um eignarhald eða meirihlutastjórn bænda í framleiðendafélögum.