Ásókn í mjólkurkvótann mun meiri en framboð
Tvöfalt meiri eftirspurn er eftir mjólkurkvóta en sem nemur framboði.
Markaður með greiðslumark í mjólk var haldinn þann 1. september. Greiðslumark sem boðið var til sölu var 1,1 milljón lítrar en óskað var eftir kaupum á 2,2 milljónum lítra. Greiðslumark sem viðskipti ná til eftir opnun tilboða, eða svokallað jafnvægismagn, voru 1.077.643 lítrar að andvirði 269.410.750 kr.
Fjórtán selja 100%
Atvinnuvegaráðuneytinu bárust 67 gild tilboð um kaup og sölutilboð voru 16. Í gildi er ákvörðun um að hámarksverð skuli vera þrefalt afurðastöðvaverð, sem við lok tilboðsfrests var 419 kr. fyrir hvern lítra. Við opnun tilboða kom fram jafnvægisverðið 250 kr./l sem er óbreytt verð frá síðasta tilboðsmarkaði í apríl sl.
Fram kemur í tilkynningu atvinnuvegaráðuneytis að fjöldi kauptilboða undir jafnvægisverði var átta en sölutilboð yfir jafnvægisverði voru tvö. Seljendur með tilboð á jafnvægisverði eða lægra eru 14 talsins og selja 100% af sínu framboðna magni. Kaupendur með tilboð á jafnvægisverði eða hærra eru 59 talsins og fá 52% af eftirspurðu magni í sinn hlut.
Fjórir í forgangspott
Af kauptilboðum eru fjórir sem fá úthlutun úr forgangspotti nýliða og fá þeir kaupendur 66% af eftirspurðu magni í sinn hlut.
Að hámarki getur bú sóst eftir 50.000 lítrum til kaups á hverjum markaði. Sala greiðslumarks fer nú fram samkvæmt gildum tilboðum. Atvinnuvegaráðuneytið sendir öllum tilboðsgjöfum upplýsingar um afgreiðslu tilboða og gerir breytingar á skráningu greiðslumarks þegar uppgjör hefur farið fram. Upplýsingar um greiðslumark sitt geta bændur nálgast í Afurð.
