Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Áburðarsalar segja verðhækkun á áburði óhjákvæmilega
Fréttir 22. janúar 2015

Áburðarsalar segja verðhækkun á áburði óhjákvæmilega

Höfundur: smh
Verðskrár áburðarsala eru nú aðgengilegar á vefjum þeirra.
 
Þeir eru sammála um að óhjákvæmilegt hafi verið að hækka verð, meðal annars vegna gengisþróunar og verðbreytinga á heimsmarkaði. Þeir eru bjartsýnir á sölu og telja að magnið verði svipað því sem verið hefur og jafnvel heldur meira.
 
Skeljungur
 
„Skeljungur er bjartsýnn á áburðarsölu fyrir þetta ár og kemur enn með nýjungar fyrir bændur. Erfitt er að spá fyrir um sölu að svo stöddu þar sem sala á áburði er nýhafin. Skeljungur reiknar með að sala verði góð eins og hún hefur verið,“ segir Aron Baldursson hjá Skeljungi. 
 
Verðlag er með svipuðu móti og frá síðasta ári, einhverja hækkun má þó sjá á köfnunarefni þetta árið þar sem verð á köfnunarefni á heimsmarkaði hefur hækkað í verði vegna eftirspurnar á móti þróun í annarri hrávöru.
 
Skeljungur leitast alltaf við að auka þjónustu og vöruframboð til bænda í áburði og býður nú upp á tvær nýjar tegundir: Sprettur N27-0-11 (köfnunarefni og kalí) og Sprettur 22-5-5+Se+Vorvaki.
 
Nefndur Vorvaki í nýju tegundinni er ný áburðarhúðun að viðbættum helstu innihaldsefnum (NPK), vorvakahúðunin er auðleyst köfnunarefni, fosfór, mangan og sínk. Vorvakinn er hannaður sérstaklega fyrir blautan og kaldan jarðveg snemma á vorin. Umrædd húðun er mjög auðleysanleg og virkni því afar snögg.“
 
Fóðurblandan
 
„Verðskrá Fóðurblöndunnar hækkaði á milli ára um 3–7 %, misjafnt eftir tegundum.  Þær upplýsingaveitur sem Fóðurblandan notar, sýna hækkun á skráðum áburðarviðskiptum með kalsíum-ammoníumnítrat um meira en 20 prósent á milli ára, í evrum talið.  Þetta gerist þrátt fyrir að sumir kostnaðarliðir við framleiðslu á áburði hafi lækkað mikið eins og til dæmis gasolía,“ segir Sigurður Þór Sigurðsson hjá Fóðurblöndunni.
 
„Hækkun Fóðurblöndunnar á kalsíum-ammoníumnítrati milli ára er miklu minni en sem nemur hækkun áburðarins og tel ég það vera að hluta til vegna hagstæðari samninga í ár. 
 
Áburðarverð ákvarðast af mörgum ólíkum þáttum sem eru meðal annars, hráefni, framleiðsla, vinnsla og flutningar. Hér á landi skiptir gengi krónunnar einnig miklu máli. Flestar áburðartegundir taka mið af gengi evru eða Bandaríkjadollars í alþjóðlegum viðskiptum. Evran hefur lækkað á milli ára um 6–7% en Bandaríkjadollar hefur hækkað lítillega á milli ára.
 
Undanfarin ár hefur áburðarmarkaðurinn á Íslandi verið nokkuð stöðugur í heildarmagni.  Við gerum ráð fyrir að svo verði einnig í ár og að heildarmarkaðurinn verði í kringum 45–50 þúsund tonn, ef allur áburður er talinn með. Við reiknum með að halda okkar hlutdeild á markaðnum.
 
Í fyrra bauð Fóðurblandan í fyrsta sinn í mörg ár upp á áburð með seleni. Við buðum þrjár tegundir í okkar vöruskrá, eina tvígilda og tvær NPK blöndur sem innihéldu 0,0015 % selen. Viðskiptavinir hafa í vaxandi mæli óskað eftir áburði með selen og virðist okkur sem áhuginn sé síst minni í ár.  
 
Vöruskrá Fóðurblöndunnar er næstum því óbreytt, nema einni tvígildri áburðartegund var breytt, Fjölmóði 4 er núna með töluvert hærra fosfórinnihald en áður, þar sem við hækkum P2O5 úr 5% í 9 %. Við merkjum engar stökkbreytingar þar. Eftirspurnin ræðst oft af því að mælingar á heysýnum eða jarðvegssýnum kalli eftir breytingum á efnainnihaldi. Breytt eftirspurn eftir einstökum tegundum, getur líka verið tilkomin vegna verðbreytinga. Ef breytingar verða innbyrðis á milli einstakra tegunda, óháð efnainnihaldi, þá hafa slíkar breytingar mikil áhrif á eftirspurn.  Eftir efnahagshrunið hér á landi  gátum við merkt að viðskiptavinir drógu úr áburðarnotkun, sérstaklega á dýrari tegundum sem innihéldu hærra hlutfall fosfórs. Við teljum að þessar breytingar séu jafnt og þétt að ganga til baka að einhverju leyti.“
 
Búvís 
 
„Áburður lækkaði örlítið í erlendri mynt en hækkaði aðeins í íslenskum krónum. Sem dæmi þá hefur Kraftur 27 hækkað um 3,7% á milli ára en gengi á dollar, hækkað um 12%.  En við reiknum með að áburður komi til með að hæka í verði 1. febrúar enda er okkar núverandi verðlisti í gildi til 31 janúar,“ segir Einar Guðmundsson hjá Búvís.
 
„Varðandi það áburðarmagn hjá okkur í ár þá finnum við fyrir miklum meðbyr. Við bjóðum upp á  9 nýjar tegundir af áburði og flestar þeirra með seleni. Bændur  átta sig á því að vatnsuppleysanleiki fosfors í okkar áburði er mjög hár eða allt að 98% og eins er reynsla bænda sem hafa verið að nota okkar áburð sú að heyfengur þeirra er góður og má þar þakka smærri kornastærð og að kornin eru frekar lin og leysast því fljótt upp  og áburðurinn fer að virka fljótt fyrir grösin, sem er mikið atriði á stuttu sumri eins og við höfum hér á landi. Við teljum því að okkar áburðarsala verði  þó nokkuð meiri en á síðasta ári. 
 
Breytingar í sölu á milli tegunda hjá okkar eru aðallega tilkomnar af því að við erum að bjóða margar nýjar tegundir sem innihalda Selen og margir velja þær tegundir.“
 
Sláturfélag Suðurlands
 
„Sala á Yara-áburði fór mjög vel af stað í desember og árið 2015 gefur fyrirheit um að tímabilið verði gott í sölu á Yara-áburði. Rúmlega 20 þúsund tonn voru seld af áburðinum á síðasta sölutímabili,“ segir Elías Hartmann Hreinsson hjá Sláturfélagi Suðurlands.
 
„Yara leggur áherslu á að bjóða bændum góða valkosti til að auka selen í heyi og á beitarlönd enda víða selenskortur. Tegundir eru NP 26-4 Se, NPK 27-3-3 Se og NPK 22-6-6 Se sem er ný áburðartegund.
 
Allur Yara-áburður er einkorna gæða áburður þar sem öll næringarefnin eru í hverju korni en góð dreifing og nýting næringarefna í áburði getur skipt sköpum varðandi fóðrun og heilsufar gripa. Einnig þarf að huga sérstaklega að sýrustigi jarðvegs til að nýting áburðarefna sé hámörkuð og vekjum við athygli á Kalksaltpetri og Dolomit kalki sem stendur til boða á hagstæðu verði. Nýting búfjáráburðar skiptir sem fyrr verulegu máli til að draga úr notkun á tilbúnum áburði. 
 
Heimsmarkaðsverð á áburði hækkaði umtalsvert milli ára. Sérstaklega þær tegundir sem innihalda mikið köfnunarefni. Til að mynda hefur CAN í Þýskalandi hækkað um 21% frá október 2013.  Þrátt fyrir að gengið hafi verið tímanlega frá samningum um innkaup á áburði í haust þá varð ekki hjá því komist að hækka verð á áburði.“
 

Skylt efni: áburðarsalar | áburður

Melrakki rannsakaður í krók og kring
Fréttir 4. nóvember 2024

Melrakki rannsakaður í krók og kring

Nú stendur yfir rannsókn á stofngerð íslensku tófunnar og stöðu hennar á þremur ...

Samvinna fremur en samkeppni
Fréttir 4. nóvember 2024

Samvinna fremur en samkeppni

Rétt neðan við afleggjara Landeyjahafnarvegar stendur reisulegt hús með gömlu ís...

Vörður staðinn um lífríki Látrabjargs
Fréttir 1. nóvember 2024

Vörður staðinn um lífríki Látrabjargs

Staðfest hefur verið stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Látrabjarg. Markmið henn...

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar
Fréttir 1. nóvember 2024

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar

Skipulagsstofnun birti þann 18. október til umsagnar matsáætlun fyrir mat á umhv...

Verður forstjóri til áramóta
Fréttir 31. október 2024

Verður forstjóri til áramóta

Auður H. Ingólfsdóttir, sem gegnt hefur starfi sviðsstjóra loftslagsmála og hrin...

Samvinna ungra bænda
Fréttir 31. október 2024

Samvinna ungra bænda

Stjórnir ungbændahreyfinga á öllum Norðurlöndunum eiga í stöðugum samskiptum til...

Vilja reisa mannvirki
Fréttir 30. október 2024

Vilja reisa mannvirki

Linde Gas ehf. hefur óskað eftir deiliskipulagsbreytingu á lóð sinni á Hæðarenda...

Vegurinn áfram mun ráðast af nýliðun og nýsköpun
Fréttir 30. október 2024

Vegurinn áfram mun ráðast af nýliðun og nýsköpun

Nýliðun, afkomutrygging, nýsköpun, fæðuöryggi og umhverfismál voru efst á baugi ...