Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
„Ísland er land tækifæranna í búvöruframleiðslu“
Mynd / MHH
Líf og starf 2. september 2019

„Ísland er land tækifæranna í búvöruframleiðslu“

Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson
Staða mjólkurframleiðslu er mjög góð ef við höfum velvild stjórnvalda og kunnum að spila úr þeim spilum sem við höfum,“ segir Arnar Bjarni Eiríksson, kúabóndi í Gunnbjarnarholti.
 
„Ég hef alltaf haft þá bjargföstu trú að Ísland sé land tækifæranna í búvöruframleiðslu, ekki síst mjólkurframleiðslu. Hérna eigum við nóg af landi, nóg af vatni og hreinleikinn er mikill, þannig að ég held að staðan sé mjög góð ef við höfum velvild stjórnvalda og kunnum að spila úr þeim spilum sem við höfum,“ segir Arnar Bjarni, kúabóndi í Gunnbjarnarholti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, aðspurður hvernig honum lítist á stöðu og horfur mjólkurframleiðslunnar í landinu. 
 
„Auðvitað væri gaman að gera meiri útrás á erlenda markaði með mjólkurvörurnar okkar en það er hins vegar mjög þungur róður. Það er ekkert öðruvísi hjá öðrum þjóðum en okkur, það eru allir að vernda sína búvöruframleiðslu þannig að það  er ekki einfalt að komast inn á erlenda markaði,“ bætir Arnar Bjarni við.
 
 
240 mjólkandi kýr í nýju fjósi
 
Arnar Bjarni og Berglind Bjarnadóttir, eiginkona hans, hafa tekið í notkun nýtt og glæsilegt 4 þúsund fermetra hátæknivætt fjós í Gunnbjarnarholti. Húsið rúmar um 500 gripi, þar af 240 mjólkandi kýr. Í fjósinu eru fjórir mjaltaþjónar, sex mismunandi tegundir af dýnum fyrir kýrnar til að liggja á og sérstakar gardínur eru í fjósinu til að stýra loftræstingunni.
 
„Við erum mjög ánægð með nýja fjósið og aðbúnað gripanna, það er allt að virka, öllum líður vel og við sjáum ekki eftir að hafa farið út í þessa framkvæmd,“ segir Arnar Bjarni.
 
Fjós stækka og stækka
 
Arnar Bjarni og Berglind eiga líka fyrirtækið Landstólpa í Gunnbjarnarholti sem er að gera það gott í byggingu nýrra fjósa úti um allt land. 
 
„Já, það er mikið af nýjum fjósum í byggingu og þau fara alltaf stækkandi. Við erum að horfa mikið á 100 til 120 kúa fjós með tveimur mjaltaþjónum, þau fjós eru vinsælust í dag. Við erum búin að byggja 58 fjós á síðustu árum og í ár erum við að byggja 4 ný fjós, þannig að þau verða komin upp í 62 fjós um næstu áramótin,“ segir Arnar Bjarni.
 
Liggur mjög á nýjum samningi
 
Þegar Arnar Bjarni er spurður út í rekstrarumhverfi og stöðu mjólkurframleiðslunnar í landinu í dag segir hann að það sé nokkuð stöðugt en þó liggi   mjög á því að gerður verði nýr samningur í ljósi atkvæðagreiðslunnar síðasta vetur.
 
„Virk viðskipti með greiðslumark verða að komast á aftur til að eðlileg þróun og endurnýjun geti átt sér stað í mjólkurframleiðslunni. Auðhumla fer vonandi að ná vopnum sínum á nýjan leik og svo er gaman að minni mjólkurvinnsluaðilar virðast geta komið með skemmtilegar nýjungar og fjölbreytileika inn á markaðinn sem að mínu mati er bara jákvætt fyrir okkur mjólkurframleiðendur.“
 
Mjólkurframleiðslan mun ekki aukast í stórum stökkum
 
Arnar Bjarni segist ekki sjá fyrir sér að mjólkurframleiðslan eigi eftir að aukast í stórum stökkum en hann vonast til að hún haldi í við fólksfjölgun og fjölda ferðamanna. 
 
„Krafa markaðarins er sífellt lægra verð og við því er erfitt að bregðast nema með aukinni framleiðslu á einingu. Að sjálfsögðu er það bændanna sem eru að hætta búskap hvort þeir vilja selja bú sín í rekstri eða selja greiðslumarkið en auðvitað stýrist það af afkomunni hvort unga fólkið treystir sér til að kaupa þær eignir. Vissulega er sú þróun um allan hinn vestræna heim að búunum fækkar og þau stækka. Að sjálfsögðu verðum við líka að gefa eitthvað eftir til neytenda af þeirri tæknibyltingu sem hefur gert okkur kleift að framleiða mun meiri mjólk á vinnustund,“ segir Arnar Bjarni.
 
Jákvæð áhrif ferðaþjónustunnar
 
Að lokum er Arnar Bjarni spurður út í ferðaþjónustuna og hvort fjöldi ferðamanna á Íslandi skipti miklu máli fyrir kúabændur.
 
„Já, að sjálfsögðu gerir hún það og auðvitað hefur ferðaþjónustan gert það að verkum að byggð hefur haldist betur á afskekktari stöðum en nokkur gat vonað, oft og tíðum tekið við af hefðbundnum búskap og virkilega gaman að sjá líka hvað gert hefur verið fínt heima á bæjum í kjölfar þess. Auðvitað hefur líka ferða­þjónustan þau jákvæðu áhrif að hægt er að búa minni búum samhliða þjónustu við ferðamenn sem tryggir þá viðunandi afkomu,“ segir Arnar Bjarni Eiríksson, kúabóndi í Gunnbjarnarholti.
 
Arnar Bjarni og Berglind, kúabændur í Gunnbjarnarholti og eigendur nýja fjóssins. Mynd / Úr einkasafni

8 myndir:

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður
Fréttir 7. júlí 2022

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður

Staðfest er að samtals 128 gripir bera annaðhvort ARR-arfgerð, sem er alþjóðlega...

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021
Fréttir 7. júlí 2022

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021

Afurðatekjur af nautaeldi mæta ekki framleiðslukostnaði og hafa ekki gert síðast...

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir
Fréttir 27. júní 2022

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar umtalsverðar hækkanir á afurðaverði til sauðfjárb...

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“
Fréttir 14. júní 2022

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“

Stjórn Bændasamtakana telur skýrslu og tillögur Spretthóps, sem lagaðar voru fyr...

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning
Fréttir 14. júní 2022

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning

Spretthópur, sem matvælaráðherra skipaði vegna alvarlegrar stöðu í matvælaframle...

Mjólkurvörur frá Örnu til Bandaríkjanna
Fréttir 13. júní 2022

Mjólkurvörur frá Örnu til Bandaríkjanna

Nýlega skrifuðu forsvarsmenn Örnu í Bolungarvík og forsvars- menn Reykjavík...

Samdráttur í sölu á fræi
Fréttir 8. júní 2022

Samdráttur í sölu á fræi

Samkvæmt lauslegri könnun Bændablaðsins er búið að flytja inn rúm tvö tonn a...

Aðstaða bænda og fyrirtækja í landbúnaði á Íslandi er lakari en í öðrum ríkjum Evrópu
Fréttir 8. júní 2022

Aðstaða bænda og fyrirtækja í landbúnaði á Íslandi er lakari en í öðrum ríkjum Evrópu

Rúmlega tuttugu íslensk fyrirtæki sem tengjast landbúnaði og matvælaframleiðslu ...