Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 mánaða.
Lárus Heiðarsson, sérfræðingur á Mógilsá, ásamt sérlegum aðstoðarmanni sínum, Birni Sturlaugi Lárussyni, við tilraunasvæðið í Vallanesi.
Lárus Heiðarsson, sérfræðingur á Mógilsá, ásamt sérlegum aðstoðarmanni sínum, Birni Sturlaugi Lárussyni, við tilraunasvæðið í Vallanesi.
Mynd / Eymundur Magnússon
Líf og starf 15. maí 2023

Gæti aukið gæði jarðvegs til langframa

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Nú er að fara af stað íslenskt rannsóknarverkefni þar sem kanna á hvort unnt sé að nota viðarkol, sem eru ein gerð lífkola, í landbúnaði hérlendis með því að plægja þau í ræktarlönd og ná þannig fram minnkaðri áburðarnotkun í jarðrækt ásamt því að bæta gæði og heilsu jarðvegsins.

Með viðarkolagerð mætti nýta smáan grisjunarvið hinna ungu skóga Íslands, sem nú fer að mestu leyti í kurl og framleiðslu trjáperluundirburðar fyrir landbúnað, til að bæta jarðvegsgæði og til kolefnisbindingar.

Viðarkol í landbúnaði eru ekki ný af nálinni heldur hafa verið notuð í jarðrækt langt aftur í aldir. Jarðvegurinn í Úkraínu og Amasonskógunum í Suður-Ameríku er einhver sá frjósamasti á jörðinni. Svört moldin er hlaðin lífkolum sem eru orðin mörg þúsund ára gömul og sjá gróðrinum fyrir nærfellt óendanlegri uppsprettu af næringarefnum.

Lárus Heiðarsson, sérfræðingur hjá Skógrækt ríkisins á Mógilsá, segir Íslendinga vera að ranka við sér varðandi möguleika viðarkola en þau hafi lengi verið notuð annars staðar og þá einkum í Suður-Evrópu. Norðurhluti Evrópu og Skandinavía séu að taka við sér og þar sé einkum horft til nýtingar kola í landbúnaði.

„Kolin eru dálítið eins og svampur,“ útskýrir Lárus. „Þú þarft að plægja þau eða koma þeim með einhverjum hætti ofan í jörðina og þau munu passa upp á næringarefni, vatn og fleira. Ef er mjög þurrt þá hefur gróðurinn aðgang að því vatni sem kolin hafa sogið í sig og svo eru þau jarðvegsbætandi.“

Minni áburðarþörf

Fyrirtækið Tandrabretti, sem framleiðir vörubretti og vinnur trjáperlur úr smáviði, kom hugmyndinni á framfæri við Skógræktina. „Við erum svo í sambandi við Landbúnaðarháskóla Íslands hvað varðar jarðvegstilraunir,“ segir Lárus.

Á dögunum voru sett kol í tilraunareiti í Vallanesi og á Gíslastöðum á Fljótsdalshéraði. Sett var mismunandi magn af kolum og breytilegt magn áburðar í reitina. Á Gíslastöðum verður sáð vallarfoxgrasi í rannsóknarreitinn og í Vallanesi byggi en þar er lífræn ræktun undir merkjum Móður jarðar. Þá er búið að senda viðarkol á Hvanneyri og stendur til að setja einnig út tilraun þar.

Viðarbrennsluofn er að Víðivöllum í Fljótsdal. Ofninn afkastar einni tunnu viðar á dag, þar sem í komast 1-2 rúmmetrar af ferskum smáviði. Einn rúmmetri verður við brennslu u.þ.b. 200 kg af viðarkolum. Sett voru mest 40 tonn af viðarkolum á hektara í tilraunareitina og einnig minna, að sögn Lárusar. Bæði var kolum blandað við skít og þannig sett út en einnig voru kolin sett beint á jörð og tilbúinn áburður yfir.

„Rannsóknin snýr að því að setja lífkolin í jörð, hversu mikið þarf að setja af þeim og athuga hver áhrifin verða. Það sem við vonumst eftir að sjá er að hægt verði að minnka áburðarnotkun í hefðbundinni ræktun, hvort sem um er að ræða tún eða kornrækt,“ segir Lárus. Ekki er búist við miklu eftir fyrsta sumarið í rannsókninni en upp frá því gætu jákvæð áhrif viðarkolanna farið að koma í ljós ár frá ári.

Hér má sjá viðarkolin í stórum sekk en mismunandi magn kola og áburðar var sett í hvern tilraunareit.

Kolefnisbinding meðal margra kosta

Jákvæð áhrif af því að setja viðarkol í jörð gætu ekki eingöngu verið jarðvegsbætandi heldur er einnig um að ræða umtalsverða kolefnisbindingu. „Þegar búið er að kola viðinn eru viðarkubbarnir eiginlega hreint kolefni,“ segir Lárus. „Þeir eldast í mörg þúsund ár í jarðvegi og það er verið á fullu núna niðri í Evrópu að skoða hvort menn geti nýtt þetta og fengið kolefniseiningar fyrir að grafa kolin ofan í jarðveginn. Það er þó ekki viðurkennd aðferð og enn í skoðun. Það gæti mögulega orðið góður kostur að taka kol og fá borgað fyrir að plægja þau ofan í jarðveginn sem kolefnisbindingu og svo fengist þar að auki ávinningur af því að þurfa minni áburð,“ bætir Lárus við. Hann segir jafnframt að ef slíkt raungerðist yrði það frábært fyrir landbúnað, hvort sem væri hérlendis eða erlendis.

Lárus bendir á að notkunarmöguleikar lífkola séu miklu víðtækari en til jarðabóta. Þau hafi til dæmis verið sett í byggingarsteypu til bindingar. Þá virðast kolin eyða lykt og einn möguleikinn væri því að setja kol jafnóðum í haughús til lyktareyðingar. Kolin sjúgi þá næringuna úr skítnum, og honum, ásamt kolunum, sé svo árlega dreift á tún eða þetta plægt niður til jarðvegsbóta. Þá hafi kolum verið blandað í fóður fyrir nautgripi og það minnki metanlosun frá þeim. Notkunarmöguleikarnir virðast því mýmargir.

Ógrynni af smáefni

Við til kolagerðar þarf að taka úr sjálfbærum skógum og segir Lárus alla íslenska skóga sjálfbæra. „Í þetta eru menn að nota eitthvað sem væri ekki hægt að nota í neitt annað nema hugsanlega kurl.

Kannski er hægt að gera meiri verðmæti úr þeim viði ef þetta hefur jarðvegsbætandi áhrif. Þá er það stór plús fyrir ræktendur. Þarna er því mögulega kominn nýr notkunarmöguleiki á grisjunarefni sem nýtist ekki í neitt annað.“

Tandrabretti hafa, að sögn Lárusar, verið að taka allan smávið sem fyrirtækið kemst yfir og unnið úr því undirburð, svokallaðar viðarperlur. „Það hefur verið notkunin fyrir þetta en hugsanlega er þarna kominn annar möguleiki.“ Á Íslandi séu allir skógar enn litlir og ógrynni af smáefni í þeim. Eftir því sem skógarnir eldast fari svo að koma sverari, stærri og verðmeiri afurðir.

Sótt var um styrk fyrir verkefninu í svokallaðan Lóusjóð, sem veitir nýsköpunarstyrki fyrir landsbyggðina. Lárus segir ekki komið svar við styrkbeiðninni en verkefnið standi og falli með því. „Við munum taka mikið af jarðvegssýnum og ætlum að gera efnagreiningar á uppskerunni. Það kostar hins vegar svo mikið að hvorki Landbúnaðarháskólinn né Skógræktin standa undir þeim kostnaði. Vonandi fáum við því styrk til að geta haldið rannsókninni áfram næstu ár.“

Um sé að ræða langtímaverkefni og stefnt á mælingar og jarðvegssýnagreiningar hið minnsta næstu þrjú til fimm ár, og vonandi lengur. „Langtímarannsóknir og vöktun segja manni mjög mikið. Það er auðvitað dýrt að halda slíku úti en þannig fáum við langmestu gögnin til að segja okkur söguna og þá þarf ekki að vera að geta mikið í eyðurnar,“ segir hann.

Bjartsýnn um niðurstöður

Eymundur Magnússon, bóndi í Vallanesi, segist telja að rann- sóknin eigi eftir að skila mjög jákvæðum niðurstöðum varðandi jarðvegsbætur. „Ég vildi endilega fá þessa tilraun í landið hjá mér ˗ og bara sem mest af kolum,“ segir hann og ætlar í sumar að blanda viðarkolum í safnhaug og leyfa þeim að gerjast í haugnum í einhvern tíma áður en moltan verður borin á landið.

„Ég hef fulla trú á rannsóknarverkefninu og er búinn að gefa mér góða niðurstöðu fyrir fram, þótt maður eigi náttúrlega aldrei að gera slíkt.“

Skylt efni: áburður | viðarkol

Tungurétt í Svarfaðardal
Líf og starf 26. september 2023

Tungurétt í Svarfaðardal

„Fé er orðið afar fátt í Svarfaðardal og á réttinni var eins og undanfarin ár mu...

„Skógur nú og til framtíðar”
Líf og starf 25. september 2023

„Skógur nú og til framtíðar”

Félag skógarbænda á Suðurlandi bauð upp á kynnisferð um nytjaskógrækt og skjólbe...

Réttað í Hruna- og Skeiðaréttum
Líf og starf 25. september 2023

Réttað í Hruna- og Skeiðaréttum

Hrunaréttir við Flúðir voru haldnar föstudaginn 8. september og gengu vel þrátt ...

Ungir garðyrkjubændur í Þingeyjarsveit með margar tegundir í útiræktun
Líf og starf 22. september 2023

Ungir garðyrkjubændur í Þingeyjarsveit með margar tegundir í útiræktun

Það þykir tíðindum sæta þegar bætist í fremur fámennan hóp íslenskra garðyrkjubæ...

Tilraunir með álegg og hátíðarsteik
Líf og starf 22. september 2023

Tilraunir með álegg og hátíðarsteik

Matvælasjóður úthlutaði Fræða­setri um forystufé, sem staðsett er á Svalbarði í ...

Hvað er ... Aspartam?
Líf og starf 20. september 2023

Hvað er ... Aspartam?

Aspartam er gerfisæta sem, samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO), er mögu...

Almenningsgarður rósanna
Líf og starf 19. september 2023

Almenningsgarður rósanna

Ýmis blómgróður þrífst með ágætum á Íslandi en maður rekst ekki á almenningsrósa...

Jafnvígur í sveit & borg
Líf og starf 19. september 2023

Jafnvígur í sveit & borg

Nýr smájepplingur frá Toyota byrjaði að sjást á götunum á síðasta ári. Þetta er ...