Illt er að egna óbilgjarnan
Geithamrar eru eitt hljómfegursta bæjarnafn landsins. Fyrir þá sem ekki þekkja til eru þeir í Svínadal í Austur-Húnavatnssýslu og fyrir tveimur öldum bjó þar maður að nafni Sigurður Sigurðsson. Sigurður hafði tekið saman við ekkju frá Gili í Svartárdal í sömu sýslu, Ingibjörgu Jónsdóttur, og fékk Sigurður með henni Gilsjörðina.
Á fyrsta áratug 19. aldar voru stólsjarðir Hólastóls seldar. Þá líkt og nú þegar fyrirtæki í opinberri eigu eru seld urðu margir til að stökkva til, slá lán og kaupa það sem þeir héldu að best gæti ávaxtað fjármuni þeirra, í þetta sinn ábýlisjarðir sínar. Þetta hleypti miklum þrótti í viðskipti í þeim sveitum þar sem stólsjarðirnar höfðu verið. Saga Sigurðar á Geithömrum er því öðrum þræði viðskiptasaga.
Keypt og selt
Sigurður Sigurðsson ákvað árið 1824 að selja Gil í Svartárdal manni sem þá bjó á parti Ytri-Löngumýrar í Svínavatnshreppi, Pétri Skúlasyni. Í staðinn fékk Sigurður í makaskiptum kotið Vaglagerði í Blönduhlíð í Skagafirði og fé á fæti og í reiðu í milligjöf. Á Gili var hins vegar fyrir sonur Ingibjargar af fyrra hjónabandi, Eyjólfur Jónasson, kvæntur maður og faðir ungra barna. Eyjólfur hafði alist upp á Gili og búið þar alla ævi og var síður en svo sáttur við að stjúppabbinn skyldi selja undan honum jörðina. Var reynt að leysa málin og úr varð að Sigurður seldi Eyjólfi annars vegar part úr jörðinni Fjósum í Svartárdal og hins vegar kot út úr Gili sem heitir Selhagi en í staðinn fékk Sigurður reiðufé og part úr jörðinni Skeggsstöðum í Svartárdal. Gengu þannig bútar og skikar kaupum og sölum í flóknu uppgjöri sem í senn átti að tryggja ávöxtun eigna og sanngirni og sátt.
Nema hvað lítið var um sáttina. Eyjólfur Jónasson hafði með samningnum við Geithamra-Sigurð tryggt að hann fengi að vera í heimatúnum aðeins lengur, eða fram að fardögum vorið 1825. Átti hann þá að vera búinn að rýma jörðina fyrir Pétri Skúlasyni sem ætlaði að flytja þangað frá Ytri-Löngumýri. Þegar til kom neitaði Eyjólfur hins vegar að fara. Stóð Pétur í hlaði á Gili með allt sitt hyski og hafurtask en Eyjólfur þverskallaðist við og sagðist ekki fara neitt. Var reynt að bera klæði á vopnin og tókst eftir mikið þref að fá Eyjólf út úr húsum. Smíðuð var margflókin sáttargjörð þar sem alls konar frestir, undanþágur og milligjafir liðkuðu fyrir því að Eyjólfur flytti sig á þann jarðarpart sem Sigurður stjúppabbi hans hafði selt honum, Fjósa í Svartárdal, og héldi sig þar.
Um þessar mundir var fært undan hverri lambá og þurftu bændur að halda ánum á beit um daga og nætur. Þótti kindum Eyjólfs einboðið að halda sig þar sem þær voru vanar, í Gilslandi. Eftir margt ergelsið út af fénu kyrrsetti Pétur það sem Eyjólfur átti enn fémætt á Gili sem pant fyrir mögulegar skaðabætur fyrir beitina í Gilslandi. Ekki minnkaði misklíðin við þetta.
Leigumorðingjar ráðnir til verks
Eyjólfur Jónasson einsetti sér að hræða Pétur burt frá Gili. Hann reyndi ýmislegt í því skyni til viðbótar við hefðbundinn ágang og leiðindi. Til að mynda að fá menn til að ógna Pétri með hnífum en Pétur lét sem ekkert væri. Hann ætlaði ekki að láta Gil.
Því greip Eyjólfur til róttækari úrræða. Hann lokkaði tvo kunningja sína frá Botnastöðum í Svartárdal til að drepa fé Péturs sem hann hafði á húsi á jarðarparti sínum á YtriLöngumýri veturinn 1825. Þetta voru þeir Jón Árnason bóndasonur og Pétur Jónsson sem var vinnumaður á Botnastöðum. Lét Eyjólfur Jón hafa eintak af Vídalínspostillu fyrir ómakið en Pétri lofaði hann spesíum. Síðar sagðist Pétur að hann hefði svikið það allt. Það eina sem hann hefði fengið að launum hefðu verið fáeinir kjötbitar.
Eyjólfur lagði til að þeir félagar skæru hausana af fénu á YtriLöngumýri og röðuðu þeim í garðana en létu skrokkana liggja í krónum. Vonaðist hann til aðkoman yrði svo hryllileg að Pétur Skúlason myndi sjá sitt óvænna. En þeir Pétur og Jón sáu ekki handa sinna skil í náttmyrkrinu. Þeir létu því féð út og ætluðu að drekkja því í Blöndu. Það rakst hins vegar illa og þeir misstu það. Á endanum tókst þeim að hemja hóp á svellbunka og þar stungu þeir það sem þeir náðu til af skepnunum með hnífum eða sneru þær úr hálsliðnum og skildu allt svo eftir dautt og deyjandi, um 30 kindur. Restin slapp.
Þegar dæmt var í málinu í héraði í nóvember 1826 var Eyjólfur sýknaður af öllum ákærum, enda með fullkomna fjarvistarsönnun. Upp komst um Pétur því hann hafði týnt húfunni á vettvangi glæpsins. Jón hafði játað strax. Þeir tvímenningar voru dæmdir til hýðingar og fangelsisvistar í Rasphúsinu í Kaupmannahöfn. Fjárdrápin högguðu Pétri Skúlasyni ekkert. Ekki lét hann Gil.
Í kynlífsparadís
Eyjólfur barðist þessi árin á fleiri vígstöðvum. Þegar Sigurður Sigurðsson á Geithömrum kom fyrst í Gil og giftist Ingibjörgu, móður Eyjólfs, fylgdi honum maður að nafni Ísleifur Jóhannsson, ættaður frá Breiðavaði í Langadal. Hann hafði viðurnefnið „seki“ því á árunum 1818 til 1823 var hann þrídæmdur fyrir þjófnað og tók út vandarhögg í hvert sinn, uns hann var að endingu dæmdur við þriðja brot til ævilangrar erfiðisvistar í Kaupmannahöfn. Að auki skyldi hann staurhýddur og brennimerktur með þjófamarki á ennið.
Eyjólfi var gríðarlega illa við Ísleif. Ísleifur var nefnilega ofan á allt annað annálaður „kvennamaður“ og sá Sigurbjörgu, yngri systur Eyjólfs, ekki í friði. Um það leyti sem Ísleifur var dæmdur til rasphússtrits í Höfn sannaðist kvennamannsnafnbót hans með afgerandi hætti. Hann gegndi þá hlutverki aðalsóttkveikju í sárasóttarfaraldri sem skók Skagatrönd, Refasveit, Vindhælisog Engihlíðarhreppa á árunum 1823-24. Sýktust svo vitað sé um 40 manns af kynfæravörtum og sýfilis, sumir afar illa. Fjórðungslæknirinn, J.W. Hoffmann, og fyrrverandi fjórðungslæknir, Ari á Flugumýri, sinntu báðir sjúklingunum. Hélt Ari dagbók um þennan tíma sem er varðveitt þar sem hann lýsir persónum og leikendum og veikindum þeirra. Furðar það nútímafólk líklega mest hve fjörugu kynlífi fólk lifði hér áður fyrr. Kynsjúkdómurinn barst sem eldur í sinu milli bæja.
Uppruni veikinnar var rakin til kaupmannsfrúarinnar í Höfðakaupstað, Julig Stiesen, sem orðin var ekkja 1823 því sárasóttin hafði þá dregið eiginmann hennar, Stiesen kaupmann, til dauða. Sjálf hafði hún sængað með Ísleifi seka og var að áliti læknanna „sjúklingur númer eitt“.
Eyjólfur Jónasson vildi forða systur sinni frá Ísleifi en varð ekki kápan úr því klæðinu. Sigurlaug varð ófrísk eftir Ísleif og fylgdi honum svo að Breiðavaði þar sem fjölskylda hans bjó. Ísleifur smitaði hana síðan af sárasóttinni. Ari á Flugumýri sinnti henni og taldi hana læknaða þegar kom fram á árið 1824. Sigurlaug virðist í það minnsta hafa hrist þetta af sér því hún varð formannsfrú í Höfnum á Skaga og eignaðist eintóm merkisbörn.
Eyjólfur gafst ekki upp. Enn átti hann eftir að skipuleggja tilræði við Pétur Skúlason. Þeir stóðu í áralöngum málaferlum, tuskuðust á, lemstruðu hvor annan og komust ítrekað í kast við yfirvöld. Jón Árnason á Botnastöðum dó um sama leyti og dómurinn yfir honum var birtur svo aldrei fór hann í Rasphúsið í Kaupmannahöfn. Pétur Jónsson, Fjárdráps-Pétur, sem svo var kallaður, fékk tukthúsdóm sinn mildaðan í hæstarétti. En áður en hann frétti af því dó hann, aðfaranótt 14. mars 1828. Hann var þá staddur á Illugastöðum á Vatnsnesi. Hafði verið sendur þangað úr fangavistinni á Geitaskarði í Langadal í til að ná í lyf sem Natan Ketilsson ætlaði á útbúa. Þá nótt drap Friðrik Sigurðsson úr Katadal hann með hamri og hníf og kveikti síðan í líkinu með aðstoð Agnesar Magnúsdóttur. Voru þau bæði hálshöggvin fyrir verknaðinn 12. janúar 1830.