Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Af vettvangi Landbúnaðarháskóla Íslands
Lesendarýni 17. október 2025

Af vettvangi Landbúnaðarháskóla Íslands

Höfundur: Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskólans.

Undanfarin misseri hefur Landbúnaðarháskóli Íslands lagt áherslu á að efla bæði rannsóknir og kennslu, tengja skólann enn betur við atvinnulífið og jafnframt aukið starfsemi sína á alþjóðavettvangi. Hefur þetta þegar skilað árangri og lagt grunn að öflugra starfi til framtíðar.

Aukin alþjóðleg þátttaka

Með þátttöku í alþjóðlegum samstarfsverkefnum, svo sem Erasmus+, Horizon og LIFE, hefur Landbúnaðarháskólinn styrkt tengsl sín við evrópska háskóla og rannsóknastofnanir. Erum við meðal annars hluti af UNIgreensamstarfinu með sjö öðrum háskólum í Evrópu á sviði landbúnaðar og lífvísinda. Nýverið fengum við Horizon verkefnið DIGIRangeland samþykkt, en það snýr að notkun stafrænnar tækni fyrir búfjárrækt. Á síðasta ári fengum við styrk frá Minningarsjóði Halldórs Pálssonar til kaupa á búnaði til tilraunafóðrunar á sauðfjárbúinu að Hesti og er nú unnið að uppsetningu hans. Þann 20. október nk. verður haldin vinnustofa á Hvanneyri og Hestbúinu þar sem Horizon verkefnið og búnaðurinn verður nánar kynntur og er kynningin opin öllum áhugasömum. Verkefni þessi skapa ný tækifæri fyrir bæði nemendur og kennara til þátttöku í alþjóðlegum rannsóknar- og nýsköpunarverkefnum.

Rannsóknir og nýsköpun

Á sviði rannsókna höfum við einbeitt okkur að verkefnum sem tengjast sjálfbærni, nýtingu auðlinda og matvælaframleiðslu. Mikil áhersla hefur verið lögð á kynbætur í kornrækt með góðum stuðningi stjórnvalda og samkeppnissjóða.

Í haust hófst LIFE-verkefnið PeatlandLIFEline.is, en það miðar að endurheimt votlendis og stuðningi við líffræðilegan fjölbreytileika. Í tengslum við verkefnið verður einnig unnið að stígagerð og sköpuð aðstaða til fuglaskoðunar, samhliða uppbyggingu fræðslu- og gestastofu á Hvanneyri um Ramsarsvæðið Andakíl.

Þá höfum við lagt áherslu á hringrásarhagkerfið og nýjar leiðir í lífauðlindanýtingu, meðal annars með verkefnum er tengjast skordýraræktun og nýtingu lífræns úrgangs. Einnig höfum við komið að samstarfi stofnana og fyrirtæja um nýtingu örþörunga og þara og framtíðaruppbyggingu aðstöðu á Breiðinni á Akranesi.

Enn fremur er unnið að verkefninu Hátæknilandbúnaður, sem styrkt er af menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytinu og unnið í samstarfi við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Verkefnið hefur gert Landbúnaðarháskólanum kleift að festa kaup á drónum með tilheyrandi búnaði, sem nýtast mun bæði til kennslu og rannsókna á ýmsum sviðum.

Menntun og nýjar námsleiðir

Á síðustu árum hefur Landbúnaðarháskólinn eflt námsframboð sitt og lagt áherslu á fjölbreytt námstækifæri fyrir íslenska og erlenda nemendur. Mikil áhersla er lögð á endurgjöf og þátttöku nemenda í gæða- og umbótastarfi. Margir kennaranna hafa sótt nám í kennslufræði og á síðasta ári fékk einn þeirra inngöngu í Kennsluakademíu opinberu háskólanna.

Hafinn er undirbúningur að dýralæknanámi með Háskólanum í Varsjá (SGGW), þar sem fyrstu tvö árin verða kennd á Íslandi. Að þessu verkefni koma einnig Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði, Háskóli Íslands og Háskólinn á Hólum með styrk frá menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytinu. Verkefnið hefur vakið athygli og yrði hér um að ræða framfaraskref fyrir háskólastigið á Íslandi og framtíð íslensks landbúnaðar og dýravelferðar.

Þá hefur einnig verið aukið samstarf við hagaðila innan landbúnaðar og matvælaiðnaðarins. Nýir samstarfssamningar hafa verið gerðir við RML, LOGS, Matís og ON Power, sem munu enn frekar efla tengsl skólans við þessa aðila, og stuðla að nýjum samstarfsverkefnum sem styrkja munu íslenskan landbúnað.

Framtíðarsýn og innviðir

Fram undan eru fjölbreytt tækifæri og áskoranir. Áfram er haldið með uppbyggingu Jarðræktarmiðstöðvar og gróðurhúss á Hvanneyri, en FSRE hefur umsjón með framkvæmdunum. Jafnframt er verið að skoða möguleikann á að koma upp sólarsellum og varmadælum til að stuðla að sjálfbærari rekstri skólans.

Sameiningar?

Við undirbúning stefnu Landbúnaðarháskólans 2024–2028 voru ræddar hugmyndir um sameiningu við aðrar stofnanir. Ýmsar tillögur hafa komið fram, en enn sem komið er hefur engin vinna verið lögð í sameiningarmál hjá skólanum. Í staðinn hefur Landbúnaðarháskólinn lagt áherslu á að þróa áfram starf sitt á eigin forsendum samhliða því að samstarf við hagaðila hefur verið eflt og viðbótar fjármögnun tryggð með sókn í samkeppnissjóði.

Framtíðin er björt

Landbúnaðarháskóli Íslands er stoltur af rótum sínum í íslensku samfélagi og jafnframt með skýra sýn til framtíðar: að vera háskóli sem leiðir veginn til menntunar, með rannsóknum og nýsköpun á sviði landbúnaðar og lífvísinda. Tækifærin á Hvanneyri eru óþrjótandi og með góðu samstarfi við hagaðila, áframhaldandi sókn og með því að byggja á sögunni og samtvinna hana við áframhaldandi þróun, getum við lagt okkar af mörkum til þess að skapa sjálfbæran og samkeppnishæfan landbúnað til framtíðar. 

Gerum allt að garði
Lesendarýni 28. nóvember 2025

Gerum allt að garði

Garðurinn í kringum Listasafn Árnesinga í Hveragerði er bæði umgjörð um safnið o...

Ríkið á ekki að styrkja skógrækt með framandi ágengum tegundum
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Ríkið á ekki að styrkja skógrækt með framandi ágengum tegundum

Aukin ásókn í ræktun skóga með framandi ágengum tegundum, eins og hún hefur tíðk...

Að vera í stríði við sjálfan sig
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Að vera í stríði við sjálfan sig

Snjótittlingurinn er ein helsta hetja norðursins. Vegur um 40 grömm og stenst fr...

Aðgerðir til stuðnings sjálfbærum landbúnaði
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Aðgerðir til stuðnings sjálfbærum landbúnaði

Tækifærin til orkusparnaðar, aukinnar sjálfbærni og samdráttar í losun gróðurhús...

Bóndi er bústólpi, bú landstólpi
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Bóndi er bústólpi, bú landstólpi

Um allt land á Íslandi eru lítil þorp, með litlum húsum en stórum garði. Garðuri...

Er ríkið að takmarka eignarrétt á kostnað landeigenda?
Lesendarýni 26. nóvember 2025

Er ríkið að takmarka eignarrétt á kostnað landeigenda?

Framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár gengur í fáum orðum út á það til hvaða aðgerð...

Beitarstýring er best
Lesendarýni 18. nóvember 2025

Beitarstýring er best

Í 16. tölublaði Bændablaðsins frá 11. september er forsíðugrein sem heldur því f...

Ávaxtaðu jarðveginn þinn
Lesendarýni 18. nóvember 2025

Ávaxtaðu jarðveginn þinn

Heimsbyggðin stendur frammi fyrir tveimur áskorunum, loftslagsbreytingum og hnig...