Höfum skýra sýn til framtíðar
Mynd / Bbl
Skoðun 18. nóvember 2021

Höfum skýra sýn til framtíðar

Höfundur: Gunnar Þorgeirsson - formaður Bændasamtaka Íslands gunnar@bondi.is

Þann 11. til 12. nóvember sótti ég aðalfund dönsku bændasamtakanna. Á þeim fundi voru 402 fulltrúar með atkvæðisrétt. Á setningarathöfninni voru viðstaddir um 600 manns úr landbúnaðargeiranum ásamt fjölmörgum stjórnmálamönnum, ráðherrum, þingmönnum og sveitar­stjórnarfulltrúum. Það var athyglisvert að fá að fylgjast með áherslum danskra bænda til framtíðar. En hún grundvallast á því að framleiða matvæli í Danmörku og að draga úr kolefnisspori dansks landbúnaðar og vernda störf. Við bændur hérlendis eigum margt sameiginlegt með kollegum okkar í þessum málum.

Íslenskir bændur ætla ekki að segja sig til sveitar

Eitt sem mér fannst standa upp úr í þeirra áherslum er að þeir vilja taka ábyrgð á kolefnislosun frá dönskum landbúnaði og draga úr henni á heimavelli. Bæði til að skapa störf heima fyrir en ekki síður til að segja sig ekki til sveitar og flytja út kolefnislosunina til annarra landa með því að flytja inn landbúnaðarvörur.

Nýverið náðist samkomulag milli danskra bænda og ríkisins um aðgerðir er lúta að þessum málum til að styðja við framleiðslu heima fyrir og var samkomulagið þverpólitískt á danska þinginu. Niðurstaðan eru stóraukin framlög til að styðja við umbreytinguna í dönskum landbúnaði á næstu tíu árum. Þetta er eitthvað sem við þurfum að horfa til með íslenskan landbúnað til framtíðar.

Af umræðunni hérna heima má ætla að lausnin sé sú að flytja bara allt inn. Þannig lítum við vel út í bókhaldinu og við látum aðra hafa áhyggjur af því kolefnisspori sem verður til við framleiðsluna. Þannig munum við ekki leysa loftslagsvandann. Því tel ég mjög mikilvægt að við náum saman með ríkisvaldinu um framtíð íslensks landbúnaðar og höfum skýra sýn til framtíðar hvert skal stefna. Þar er lykilatriði að samþykkja landbúnaðarstefnu fyrir íslenska þjóð í sátt við greinina.

Danir ætla að takast á við vandann með þekkingu

Annað sem kom skýrt fram í þeirra máli var að auka þarf verulega við rannsóknir á þeim málum er snúa að því hvar menn eru staddir í vegferðinni og hvað gerist með ákveðnum aðgerðum og hverju það er að skila. Þetta hljómar kunnuglega úr íslenskri umræðu. Þetta er verulega brýnt mál hér á landi þar sem við byggjum okkar hugmyndafræði á gögnum sem teknar eru frá öðrum löndum og heimfært upp á framleiðslu á landi sem er mun erfiðara að yrkja og stunda framleiðslu á. Þá á ég ekki síður við kostnaðarsamar byggingar þar sem við þurfum að hýsa skepnur í mun fleiri mánuði en nágrannar okkar í Evrópu.

Mjög athyglisvert verður að fylgjast með þróun þeirra Dana á að vinna prótein úr grasi, þeir telja mjög mikil tækifæri í þeirri framleiðslu til framtíðar. Þannig megi venja danska mjólkur- og kjötframleiðslu af því að vera háðir innfluttum aðföngum á prótíni. Ég tel að þarna séu gríðarleg tækifæri fyrir íslenska bændur þar sem við erum miklir framleiðendur á grasi og ættum að nýta okkur þau tækifæri sem þarna gefast.

Ísland hentar afburðavel til framleiðslu á grasi, með sínum löngu sumarnóttum. Það er íslenskum landbúnaði mikilvægt að við fylgjumst vel með þessum rannsóknum þannig að hægt verði að innleiða þær lausnir sem henta hérlendis sem fyrst eftir að þær sanna sig. Við höfum fordæmin nú þegar, en kúabændur hafa síðustu ár unnið að innleiðingu á erfðamengisúrvali í nautgriparækt – örfáum árum eftir að það var sýnt fram á að það væri yfirhöfuð hægt í eins litlum stofni og hinum íslenska.

Áburðarframleiðsla á Íslandi er möguleg  

Til að bregðast við hækkandi áburðarverði hef ég lýst því að með fyrirhugaðri verksmiðju til framleiðslu á vetni til orkuskipta þá erum við ansi nálægt því að vera komin með áburðarverksmiðju til að framleiða tilbúinn áburð, hvort sem er til útflutnings eða notkunar innanlands. Ég vil hvetja þá aðila sem eru að horfa til framleiðslu á vetni að taka þetta inn í myndina og nýta þá orku sem við búum yfir á Íslandi.

Nýr landbúnaðarráðherra

Það er mikil eftirvænting í hugum bænda hver verður næsti ráðherra landbúnaðarmála, en eins og fram kemur í fréttum dagsins er stefnt að því að kynna ráðherraskipan öðru hvorum megin við helgina næstkomandi. Við vonumst til að eiga gott samstarf við komandi ráðherra og þökkum fráfarandi ráðherra, Kristjáni Þór, fyrir samstarfið á kjörtímabilinu.

Nýr ráðherra með leiðarvísi
Skoðun 3. desember 2021

Nýr ráðherra með leiðarvísi

Ríkisstjórnar- og ráðherraskipti boða alltaf nýtt upphaf þótt margt fari öðruvís...

Miklir möguleikar
Skoðun 3. desember 2021

Miklir möguleikar

Heimsfaraldur vegna Covid-19 er smám saman að koma jarðarbúum í skilning um að s...

Mörg málefni sem þarf að taka á
Skoðun 2. desember 2021

Mörg málefni sem þarf að taka á

Ég vil óska Svandísi Svavarsdóttur til hamingju með nýtt embætti matvæla-, sjáva...

Hin skítugu leyndarmál jarðefnaeldsneytis
Skoðun 30. nóvember 2021

Hin skítugu leyndarmál jarðefnaeldsneytis

Framúrskarandi íslenskir sauðfjárbændur
Skoðun 30. nóvember 2021

Framúrskarandi íslenskir sauðfjárbændur

Sauðfjárræktin hefur nú um árabil barist í bökkum vegna afurðaverðs sem er ýmist...

Meira þarf til en bókhaldsbrellur
Skoðun 26. nóvember 2021

Meira þarf til en bókhaldsbrellur

Kofi Annan, friðar­verðlaunahafi og fram­kvæmdastjóri Sam­einuðu þjóðanna 1997–2...

Dauðans alvara
Skoðun 19. nóvember 2021

Dauðans alvara

Það verður æ áþreifanlegra hvað fæðu­öryggi er þjóðum mikilvægt. Náttúru­hamfari...

Höfum skýra sýn til framtíðar
Skoðun 18. nóvember 2021

Höfum skýra sýn til framtíðar

Þann 11. til 12. nóvember sótti ég aðalfund dönsku bændasamtakanna. Á þeim fundi...