Við eigum verk fyrir höndum
Á dögunum áttu Bændasamtökin fund með atvinnuvegaráðherra, þar sem við ræddum meðal annars vinnuna fram undan um starfsskilyrði landbúnaðarins. Gildandi búvörusamningar renna út í lok næsta árs og því meiri tími sem samningsaðilar gefa sér í vinnu og viðræður því betri verður niðurstaðan. Það er því afar ánægjulegt að á fundinum var ákveðið að vinnan skuli hefjast þann 19. ágúst næstkomandi.
Mér þykir það líka lofa góðu að ráðherra tók undir þau rök okkar að tollamál eigi að vera hluti af þessari vinnu, enda eru þau klárlega hluti af starfsskilyrðum landbúnaðar og bænda.
Eins og ráðherrann sagði sjálf þá eru mikil tækifæri í landbúnaði og með góðum og framsýnum búvörusamningum er hægt að tryggja nýliðun í greininni, stutt við kynslóðaskipti og aukið verðmætasköpun. Þessum markmiðum er samt best náð með því að tryggja bændum sanngjarnar tekjur fyrir sína vinnu og það markmið verður í framsætinu hjá okkur á komandi mánuðum og misserum.
Nær allir Íslendingar eru sammála um það að landbúnaður er hagsmunamál almennings, og á það meira að segja við um suma þeirra sem lengst vilja ganga í innflutningi á erlendum landbúnaðarafurðum.
Almenningshagsmunirnir verða augljósari og skýrari við lestur frétta af heimsmálunum síðustu mánuði. Nær daglega kvarnast úr þeim stöðugleika í samskiptum ríkja og alþjóðaviðskiptum sem ríkt hefur – þó ekki hnökralaust – frá falli Sovétríkjanna. Vonandi er um tímabundið ástand að ræða, en stríðsátök og vöðvahnyklingar stórvelda gera öll aðföng erfiðari og dýrari.
Það þarf enga sérmenntun til að sjá fyrir afleiðingar þess ef Íranir bregðast við sprengjuárásum með því að loka fyrir olíuflutninga um Persaflóa, enda höfum við séð það áður. Hærra olíuverð hefur áhrif á verðlagningu á nær öllum öðrum vörum, ekki síst matvælum af öllu tagi.
Öflugur innlendur landbúnaður og matvælaframleiðsla er aldrei mikilvægari en einmitt þegar óvissuástand er í heiminum. Við sjáum það líka að í löndunum í kringum okkur er verið að stíga skref til að styrkja landbúnað og matvælaframleiðslu enda virðist að flestar þjóðir hafi áttað sig á mikilvægi öflugs landbúnaðar fyrir þjóðaröryggi hvers ríkis á óvissutímum.
Það er ekki ætlun mín að mála hlutina dekkri litum en þörf er á. Alþjóðaverslun er ekki að leggjast af – langt frá því – og vonandi munu stríðsátök heimsins taka endi fyrr en síðar. En fæðuöryggi er þess eðlis að ef það er ekki til staðar þegar á reynir, er ekki hægt að spinna það úr lausu lofti.
Landbúnaður og matvælaframleiðsla eru samofin íslenskri menningu og íslensku samfélagi og verðmæti landbúnaðarins er fólgið í ótalmörgum ólíkum þáttum sem ekki verða allir metnir til fjár, en fæðuöryggi og fæðufullveldi eru vissulega meðal verðmætari þátta og alveg ómetanlegir ef á þá reynir.
Það eru ótrúlega mikil og fjölbreytt tækifæri í íslenskum landbúnaði, en það er mikilvægt að skapa bændum möguleikann til að grípa tækifærin sem við þeim blasa og því nauðsynlegt að vanda vel til verka í þeirri vinnu sem fram undan er og bæta hvort tveggja í senn innri og ytri skilyrði landbúnaðarins til að raungera tækifærin. Saman eru bændur og stjórnvöld í einstakri stöðu til að renna styrkari stoðum undir það góða starf sem bændur vinna nú þegar og leysa úr læðingi krafta sem ekki hafa fengið að njóta sín til þessa. Ég ber vonir til að sú verði raunin og hlakka til vinnunnar sem fram undan er.
