Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Umhirða í fallegum furuskógi.
Umhirða í fallegum furuskógi.
Mynd / Björgvin Eggertsson
Á faglegum nótum 4. desember 2023

Umhirða skóga er aukinn hagur

Höfundur: Hlynur Gauti Sigurðsson

Af mörgu var að taka á vel sóttu málþingi skógarbænda sem haldið var að Þinghamri á Varmalandi í Borgarfirði laugardaginn 14. október síðastliðinn.

Í þessari grein verður fjallað um seinni hluta þingsins sem gekk út á skógarumhirðu og gagnvið. Í 20. tölublaði Bændablaðsins má nálgast fyrri hluta umfjöllunarinnar sem fjallaði um matvæli sem hægt er að hafa í og af skógi.

Fyrir áhugasama má nálgast frekari upplýsingar um málþingið undir fréttir á skogarbondi.is þar sem meðal annars er aðgengilegur hlekkur á myndupptöku af Youtube- síðu Bændasamtaka Íslands.

Umhirða og fjárhirða.
Mynd / Jóhann Þórhallsson.

Hagaskógar

Jóhann Frímann Þórhallsson er sauðfjárbóndi austur í Fljótsdal. Þar hefur hann ræktað 100 hektara skóg á jörð sinni Brekkugerði í 30 ár. Hann nýtir skóg sinn til framleiðslu jólatrjáa og viðarvinnslu. Hann hirðir vel um skóginn sinn, uppkvistar og tvítoppaklippir trén, og þannig mun skógurinn einn daginn skila gæðaviði í hæsta verðflokki. Hann beitir sauðfénu skipulega í hólf í skóginum.

Það gerir skóginum mjög gott. Til að mynda bítur búpeningurinn sinuna úr botni skógarins og minnkar þannig stórlega hættu á gróðureldum. Þegar fé gengur um skóginn bítur það fyrst og fremst nýgræðinginn að vori. Það er því mikilvægt að trén, sem ætlunin er að rækta til nytja, séu nægilega stór og þroskuð þegar fénu er sleppt í hann og í lerkiskógi er gott að miða við 15 ára skóg. Ekki er annað að sjá en féð njóti þess að vera í skjóli trjánna.

Fé fagnar skjóli af vindi sem og sól. Mynd / Jóhann Þórhallsson.

Trén eru eins og við

Lárus Heiðarsson, sérfræðingur hjá Skógræktinni og skógarbóndi í Fljótsdal, sagði frá mikilvægi umhirðu. Skógrækt er ræktun eins og önnur ræktun.

Til að hámarka ávöxtun afurðanna og ná sem bestum árangri þarf að sinna henni. Í tilfelli skógræktar hérlendis er lykilatriði að velja réttan efnivið í viðeigandi umhverfi, eins og að velja trjátegundir eftir því hvað vex best við viðkomandi aðstæður. Eftir gróðursetningu skal fylgjast með lifun plantnanna og sé hún slakari en vænst var má íhuga hvort huga ætti að íbótum; það þýðir að endurgróðursetja nýjar plöntur í stað þeirra sem drápust á fyrsta sumri.

Uppkvistað beinvaxta lerki og uppvaxandi ungt greni. Mynd / Lárus Heiðarsson.

Þær þurfa ekki endilega að vera af sömu tegund. Í uppvexti þarf sérstaklega að huga að því að klippa trén til svo þau vaxi sem einn stofn. Með nokkurra ára millibili eru lökustu trén fjarlægð til að gefa eftirstandandi trjám færi á að gildna. Trén stækka á nokkrum áratugum og því má gera ráð fyrir að næsta kynslóð ábúenda komi að lokahögginu, þ.e. þegar komið er að uppskeru á lokaafurðinni. Loks eru trén flutt í sögunarmyllu þar sem loksins má sjá hvernig ræktun síðustu áratuga gekk. Sem sagt „trén eru eins og við“; ekki skal dekra þau um of en samt nægilega svo þau verði að við.

Skógtæknir

Björgvin Eggertsson, brautarstjóri skógtæknibrautar hjá Garðyrkjuskólanum að Reykjum, sagði frá öllum þeim möguleikum sem fylgja því að vinna í og við skógrækt. Námið í Garðyrkjuskólanum er fjölbreytt enda nýtist það fjölmörgum starfsstéttum og starfssviðum þjóðfélagsins.

Má þar nefna skipulagsfræðinga hjá sveitarfélögum, skrúðgarðyrkju, plöntuframleiðslu á öllum stigum, grisjunarverktaka, trjáklifrara, ferðaþjónustu, gróðursetningaverktaka, hönnuði og miklu fleira.

Skógrækt snýr líka að félagslegum gildum og skógar eru tilvaldir staðir til útivistar eða íhugunar og svo má lengi telja. Björgvin gat þess einnig að skýrt hafi komið fram í fyrirlestrum annarra að skógrækt snúist þó fyrst og fremst um viðurværi.

Þeir sem nú þegar stunda skógrækt og einnig þeir sem eiga eftir að stunda hana munu reyna að byggja skógana upp til að hafa tekjur af viðarframleiðslu og jafnvel kolefnisbindingu.

Þaðerímörghornaðlítaí skóginum og hægt er að nálgast fræðslu þess efnis hjá Garðyrkjuskólanum á Reykjum / FSU.

Umhirða bætir viðargæði. Falleg ösp í góðum vexti. Mynd / Lárus Heiðarsson

Viðarmiðlun

Eiríkur Þorsteinsson trétækniráðgjafi er einn reynslumesti trétæknir landsins. Hann rakti sögu viðarvinnslu í grófum dráttum og kom meðal annars inn á smíði fyrstu límtrébrúar landsins sem smíðuð var úr íslensku lerki. Brúin er enn til en bíður endaloka sinna vegna vöntunar á viðhaldi. Vinnslu viðar hefur aftur á móti fleytt fram, allt frá því að forystumenn í skógrækt opnuðu viðarmiðlun í samvinnu við BYKO á áttunda áratug síðustu aldar yfir í nýlegt kennsluverkefni úr norrænu samstarfi sem kynnir sig sjálft á heimasíðunni treprox.eu.

Eiríkur sagði frá flokkunarkerfi þar sem timbur er útlitsflokkað með tilliti til viðargæða og styrks. Búið er að útbúa kennsluefni um flokkunarkerfið og eftir áramót verður fyrsta rennsli á kennsluefninu. Markmiðið er að fólk sem kemur að viðarvinnslu og meðhöndlun viðar skilji mikilvægi viðargæða og hafi getu til að flokka timbur eftir stöðlum. Timburiðnaðurinn á Íslandi er kominn á það stig.

Skandinavía

Brynjólfur Jónsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands, sagði frá nýútkominni bók um þátttöku Norðmanna í skógrækt hérlendis. Bókin er mjög vegleg og segir frá langri sögu frænda vorra við að koma upp skógarreitum víðs vegar um Ísland ásamt ýmsu öðru áhugaverðu. Við eigum Norðmönnum margt að þakka við uppgang skógræktar á Íslandi. Bókin heitir „Frændur fagna skógi“.

Á meðan Brynjólfur sagði frá sögu fyrri tíma opnaði Dagbjartur Bjarnason, skógarbóndi og stjórnar- liði í búgreinadeild skógarbænda hjá BÍ, augun fyrir því öfluga starfi sem unnið er meðal skógarbænda á Norðurlöndunum. 

Södra, fyrirtæki í eigu skógarbænda í Suður-Svíþjóð, er til dæmis að hefja framleiðslu á textíl sem búinn er til úr við

Helstu tískufyrirtæki heimsins eru nú þegar farin að nýta þann efnivið í fatalínur sínar. Dagbjartur hvatti okkur skógarbændur til að gera eins og frændur okkar ytra og endaði á að fjalla um hugtakið „family forest“ eða fjölskylduskógrækt sem er grundvöllurinn að þeirri skógrækt sem skógarbændur á Norðurlöndum stunda.

Samantekt

Skógar hafa heilmargt fram að færa. Það er göfugt og gæfulegt að opna einstaka rjóður og gera aðgengilegt en það skilar sér margfalt til baka þegar skógarbændur hafa farið um skóginn, tvítoppaklippt, snyrt og grisjað yfir allan ræktunartímann.

Timburgæðin aukast með alúð ræktandans og verðmiði timbursins hækkar að sama skapi. Því má ekki gleyma að timbur er það hráefni sem mest hefur verið nýtt til húsbyggingar á Norðurlöndum yfir aldirnar. Skógrækt er grunnurinn að sjálfbærni stoltrar þjóðar.

Félögin sem stóðu að málþinginu voru búgreinadeild skógarbænda hjá Bændasamtökum Íslands ásamt félögum skógarbænda á Vesturlandi, Austurlandi, Norðurlandi, Vestfjörðum og Suðurlandi. Samstarfsaðilar voru Skógræktin, Skógræktarfélag Íslands, Landbúnaðarháskólinn, Garðyrkjuskólinn og Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins.

Styrktaraðilar voru Ölgerðin, Kaupfélag Borgfirðinga, Kvistabær, Kolefnisbrúin, Móðir Jörð, Holt og heiðar, Hraundís og Agnes Geirdal. Hótel Varmaland veitti ómælda aðstoð við skipulag.

Allir sem hér eru taldir upp ásamt fleiri og fleiri sjálfboðaliðum eiga miklar þakkir skildar, ljóst er að án þeirra hefði málþingið ekki orðið eins fínt og fróðlegt og raun bar vitni.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...