Grilluð indíánaaxar-steik með grilluðum kartöflum, grilluðum maís og grilluðu spergilkáli.
Grilluð indíánaaxar-steik með grilluðum kartöflum, grilluðum maís og grilluðu spergilkáli.
Mynd / Hari
Matarkrókurinn 5. júlí 2024

Stórkarlasteik

Höfundur: Haraldur Jónasson

Nú fara jafnvel eldavélafælnustu karlpungar landsins að taka sér stöðu við grillið. Pullur, hamborgarar, svínalund í legi, svo ekki sé talað um ofurkryddaðar lærisneiðar – munu rata yfir gasloga eða rjúkandi heita kolamola.

En stundum, kannski einu sinni yfir hið ótrúlega stutta sumar okkar, dregst grillarinn inn í þyngdarafl stórsteikurinnar. Þá er jafngott og annað að velja Tomahawk-steik.

Tomahawk-steik, sem hægt væri að kalla indíánaöxi á okkar ylhýra ef það telst pólitískt rétt, fær nafnið sitt frá útlitinu. Þetta er sum sé nautarifjarauga með áföstu rifbeini. Lítur svolítið út eins og fyrrgreint frumbyggjavopn. Rifið – beinið – hefur svo til engan tilgang annan en að það er gríðarlega töff að grilla steik með risastóru áföstu beini. Líka fallegt á diski reyndar.

Kjötbragð er gott

Indíánaaxar-steik er stór kjötbiti og eins og venjulegt rifjarauga eða ribeye er talsvert um fitu og tengivef í kjötbitanum. Það þarf því að hantera hann þannig að fitan nái aðeins að bráðna og tengivefurinn trosni aðeins. Hvort tveggja næst með því að elda stykkið á frekar lágum hita í svolítinn tíma. 40 mínútur – klukkutími ætti að duga við hita á bilinu 130–160 gráður.

Fyrst þarf að þerra allan vökva af steikinni og salta vel. Salta meira en minna. Þetta er vonandi stórt kjötstykki. Láta kjötið ná sirka stofuhita áður en það fer á grillið. Tekur sirka klukkutíma.

Akkúrat nægur tími fyrir saltið að komast aðeins undir yfirborðið.

Þetta er dýr steik og því mjög ákjósanlegt að hafa mikið kjötbragð af steikinni þannig að salt og pipar er eina kryddið sem þarf en auðvitað smekksmál og undir grillaranum komið hvað fer á steikina. En piparinn og mögulega fleiri kryddtegundir fara ekki á fyrr
en undir lokin.

Grillblendingur

Án þess að hafa gert á því vísindalega talningu get ég mér til að flestir grillarar landsins brúki gasgrill hvunndags. Það er ljómandi fínt, sér í lagi þegar verið er að grilla lítil stykki beint yfir eldinum. En þegar verið er að grilla stærri steikur við óbeinan eld þarf að gera eitthvað til að skapa smá reyk í gasgrillinu.

Það er hægt á margan hátt; það eru til box fyrir spæni og hægt að brúka harðviðarkubba. En þar sem ekki er ætlunin að reykja kjötið í langan tíma er einfaldlega hægt að hita nokkur kol og setja í stóran álbakka. Stilla grillið fyrir óbeinan hita, þannig að kjötbitinn sé þeim megin sem enginn er eldurinn og setja svo heit, reykjandi kolin eldmegin á grillið.

Passa að kolin séu heit og hafa því áhrif á hitann í grillinu. Elda með lokið á og passa að hitinn fari ekki mikið yfir 150 gráður.

Steik og kol á gasgrilli.

Lokahnykkurinn

Gott að snúa steikinni einu sinni í hægelduninni. Tekur þykkan kjöbita sirka 45 mínútur að ná 50 gráðum í kjarnhita við svona miðlungs hita. Best að giska samt ekkert á hitastigið á stórsteikum og brúka hitamæli. Þegar steikin nær réttum hita í koluðum reyknum er komið að því að grilla. Það er, elda beint yfir eldinum.

Gott að smyrja örlítið af hlutlausri olíu á steikina og pipra vel með nýmuldum pipar. Steikin tekur lengi við og því gott að nota meiri pipar en minni. Hita grillið í botn og elda stykkið þannig að á því myndist falleg skorpa. Passa samt að ekkert brenni. Því gott að snúa oft og muna að flippa ekki bara heldur snúa steikinni þannig að grillrendurnar snerti sem mest af steikinni.

Þegar skorpan er orðin þroskuð og steikin komin í æskilegan kjarnhita, 55–60 gráður eða svo, þarf að hvíla hana vel. Að minnsta kosti í korter. Gott að strá góðu salti yfir steikina og jafnvel smjörklípu. Skera svo niður í strimla. Bera fram með einföldu meðlæti og tæknilega þarf enga sósu, þetta er djúsí stöff.

Stór Tomahawk steik er nægur matur fyrir þrjá til fjóra matmagra – eða einn stóran strák.

Stórkarlasteik
Matarkrókurinn 5. júlí 2024

Stórkarlasteik

Nú fara jafnvel eldavélafælnustu karlpungar landsins að taka sér stöðu við grill...

Reykt svín og remúlaði
Matarkrókurinn 6. júní 2024

Reykt svín og remúlaði

Munurinn á heitreyktum og kaldreyktum mat er heilmikill.

Eitthvað ofan á brauð
Matarkrókurinn 10. maí 2024

Eitthvað ofan á brauð

Ef smjör er ekki eitt af sjö undrum veraldar þá hlýtur það að vera númer átta. N...

Hryggur um páskana
Matarkrókurinn 26. mars 2024

Hryggur um páskana

Það er nánast samofið páskunum að borða lambakjöt af einhverju tagi. Læri, hrygg...

Rasmus og Sven gera bollur
Matarkrókurinn 18. mars 2024

Rasmus og Sven gera bollur

Hakkréttir eru fín leið til að metta marga og vinsæll valkostur á heimilum lands...

Tvistað við ofurstann
Matarkrókurinn 4. mars 2024

Tvistað við ofurstann

Djúpsteiktur kjúklingur, sem flestir þekkja í gegnum ofursta nokkurn frá Kentuck...

Reykt ýsa, blaðlaukur og kartöflur
Matarkrókurinn 19. febrúar 2024

Reykt ýsa, blaðlaukur og kartöflur

Hvernig passar blaðlaukur, reykt ýsa og kartöflur saman? Jú barasta prýðilega, t...

Boli & brokkólí
Matarkrókurinn 31. janúar 2024

Boli & brokkólí

Nautakjöt og brokkólí er klassískur asísk-amerískur réttur sem á sennilega ættir...