Harmonikunni fagnað á Klaustri
Um sjómannadagshelgina verður haldin harmoniku- og alþýðutónlistarhátið á Kirkjubæjarklaustri.

Guðmundur Óli Sigurgeirsson, tónlistarunnandi og fyrrum kennari á Kirkjubæjarklaustri, segir upphaf hátíðarinnar hafa verið þá að hann bauð vinum sínum frá Selfossi að spila með honum árið 2020. „Við höfðum oft komið saman á Selfossi um veturinn til að spila saman,“ segir Guðmundur Óli. „Þar sem ég átti um langan veg að fara fannst vinum mínum ágætt að koma að vori hingað austur. Við fengum inni í félagsheimilinu og skemmtum okkur þar.
Þetta var lítill hópur þar sem þetta var ekkert auglýst, en okkur sýndist að það gæti verið grundvöllur fyrir því að halda harmonikuhátíð. Við komumst í samstarf við Vatnajökulsþjóðgarð sem hefur meðal annars stutt okkur með því að leggja til gamla braggann á Kirkjuhvoli fyrir spilamennsku.“
Samspil, dansleikur og messa
„Þarna kemur saman rjóminn af harmonikuleikurum á Suðurlandi. Klukkan tvö á laugardeginum mæta allir sem vilja í Kirkjuhvol til að syngja og spila, hvort sem það er á harmonikur eða eitthvað annað. Djassararnir kalla þetta að djamma og stendur það í tvo til þrjá tíma þangað til fólk þarf að taka sér frí til að grilla.
Um kvöldið er dansleikur sem byrjar klukkan átta og stendur til miðnættis. Þar spila þrír hópar og einn sólóisti. Aldurstakmarkið er ekkert, þannig að foreldrar geta komið með börnin sín og prufað hvort þeim finnst gaman að snúast með gamla fólkinu,“ segir Guðmundur Óli. Hann segir tónlistina henta fyrir gömlu dansana.
„Svo er sjómannadagurinn á sunnudeginum og þá verður haldin messa í kapellunni klukkan ellefu. Þar mun séra Ingimar messa og sjá kirkjukórinn og nokkrir harmonikuleikarar um tónlistina, en ég get lofað því að þetta verður kát messa. Í lokin á henni býður sóknin öllum kirkjugestum í súpu og brauð á hótelinu, þannig að héðan á enginn að fara svangur og súr.“
Enginn aðgangseyrir
„Það sem er merkilegt við þessa hátíð er að við höfum enga aura. Okkur hefur tekist að fá fólk til þess að spila hér fyrir ekki neitt og við borgum ekkert fyrir húsnæðið, þannig að það er enginn aðgangseyrir. Fólk getur komið og skemmt sér án þess að vera með nein fjárútlát.
Tjaldsvæðið hér á Kirkjubæ 2 tekur vel á móti fólki og svo skilst mér að hótelið ætli að bjóða upp á einhver tilboð. Hótel Laki hefur stutt okkur mjög vel, en þau bjóða öllum sem spila á ballinu í kvöldverð. Ég finn fyrir miklum velvilja í samfélaginu. Við pössum okkur á því að hafa þetta litla og notalega hátíð þannig að þetta vaxi okkur ekkert yfir höfuð,“ segir Guðmundur Óli að lokum.