Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 mánaða.
Víða eru bæjarstæði á Íslandi undurfögur og stórhrikaleg. Bærinn Breiðavík dregur nafn sitt af samnefndri vík á Vestfjörðum, en Breiðavík er ein af svonefndum Útvíkum og liggur milli Látravíkur og Kollsvíkur.
Víða eru bæjarstæði á Íslandi undurfögur og stórhrikaleg. Bærinn Breiðavík dregur nafn sitt af samnefndri vík á Vestfjörðum, en Breiðavík er ein af svonefndum Útvíkum og liggur milli Látravíkur og Kollsvíkur.
Mynd / Bbl
Líf og starf 11. apríl 2025

Bæjarnöfn á ská og skjön

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Nöfn íslenskra bæja og býla til sveita eru fjölskrúðug, svo ekki sé dýpra í árinni tekið.

Nafngiftirnar draga oft dám af staðháttum, kennileitum, sagnfræði svæðisins, veðurfari eða jafnvel eigendum að fornu og nýju.

Fjallað var um bæjarnöfn í 2. tbl. Bændablaðsins sumarið 1987, þá í útgáfu félagsins Bændasona. Voru íslensk bæjarnöfn þar ýmist sögð torræð, flókin, fyndin, skondin, skrýtin eða venjuleg: „Fram á þessa öld fengu Íslendingar að ráða nöfnum bæja sinna sjálfir – danski kóngurinn var aldrei svo vondur að setja eitthvert kansellíið sitt í að ráðskast með þessi mál. Og þess vegna eigum við enn þá mikið af góðum nöfnum sem eru upprunnin hjá fólkinu í sveitunum.“ Rætt er í greininni um þá ósvinnu að breyta gömlum nafngiftum bæja: „Hvernig geta menn fengið sig til þess að afnema falleg og skemmtilegt nöfn eins og Látalæti, en sá bær stendur ofarlega í Landsveit undir Skarðsfjalli, sem sagt Látalæti í Landi, og kalla bæinn Múla?

Dæmin eru ótal fleiri, Snússu var breytt í Ásatún ... Stritlu í Dalsmynni, Tittlingi í Fagrahvamm.“ Einnig er minnst á bæjarnafnið Stamp sem ekki sé lengur til og nafnið Fjólugerði á bæ sem ekki sé annað en „illa hirtur gróðurvana haugur,“ eins og segir í greininni frá 1987. Þar er einnig leitt getum að því að nágrannar hafi stundum „uppnefnt“ bæi af kerskni og þau viðurnefni fest við, hvort sem ábúendum líkaði betur eða verr.

Langstærst eða alminnst

Fólk hefur ýmist þanið bæjarnöfn út með því að skeyta framan við þau t.d. stóri-, stærsti-, mesti-, digri-, dýri- og auðs-, eða viljað hafa nafnið minna en eitthvað annað og skeytt þá við minni-, smái- og jafnvel minnsti-. Að ekki sé nú talað um kot og parta, t.d. Kotungsstaði og Kotleysu. Þá rak á fjörur nafnið Aðalbreið.

Bæjarnöfn eru mönnum oft töm á tungu, heimafólki ekki síst, en séu þau tekin úr samhengi og skoðuð sérstaklega eru þau stundum framandleg, og beinlínis skrítin.

Gaman er að skoða bæjatal Árnastofnuna sem býður upp á ýmsar flokkanir eftir sýslum og sveitarfélögum. Má þar til dæmis sjá að mörg bæjarnöfn eru afar látlaus og nöfnin oft í takt við alþekkt og hversdagsleg fyrirbæri í náttúrunni. Svo sem:

Á, Álar, Ás, Bali, Barð, Barmur, Berangur, Berghylur, Botnsmýrar, Brún, Bæjarfljót, Dalbrún, Dalland, Fjall, Fyrirbarð, Grasgeiri, Grashóll, Gráhella, Grjót, Grjóteyri, Grjótgarður, Grjótnes, Grunnvatn, Gröf, Haugur, Haugar, Hauganes, Haugabrekka, Heiðarbrún, Hólaland, Hraukbæjarkot, Hvarf, Jarðbrú, Kelda, Kúfhóll, Malarás, Miðbýli, Miðsker, Moldbrekka, Moldhaugar, Moldnúpur, Mór, Mosi, Mykjunes, Mýrarlón, Nabbi, Rof, Runnar, Skák, Sker, Slýjar, Steintún, Stífla, Stóralág, Sviðningur, Tjörn, Torfa, Túngarður, Urðir, Vatn, Veiðilækur, Veisa, Þúfa og Þúfur.

Þá má nefna Grafarbakka og Grafardal og einnig hin látlausu nöfn Bæ, Bæi, Bæjarstæði, Bústaði, Staðarstað, Heimabæ og Deild.

Heiti eftir veðri, dýrum og formum

Veðurtengd bæjarnöfn finnast allmörg og meðal þeirra eru:

Belgsdalur, Ísabakki, Kalastaðir, Kulvaldur, Skjaldfönn, Slitvindastaðir, Snæbýli, Snæfoksstaðir, Sólbyrgi, Svalbarð, Svalvogur, Tíðagerði, Veðramót, Veturhús, Vindbelgur, Vindheimar, Vindhæli og Þytill.

Bæir heita einnig eftir formum og merkjum, t.d. Baugasel, Bogabúð, Bogey, Hyrningsstaðir, Komma, Kúludalsá, Lykkja, Svignaskarð og Þríhyrningur. Ekki er þó loku fyrir það skotið að nefndur bogi sé einfaldlega mannsnafnið Bogi og heitið þaðan, eins og er m.a. raunin í fjölmörgum bæjarnöfnum sem tengjast Íslendingasögum og nafnkenndum fornmönnum.

Dýr koma víða við sögu í heitum býla, svo sem;

Arnarbæli, Apavatn, Baulhólmi, Beinakelda, Birningsstaðir, Brettingsstaðir, Dratthalastaðir, Folafótur, Galtahryggur, Galtastaðir, Galtartunga, Gásaeyri, Gásir, Geitasandur, Gemlufall, Gnýsstaðir, Hafurbjarnarstaðir, Hegrabjarg, Hestheimar, Hrafntóftir, Hreiðurborg, Hundadalur, Huppahlíð, Hvalgrafir, Hænuvík, Kúskerpi, Kvígindisdalur, Kvígindisfjörður, Kvísker, Kýrunnarstaðir, Lambleiksstaðir, Laxaborg, Ljónshöfði, Ljónsstaðir, Marðarnúpur, Nautabú, Otradalur, Skarfsstaðir, Skjöldólfsstaðir, Strjúgsá, Strjúgsstaðir, Svangrund, Svínabakkar, Sænautasel og Ærlækur.

Stundum ber fyrir óvenjulega beygingu og/eða fleirtölumynd í bæjarnöfnum og má þar taka til kostanna þessi nöfn: Fjósar, Sviðnur, Holtar, Hlaðir, Lundar, Seljar, Sultir, Brúar og Skipar. Er þá oft um að ræða gamlar orðmyndir sem eru hálfdottnar út úr daglegu máli. Hér er greinarhöfundur þó vissulega að hætta sér út á hálan ís í íslenskum fræðum.

Fögur nöfn og furðuleg

Skrítin og skemmtileg nöfn eru fjölmörg og er bæjalisti Árnastofnunar oft og tíðum hrein skemmtilesning. Þessi þótti greinarhöfundi þar skara fram úr:

Beigaldi, Bessahlaðir, Brakandi, Butra, Fyrirbarð, Dunkur, Efra-Rot, Eilífsdalur, Einfætingsgil, Eintúnaháls, Emburhöfði, Feitsdalur, Fíflholt, Gaul, Glammastaðir, Gloppa, Hlemmiskeið, Hraðastaðir, Hrjótur, Hugljótsstaðir, Hunkubakkar, Hurðarbak, Hægindi, Ingvarir, Jarðlangsstaðir, Kagaðarhóll, Klasbarði, Klaufabrekkur, Klón, Klúka, Klyppsstaður, Kurfur, Kúskerpi, Ljótshólapartur, Manheimar, Pula, Purkugerði, Rugludalur, Sakka, Saursstaðir, Sitjandi, Síðumúlaveggir, Skallhóll, Skálpastaðir, Skinnhúfa, Skjálg, Skrapatunga, Sleðbrjótur, Snældubeinsstaðir, Sperðlahlíð, Stagley, Svaðastaðir, Sæla, Torta, Tréstaðir, Utanverðunes, Útibleiksstaðir, Volasel, Vælugerðiskot, Þambárvellir, Þrasastaðir, Þröm, Þverspyrna, Þytill og Ölmóðsey.

Dæmi um fögur nöfn bæja gætu til dæmis verið;

Berghylur, Bjarteyjarsandur, Bólstaður, Fagrihvammur, Fornustekkar, Forsæludalur, Hindisvík, Hléberg, Hnitbjörg, Hvannstóð, Knarrarberg, Ljósavatn, Lokinhamrar, Mánafoss, Myrkhylur, Nátthagi, Röðull, Silfrastaðir, Skjaldfönn, Skrúður, Smyrlabjörg, Svalvogur, Sævarendi, Unaðsdalur, Vattarnes, Vökuland og Vorsalir.

Auðvitað er þetta þó smekksatriði hjá hverjum og einum.

Ógetið er svo m.a. bæjarnafna er tengjast þjóðtrú, frægðarstöðum í öðrum löndum og allra handa verkfærum og nytjahlutum.

Skylt efni: Bæjarnöfn

Þýskar heimsbókmenntir
Líf og starf 3. desember 2025

Þýskar heimsbókmenntir

Hætt er við að ýmsar fréttnæmar útgáfur verði undir í jólabókaflóðinu nú sem fyr...

Fjórtán ára að syngja með Karlakórnum Heimi
Líf og starf 3. desember 2025

Fjórtán ára að syngja með Karlakórnum Heimi

Yngsti meðlimur karlakórsins Heimis í Skagafirði er Fjölnir Þeyr Marinósson sem ...

Nýsköpunarhæfni gagnast öllum
Líf og starf 3. desember 2025

Nýsköpunarhæfni gagnast öllum

Hugmyndasmiðir er verkefni sem miðar að því að kenna börnum að verða frumkvöðlar...

Jólakötturinn í Freyvangi
Líf og starf 3. desember 2025

Jólakötturinn í Freyvangi

Það ættu allir að eiga sinn stað í tilverunni, sama hversu skrítnar skrúfur þeir...

Dagur, Björn og Lenka best á Skákþingi Garðabæjar
Líf og starf 3. desember 2025

Dagur, Björn og Lenka best á Skákþingi Garðabæjar

Skákþingi Garðabæjar lauk á dögunum en mótshaldarinn, Taflfélag Garðabæjar, á um...

Mögnuð vörn í beinni
Líf og starf 1. desember 2025

Mögnuð vörn í beinni

Gaman hefur verið að fylgjast með viðtökum íslenskra briddsunnenda gagnvart nýju...

Sefar sorgir annarra en glímir við eigin skugga
Líf og starf 28. nóvember 2025

Sefar sorgir annarra en glímir við eigin skugga

Út er komin skáldsagan Sálnasafnarinn eftir Þór Tulinius.

Blóðþyrst kona vill barnakjöt
Líf og starf 27. nóvember 2025

Blóðþyrst kona vill barnakjöt

Grýlu er fyrst getið á miðöldum en sú Grýla sem við þekkjum stingur upp sínum lú...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f