Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Ásgeir Unnar Sæmundsson vinnur að því að safna saman upplýsingum um alla Ford Bronco sem fluttir voru til landsins. Hér stendur hann við sinn eigin jeppa sem, þrátt fyrir sjúskað útlit, er í mjög góðu ástandi og daglegri notkun.
Ásgeir Unnar Sæmundsson vinnur að því að safna saman upplýsingum um alla Ford Bronco sem fluttir voru til landsins. Hér stendur hann við sinn eigin jeppa sem, þrátt fyrir sjúskað útlit, er í mjög góðu ástandi og daglegri notkun.
Mynd / Aðsend
Líf og starf 17. janúar 2023

Allir Ford Bronco í gagnagrunni

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Ásgeir Unnar Sæmundsson, sérlegur áhugamaður um Ford Bronco, hefur á undanförnum árum sett saman gagnagrunn um jeppa af þessari tegund sem fluttir voru til landsins.

Ásgeir heldur einnig úti heimasíðunni Bronco.is, þar sem áhugamenn geta skoðað myndir og nálgast ýmsar upplýsingar. Þegar þetta er ritað eru 1.898 bílar af árgerðum 1966–1977 skráðir, en Ásgeir veit að enn vantar upp á.

Áhuginn á Bronco myndaðist eftir að hann eignaðist svona bíl 17 ára gamall. Hann hefur alltaf verið með mikla bíladellu og átt fjölmarga bíla í gegnum tíðina, þ.á m. fjóra Bronco jeppa. Þegar Ásgeir fór að eldast áttaði hann sig á því að hann hafði oft hlaupið á sig þegar hann seldi suma bílana sem hann hafði átt. Því fór hann í rannsóknarvinnu til að geta fundið gömlu góðu Bronco-ana.

Á Facebook er hópur Ford Bronco áhugafólks með mjög virkum umræðum. Reglulega setur fólk inn myndir af gömlum bílum í þeirri von að einhver þekki sögu viðkomandi jeppa. „Þetta kveikti einhvern blossa í mér um að það væri rosagaman að geta haldið utan um söguna fyrir menn og veitt einhverjar upplýsingar,“ segir Ásgeir.

Fyrst byrjaði verkefnið sem myndasöfnun. Allar ljósmyndir af Bronco sem Ásgeir komst yfir vistaði hann hjá sér og skráði um leið upplýsingar um viðkomandi bíl. Ef einhver setti mynd af Bronco inn í áðurnefndan Facebookhóp, þá herjaði Ásgeir á eiganda ljósmyndarinnar til að fá sögu hvers bíls. Í gegnum heimasíðu Samgöngustofu er einnig hægt að fá talsverð gögn um bifreiðar ef flett er upp eftir bílnúmeri.

Eins og áður segir eru skráðir í gagnagrunninn 1.898 Bronco-ar af fyrstu kynslóð þessara bíla. Líklegast voru innflutningstölur hærri á þessu tímabili og viðurkennir Ásgeir að enn vanti bíla í gagnagrunninn hans. Það er m.a. vegna þess að gagnagrunnur Samgöngustofu inniheldur takmarkaðar upplýsingar fyrir 1980. Ef bílar voru afskráðir fyrir þann tíma er oft engar heimildir um þá í stafræna gagnabankanum. Það sama á við um eigendasögu jeppanna fyrir áðurnefnt ártal. Því segir Ásgeir eitt af næstu skrefunum að leita fanga á Þjóðskjalasafninu. „Það hljóta að vera til innflutningsskýrslur og pappírar um alla þessa bíla.“

Gagnagrunnurinn hans Ásgeirs gefur möguleika á að leita að bílum eftir eigendum, skoða númeraferil og margt fleira. Vinnunni er þó hvergi nærri lokið, því meðfram því sem Ásgeir skráir þessar grunnupplýsingar er hann stöðugt að bæta við fleiri atriðum. Nú styðst hann t.a.m við ljósmyndir til að skrá hvern og einn bíl eftir lit, búnaði og hvort þeim hafi verið breytt.

Áður en hvítu bílnúmerin, sem fylgja hverjum bíl, voru kynnt til sögunnar, var notast við svörtu númerin, sem oft eru kölluð steðjaplötur. Þau númer fylgdu yfirleitt einstaklingum, ekki bílum, og því gátu jafnvel þrír mismunandi Bronco-ar verið með sömu steðjaplötuna á einhverju tímabili. Ásgeir segir þetta atriði flækja alla rakningu.

Aðspurður segir Ásgeir erfitt að átta sig á því hversu margir bílar séu til enn í dag. Oft eru afskráðir Bronco-ar í geymslum hingað og þangað um landið án þess að hann hafi haft spurnir af þeim. Þeir bílar sem Ásgeir veit að eru ekki ónýtir eru sérstaklega merktir í gagnagrunninum. Við einfalda uppflettingu sér hann að í hans gögnum séu minnst 200 Bronco-ar skráðir heilir eða heillegir.

Af persónuverndarástæðum er gagnagrunnurinn ekki opinn almenningi. Ef fólk hefur leitað til hans með spurningar um sögu einstakra bíla, þá segist Ásgeir yfirleitt vera mjög fljótur að svara. Á vefnum Bronco.is, sem Ásgeir heldur úti, er viðamikið myndasafn þar sem allir geta flett upp bílum eftir bílnúmeri eða árgerð.

Ásgeir hefur ekki unnið einn að gagnagrunninum. Hann þakkar því öllum sem hafa lagt honum lið í gegnum tíðina og hvetur alla sem eiga myndir af gömlum Bronco til að senda sér afrit af þeim á netfangið bronco@bronco.is eða hlaða þeim upp á Bronco.is.

Skylt efni: ford bronco

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 24. mars 2025

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn skal trúa því að plön hans og áætlanir munu ganga upp ef hann gætir ...

Kjörbúðarbeikon og tvenns konar egg
Líf og starf 19. mars 2025

Kjörbúðarbeikon og tvenns konar egg

Beikon kemur í mörgum útgáfum; misþykkt, missalt, misdýrt og stundum mislukkað. ...

Óskar Örn
Líf og starf 19. mars 2025

Óskar Örn

Nafn: Óskar Örn Rikardsson.

Virkni félagslífsins fyrir öllu
Líf og starf 18. mars 2025

Virkni félagslífsins fyrir öllu

Við heimskautsbauginn, rúma fjörutíu km frá landi, liggur nyrsta byggð Íslands, ...

Hressandi list í almannarýminu
Líf og starf 18. mars 2025

Hressandi list í almannarýminu

Á Skagaströnd mega skapandi einstaklingar leggja gjörva hönd að því að hressa up...

Nauðsyn samvinnu
Líf og starf 17. mars 2025

Nauðsyn samvinnu

Árið 2025 ýtir úr vör þungum róðri tískuiðnaðarins þar sem nýsköpun og sjálfbærn...

Úr sveit á sigurbraut
Líf og starf 17. mars 2025

Úr sveit á sigurbraut

Systkinin Árný Helga og Stefán Þór Birkisbörn voru meðal keppenda á Vetrarólympí...

Fjölnir Íslandsmeistari skákfélaga 2025
Líf og starf 17. mars 2025

Fjölnir Íslandsmeistari skákfélaga 2025

Íslandsmóti skákfélaga lauk um liðna helgi í Reykjavík. Skákdeild Fjölnis varð Í...