Jóhannes Guðmundsson og Berglind Ýr Ingvarsdóttir tóku við búskapnum 
á Fjöllum 2 árið 2022.
Jóhannes Guðmundsson og Berglind Ýr Ingvarsdóttir tóku við búskapnum á Fjöllum 2 árið 2022.
Mynd / Aðsendar
Bóndinn 13. september 2024

Göngur og góður reiðtúr

Á Fjöllum 2 í Kelduhverfi stunda Berglind Ýr Ingvarsdóttir og Jóhannes Guðmundsson sauðfjár- og hrossarækt. Lesendur geta fylgst með framleiðslunni á Instagram-reikningi Bændablaðsins á næstu dögum.

Berglind Ýr og Jóhannes tóku við búinu frekar nýlega, haustið 2022. „Þessi búskapur er helsta áhugamál okkar beggja og passar vel saman. Okkur þykir ekkert betra en að búa í sveit,“ segir Berglind, en á Fjöllum 2 halda þau 270 vetrarfóðraðar kindur og ellefu hesta. Þau selja lambakjötið sitt beint frá býlinu.

Býli, staðsetning og stærð jarðar: Fjöll 2 er í Kelduhverfi, Norðurþingi. Jörðin Fjöll er óskipt, fyrir utan ræktað land og saman eru Fjöll 1 og 2 um það bil 7.700 hektarar.

Snemma beygist krókurinn. Synirnir Elmar Darri og Viktor Logi aðstoða foreldra sína við sauðfjárbúskapinn.

Ábúendur, fjölskyldustærð (og gæludýr): Berglind Ýr Ingvarsdóttir og Jóhannes Guðmundsson. Þau eiga tvo drengi, Elmar Darra og Viktor Loga. Á heimilinu eru fjórar tíkur; Tinna, Kötla, Dimma og Tikka

Gerð bús og fjöldi búfjár ef það á við: Sauðfjár- og hrossaræktarbú með 270 vetrarfóðruðum kindum og ellefu hestum.

Hvernig gengur hefðbundinn vinnudagur fyrir sig? „Við vinnum bæði utan búsins og þess vegna eru fáir dagar hefðbundnir. Störfin eru alls konar og að sjálfsögðu árstíðabundin. Við þurfum að gefa skepnunum á meðan þær eru inni bæði kvölds og morgna, þjálfa hesta, sinna útigangi og svo detta alltaf inn alls konar verkefni sem þarf að sinna.“

Skemmtilegustu/leiðinlegustu störfin? „Sauðburður og göngur er það skemmtilegasta við sauðfjárbúskapinn og góður reiðtúr á góðum töltara sem maður hefur ræktað og tamið sjálf/ur er það skemmtilegasta við hrossaræktina.

Leiðinlegustu bústörfin er líklega þegar það þarf að háþrýstiþvo útihúsin – en það getur ekki allt verið skemmtilegt. Það leiðinlegasta við ræktunina er ef uppáhaldsærnar halda ekki í sæðingum eða þegar hryssur koma geldar heim frá stóðhesti.“

Hvað er það jákvæða við að vera bóndi og hverjar eru áskoranirnar? „Fjölbreytnin og forréttindin við að vera bóndi. Það er ekkert betra. Við erum alltaf að setja okkur markmið í ræktun, hvort sem það er túnrækt eða kindur eða hestar. Sumt tekst en annað ekki. 

Helsta áskorunin er veðrið. Við erum afskaplega háð tíðarfari en það hefur verið okkur afar erfitt í ár.“

Hvernig væri hægt að gera búskap ykkar hagkvæmari? „ Með því að huga betur að jarðrækt á búinu. Taka sýni úr túnum og 
heyjum og afla okkur upplýsinga um hvað við getum gert betur.“

Það er fallegt um að litast í Kelduhverfi og hrossin una sér vel.

Hvernig sjáið þið landbúnað á Íslandi þróast næstu árin? „Við viljum vera bjartsýn fyrir hönd sauðfjárræktar á Íslandi þrátt fyrir mikla fækkun síðustu ár. 

Vonandi erum við að sigrast á riðunni og þá er bara að spýta í. Við þurfum að styðja við íslenska framleiðslu, hvort sem það er í matvælaframleiðslu eða öðru.“

Eftirminnilegasta atvikið við bústörfin? „Ætli það séu ekki þau tímamót þegar fyrsta folaldið fæddist á Fjöllum 2.“

Lesendur geta nú farið inn á samfélagsmiðla Bændablaðsins (Instagram eða Facebook) og fylgst með Berglindi og Jóhannesi sinna haustverkum næstu tvær vikurnar. Þau eru meðal annars á leið í göngur og réttir.

Blómlegt býli
Bóndinn 27. september 2024

Blómlegt býli

Freydís Gunnarsdóttir er tiltölulega nýtekin við rekstri Gróðrarstöðvarinnar Árt...

Göngur og góður reiðtúr
Bóndinn 13. september 2024

Göngur og góður reiðtúr

Á Fjöllum 2 í Kelduhverfi stunda Berglind Ýr Ingvarsdóttir og Jóhannes Guðmundss...

Farsæl gúrkutíð
Bóndinn 30. ágúst 2024

Farsæl gúrkutíð

Gúrkuplantan vex hratt á garðyrkjustöðinni Gufuhlíð í Biskupstungum en fjölskyld...

Endalaus verkefnalisti
Bóndinn 16. ágúst 2024

Endalaus verkefnalisti

Ofaldar hryðjuverkahænur, rótargrænmeti, ferðamenn og kindur þrífast vel á Þurra...

Svín og korn
Bóndinn 12. júlí 2024

Svín og korn

Bændurnir í Laxárdal stunda svína- og kornrækt en lesendur munu geta fylgst með ...

Góð samvinna
Bóndinn 28. júní 2024

Góð samvinna

Þau Eyjólfur Ingvi Bjarnason og Guðbjört Lóa Þorgríms- dóttir tóku við búinu Ásg...

Reksturinn í góðum höndum
Bóndinn 14. júní 2024

Reksturinn í góðum höndum

Bústjóri og fjósameistari Flateyjar á Mýrum taka nú við keflinu en lesendur geta...

Með korn og kýr í haga
Bóndinn 31. maí 2024

Með korn og kýr í haga

Nú kynnast lesendur búskapnum á Reykjahlíð í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, en við ...