Miklir framtíðarmöguleikar
Í Brekkuhlíð stendur Garðyrkjustöðin Reykás þar sem þau Oddrún Ýr Sigurðardóttir og Þorleifur Þorri Ingvarsson hafa í mörgu að snúast. Verður hægt að fylgjast með annríki þeirra sem garðyrkjubændur á Instagram-reikningi Bændablaðsins á næstu dögum.

Býli: Garðyrkjustöðin Reykás, Brekkuhlíð, 846 Flúðir.
Ábúendur: Þorleifur Þorri Ingvarsson, Oddrún Ýr Sigurðardóttir.
Börn: Sölvi Þór, 18 ára og Helga Hrönn, 9 ára
Gæludýr: Íslenskur fjárhundur, Nói.
Stærð jarðar? 4 hektarar.
Gerð bús? 5000 fm garðyrkjustöð (ræktum gúrkur, tómata og salat).
Fjöldi búfjár? Nokkrir hestar.
Hvers vegna veljið þið þessa búgrein? Áhugi við greinina og miklir framtíðarmöguleikar.
Hvernig gengur hefðbundinn vinnudagur fyrir sig á bænum? Mætt í húsið milli 7 og 8, uppskera grænmetið, pakka því og gert tilbúið til flutnings úr húsi. Eftir að því lýkur er viðhald sem eru ýmis störf, eins og að afblaða, sá og þrífa, svo eitthvað sé nefnt.
Skemmtilegustu/leiðinlegustu bústörfin? Skemmtilegast er nánast öll verklega vinnan, gaman að sjá afrakstur vinnunnar, leiðinlegast má kannski segja að sé þessi blessaða tölvu/skrifstofuvinna.
Hvernig er að búa í dreifbýli? Best í heimi. Bjuggum á höfuðborgarsvæðinu þar til fyrir fjórum árum og getum sagt það að við erum ekki á leiðinni til baka.

Hvað er það jákvæða við að vera bóndi? Gaman að fylgjast með plöntum vaxa og dafna, mjög gefandi að sjá árangurinn af eigin vinnu þegar grænmetið fer úr húsi til neytenda, Starfið getur stundum verið róandi fyrir hugann sem er nauðsynlegt stundum í þessu hraða samfélagi sem við búum í. Okkur finnst líka gott að vinna líkamlega vinnu, gott fyrir heilsuna.
Hverjar eru áskoranirnar? Þær eru ansi margar. Orkukostnaður getur verið hár, loftræsting og hiti þurfa að vera í stöðugu jafnvægi til að tryggja réttar aðstæður fyrir plönturnar. Við þurfum líka að hafa nákvæma stjórn á raka, næringarefnum og sýkingarvörnum – lítil frávik geta haft áhrif á uppskeru og gæði. Þetta krefst mikillar nákvæmni, tæknikunnáttu og stöðugrar vöktunar.
Hvernig væri hægt að gera búskapinn ykkar hagkvæmari? Við sjáum ýmsa möguleika til að auka hagkvæmni í rekstrinum. Ein leið væri að fjárfesta í sjálfbærari lausnum til að minnka orkukostnað, til dæmis með því að nýta sólarorku, vindorku eða endurvinna varmaorku. Finna lausn á hvernig er hægt að endurnýta vökvunarvatnið. Gardínur sem endurkasta lýsingu frá lömpunum þegar það er kveikt á þeim.
Hvernig sjáið þið landbúnað á Íslandi þróast næstu árin? Landbúnaður á Íslandi mun örugglega þróast í átt að meiri sjálfbærni og tæknivæðingu. Við ættum að geta nýtt hreina orku og verið með snjallari lausnir, rækta meira og betur allt árið. Hefðbundinn búskapur ætti líka að halda áfram að þróast, en þar þurfum við að horfa til nýrra lausna sem bæta nýtingu og draga úr kostnaði – án þess að fórna gæðum. Það þarf að vera bæði raunhæft og arðbært að stunda búskap, sama í hvaða búgrein það er.
Eftirminnilegasta atvikið við bústörfin? Það er nú það, erum búin að lenda í ýmsu á þessum stutta tíma okkar sem garðyrkjubændur en svo sem ekkert eitt sem stendur upp úr. En gaman að segja frá því að með stuttum fyrirvara ákváðum við að gifta okkur inni í miðju tómatahúsinu okkar síðasta sumar. Það var bæði eftirminnilegt og skemmtilegt.