Farsæl gúrkutíð
Gúrkuplantan vex hratt á garðyrkjustöðinni Gufuhlíð í Biskupstungum en fjölskyldan þar á bæ mun gefa lesendum Bændablaðsins innsýn í verkefni gúrkubænda í gegnum Instagram blaðsins.
Býlið Gufuhlíð er staðsett í Reykholti í Biskupstungum og var sett á fót á fjórða áratug síðustu aldar. Jakob Helgason og Birna Guðmundsdóttir keyptu garðyrkjustöðina árið 1965. Fyrst um sinn voru ræktuð þar bæði tómatar og gúrkur, en fljótlega eftir að Jakob og Birna tóku við var farið yfir í að rækta eingöngu gúrkur enda á þessum árum einungis um að ræða sumarræktun. Helgi kom inn í reksturinn árið 1997. Garðyrkjustöðin var þá stækkuð og raflýst auk þess sem farið var að rækta allt árið um kring. Síðan þá hefur garðyrkjustöðin stækkað smátt og smátt og orðið tæknivæddari.
Býli, staðsetning og stærð:
Garðyrkjubýlið Gufuhlíð er um 6.000 fm að stærð og staðsett í Reykholti í Biskupstungum.
Ábúendur, fjölskyldustærð og gæludýr:
Ábúendur í Gufuhlíð eru Helgi Jakobsson og Hildur Ósk Sigurðardóttir ásamt dætrunum Iðunni, Sögu og Kötlu auk tíkurinnar Dúnu. Elsta dóttirin, Ingunn, býr á Selfossi ásamt Lárusi manni sínum, Arnari Magna, 8 ára syni þeirra og hundinum Tuma.
Hefðbundinn vinnudagur:
Vinnudagurinn hjá okkur hefst kl. 7 alla morgna á að tína og pakka gúrkunum fyrir bíl frá Sölufélagi garðyrkjumanna sem sækir alla virka daga og flytur grænmeti til Reykjavíkur. Eftir það fer svo allur tíminn í það að sinna og hirða um plönturnar sem er töluverð vinna þar sem gúrkuplantan vex hratt, eða allt að 70 cm á viku.
Skemmtilegustu/leiðinlegustu störfin:
Skemmtilegasta við ræktunina er þegar allt gengur vel og er í góðri rútínu en leiðinlegustu störfin við ræktunina er að glíma við óværu sem sækja á plönturnar.
Hvernig væri hægt að gera búskapinn hagkvæmari?
Með því að fylgjast með framþróun í ræktun erlendis er hægt að uppfæra og ná hagkvæmni í rekstri – eða í raun að auka við framleiðslu á þeim fermetrum sem fyrir eru áður en farið er í stækkanir á húsum.
Hvernig sjáið þið landbúnað á Íslandi þróast næstu árin?
Landbúnaður á Íslandi, litið til framtíðar, verður örugglega á svipuðu skriði eins og verið hefur síðustu áratugi, alltaf í stöðugri þróun í takti við tækninýjungar en væntanlega stærri og færri bú.
Eftirminnilegasta atvikið við bústörfin?
Eftirminnilegustu atvikin við bústörfin eru án efa allar framþróanir í tæknimálum og stækkanir á húsakostum.