Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Ráðgjafarhópur ræktunar og nytjasviðsins hjá Landi og skógi. Vöxtur og viðgangur skóga hefur víða verið framar vonum. Margir eru vakandi fyrir að skapa verðmæti úr skógum um leið og færi gefst.
Ráðgjafarhópur ræktunar og nytjasviðsins hjá Landi og skógi. Vöxtur og viðgangur skóga hefur víða verið framar vonum. Margir eru vakandi fyrir að skapa verðmæti úr skógum um leið og færi gefst.
Mynd / Aðsendar
Viðtal 13. febrúar 2024

Markviss skógrækt á lögbýlum að skila sér

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Skógrækt á lögbýlum er viðamikið verkefni sem teygir anga sína um land allt. Þegar er farinn að sjást mikilvægur árangur, bæði í landbótum og verðmætasköpun.

Hrefna Jóhannesdóttir.

Hrefna Jóhannesdóttir er sviðsstjóri ræktunar og nytja hjá Landi og skógi. Hún er M. Sc. í skógfræði og hefur m.a. yfirumsjón með verkefninu Skógrækt á lögbýlum.

„Verkefnið snýst um að skapa skógarauðlind á Íslandi með því að rækta fjölnytjaskóga og skjólbelti, treysta byggð, efla atvinnulíf og jafnframt að græða og bæta landið fyrir komandi kynslóðir,“ segir Hrefna, aðspurð um inntak Skóga á lögbýlum-verkefnisins.

Rekja má tilurð þess aftur til ársins 1970, með samþykkt laga um Fljótsdalsáætlun sem hafði það markmið að rækta skóg í samvinnu við bændur í Fljótsdal. „Það verkefni náði fótfestu um allt land í gegnum landshlutaverkefni í skógrækt sem síðan urðu hluti af Skógræktinni árið 2016,“ útskýrir Hrefna. Við sameiningu Skógræktarinnar og Landgræðslunnar 1. janúar sl. haldi þetta starf áfram innan nýrrar stofnunar, Lands og skógar.

Þarft og traust byggðaverkefni

Skógrækt á lögbýlum er á ýmsan hátt afar mikilvæg. „Fyrst ber að nefna skógarauðlindina sjálfa sem er að vaxa upp um allt land,“ segir Hrefna og heldur áfram: „Hún skapar skjól fyrir menn og málleysingja auk þess sem hún skapar betri ræktunarskilyrði fyrir aðrar nytjategundir og bætir bæði jarðvegs- og vatnsbúskap. Með tímanum verða til verðmætar viðarnytjar sem efla atvinnulíf og sjálfbærni auk þess sem skógrækt stuðlar að kolefnisbindingu,“ segir hún.

Skógrækt á lögbýlum hefur að sögn Hrefnu reynst bæði þarft og traust byggðaverkefni og eru þátttakendur dreifðir um allt land. Hún segir því ljóst að verkefnið hafi verið afar mikilvægt fyrir bændur og aðra landeigendur sem hafi óskað eftir því að hafa fjölbreyttar og styrkar stoðir undir sinni atvinnustarfsemi.

„Við sjáum nú þegar, í sumum landshlutum, að áherslan er farin að færast af gróðursetningum yfir á snemmgrisjanir og viðarvinnslu. Það er auðvitað alveg frábært að sjá draumana raungerast,“ segir hún enn fremur. 

Skógræktarráðgjafar við skógmælingar. Grannt er fylgst með vexti og viðgangi og þarf að sinna umhirðu skóga vel til að þeir dafni.
Sjö hundruð lögbýli í verkefninu

Forvitnilegt er að grennslast fyrir um hvaða árangur hefur náðst af verkefninu. Hrefna segir tæplega 700 lögbýli víðs vegar um landið vera þátttakendur í Skógrækt á lögbýlum og hafa gert ræktunarsamning til 40 ára við ríkið gegnum Land og skóg.

„Samtals eru um 55 þúsund hektarar samningsbundnir og hefur verið gróðursett í ríflega helming þeirra,“ útskýrir hún og heldur áfram: „Nokkuð er um að innan skógræktarsvæða séu svæði sem ekki verður gróðursett í, svo sem votlendi, klappir, jaðrar og ýmis verndarsvæði vegna minja, lagna, berjasprettu o.s.frv. Innlendar viðarnytjar eru sífellt að verða sýnilegri, það er mjög áþreifanlegur árangur,“ bætir hún við.

Verkefnið getur verið snúið á köflum. Hrefna segir skipulagsmálin einkum vera mjög krefjandi. Þau séu oft flókin og kostnaðarsamt að leysa úr þeim. „Ég tel að allir séu að gera sitt besta með ákveðna hagsmuni í huga,“ segir hún. „En því fyrr sem við skiljum hvað hinir ýmsu hagsmunaaðilar eru að fara, og verðum sammála um hvernig best sé að vinna málin áfram með heildarhagsmuni í huga, því betra. Ísland er strjálbýlt að stórum hluta og tækifæri til bættrar landnotkunar og aukinnar atvinnustarfsemi eru töluverð.

Svo er eins með þessa eins og alla aðra ræktun, það er alltaf erfitt að horfa upp á afföll eða tjón, t.d. vegna veðurs. En við huggum okkur við að það er erfiðast að koma fyrstu kynslóðinni á legg, hún mun síðan stuðla að betri skilyrðum fyrir þá næstu,“ segir hún enn fremur.

Vöxtur og viðgangur skóga hefur, að sögn Hrefnu, víða verið framar vonum og hún nefnir Húnavatnssýslurnar sem dæmi þar um. Ánægjulegt sé að fylgjast með því hvað bændur og aðrir landeigendur hafi verið fljótir að tileinka sér að sjá tækifærin sem skapist við skógrækt. Margir séu vakandi fyrir því að skapa sér verðmæti úr skóginum um leið og það er hægt. „Og svo eru skógareigendur alveg frábærir í að miðla af þekkingu sinni og reynslu! Það er hvetjandi fyrir okkur hin að sjá þegar vel gengur hjá öðrum,“ hnýtir hún við. 

Hugað að viðarnytjum

Aðspurð hvert verkefnið stefni og um áherslubreytingar eftir því sem fram vindur segir Hefna að eftir því sem skógurinn eldist verði áherslubreytingar í starfi skógarbóndans. „Hann fer að horfa meira til þess að koma viðarnytjum í nýtanlegt form og á markað. Eins og staðan er í dag þá er eftirspurn umfram framboð á skógarafurðum.

Skógarbændur verða að sinna umhirðu ungskóganna til þess að þeir verði verðmætir í framtíðinni, grisja út lélegustu trén, kvista timburtré og gróðursetja íbætur þar sem þess gerist þörf. Ég tek oft dæmi hvernig það færi ef hrossabóndi ætlaði sér að sækja tilbúinn reiðhest út í stóð án þess að hafa nokkuð hirt um gripinn fram að því,“ svarar hún.

Hún segir einnig að búast megi við einhverri samþættingu á áherslum Skógræktarinnar og Landgræðslunnar í gegnum hina nýju stofnun, Land og skóg, og að áætlanir um landnotkun verði að einhverju leyti heildstæðari eftir sameiningu. Það séu því spennandi tímar fram undan.

Skógræktarstarfið heldur alltaf áfram

Hvert skyldi þá lokamarkmið Skógræktar á lögbýlum vera? „Þegar skrifað er undir samning um þátttöku í skógrækt þá gildir hann til 40 ára,“ svarar Hrefna. Að þeim tíma liðnum sé gert ráð fyrir að öllum framkvæmdum sé lokið í samræmi við ræktunar- og umhirðuáætlun sem gerð er fyrir viðkomandi jörð. „Segja má að það sé endapunktur samningsbundinna framkvæmda en sjálft skógræktarstarfið heldur áfram,“ segir hún og bætir við:

„Ef vel hefur tekist til þá ætti að vera komið að næsta kafla ræktunarstarfsins, grisjunar, sem ætti að skapa einhverjar tekjur sem koma á móti kostnaði. Lokamarkmið getur í sumum tilfellum verið að endurheimta náttúruskóga og leyfa þeim síðan að þróast af sjálfu sér. Og í öðrum tilfellum er lokamarkmiðið rjóðurfelling og endurgróðursetning sömu eða nýrra tegunda, með það í huga að mæta þörfum framtíðarinnar eins vel og núverandi þekking leyfir,“ segir Hrefna að endingu.

Skylt efni: Skógrækt

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt