Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Ragnheiður með tvö af þremur eftirlifandi hrossum frá Kúludalsá, Feng 24 vetra og Sprett 10 vetra.
Ragnheiður með tvö af þremur eftirlifandi hrossum frá Kúludalsá, Feng 24 vetra og Sprett 10 vetra.
Mynd / Sigurður Már Harðarson
Viðtal 1. október 2025

Gerir upp langa baráttu gegn Norðuráli með bókarútgáfu

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Ragnheiður Þorgrímsdóttir, bóndi á Kúludalsá í Hvalfirði og kennari, hefur skrifað og nýlega gefið út bók um langa baráttu sína og málaferli vegna meintrar flúormengunar frá Norðuráli, sem hún telur að hafi orsakað viðvarandi og alvarlegan heilsubrest hrossa sinna. 

Í bókinni sem heitir „Barist fyrir veik hross“ rekur Ragnheiður alla málavexti, allt frá því að hrossin hennar byrjuðu að veikjast eitt af öðru um vorið 2007. „Enginn gat sagt mér hvað væri að þeim en ég reyndi að hjúkra þeim og fékk hjálp við það. Tveimur árum síðar frétti ég af mengunarslysi hjá Norðuráli sem er um fimm kílómetra austan við beitarhaga hrossanna. Reykhreinsivirki fór úr sambandi og mikill flúor slapp út. Austanáttir eru ríkjandi á svæðinu. Á þessum tíma fór fram veruleg stækkun verksmiðjunnar en gangsetning nýrra kerja eykur einnig losun flúors þannig að mikið flúorálag var frá rekstrinum allt árið 2006 og fram á 2007 og svo bættist mengunarslysið við,“ útskýrir hún.

Ragnheiði kennt um veikindin

„Ég reyndi að fá veikindi hrossanna rannsökuð hjá opinberum stofnunum, þannig að upplýst yrði hvað væri að þeim. Sú þrautaganga er rakin í bókinni. Ég byggi frásögnina á heimildum en þær hef ég varðveitt,“ heldur Ragnheiður áfram.

„Fyrst leitaði ég til Matvælastofnunar sem vísaði erindinu til Umhverfisstofnunar sem hélt málinu hjá sér í tvö ár en ákvað svo að hafast ekki að. Þá leitaði ég aftur til Matvælastofnunar þar sem yfirdýralæknir eftir þrábeini mína samþykkti einhvers konar athugun sem reyndist svo hvorki fugl né fiskur. Stofnunin sendi frá sér skýrslu eftir þessa furðulegu athugun sína þar sem mér var blátt áfram kennt um veikindi hrossanna. Þetta mat var ekki byggt á niðurstöðum flúormælinga í hrossunum en þær mælingar hafði ég þó lagt mikla áherslu á.“

Röng umhirða útilokuð

Ragnheiður leitaði í kjölfarið til Steingríms J. Sigfússonar atvinnuvegaráðherra og bað um alvöru rannsókn. Hún segir að hann hafi tekið á málinu af festu og í framhaldinu voru tveir sérfræðingar ráðnir til að rannsaka veikindi hrossanna, þeir Sigurður Sigurðarson dýralæknir og Jakob Kristinsson prófessor emeritus í eiturefnafræði við Háskóla Íslands. „Þeir voru að í þrjú ár með hléum og komust að þeirri niðurstöðu í skýrslu til atvinnuvegaráðuneytisins að nánast útilokað væri að rekja veikindin til rangrar umhirðu hrossanna. Töldu þeir líklegt að orsök veikindanna væri flúor frá álveri Norðuráls og vildu að rannsókninni yrði haldið áfram,“ segir hún.

Matvælastofnun hafi í kjölfarið ráðist á skýrslu atvinnuvegaráðuneytisins með offorsi en skýrsluhöfundar hröktu gagnrýnina sem að mestu leyti var komin frá einum starfsmanni stofnunarinnar. Ragnheiður telur ljóst að árásin frá Matvælastofnun hafi haft afgerandi neikvæð áhrif á framgang málsins. Rannsókninni var ekki haldið áfram.

Málinu ekki lokið

„Með skýrslu atvinnnuvegaráðuneytisins í höndum fór ég í mál við Norðurál og íslenska ríkið en tapaði þeirri viðureign. Henni er lýst í stórum dráttum í lokakafla bókarinnar,“ segir Ragnheiður.

Hún er ákveðin í því að þessu máli sé ekki lokið. „Það verður að endurskoða starfsleyfi Norðuráls. Mengandi verksmiðja á ekki að hafa eftirlit með sjálfri sér.  Eftirlitið þarf að vera stöðugt og koma frá aðilum sem eru ótengdir mengunarvaldinum. Helst þyrftu það að vera virtir erlendir aðilar.

Endurskoða þarf losunarheimildir fyrir flúor í starfsleyfinu og lækka þær. Þá þarf einnig að gera nágrönnnum kleyft að fylgjast með útsleppi flúors frá verksmiðjunni á rauntíma. Eins og málum er háttað núna þá fáum við upplýsingar um losunina mörgum mánuðum síðar.

Það bráðvantar rannsóknir á skaðleysismörkum ýmissa þátta í umhverfinu, til dæmis eru þau ekki til fyrir hross. Of mikið er um ágiskanir og velferð dýranna er ekki höfð að leiðarljósi.“

Mikilvæg heimild fyrir framtíðina

Ragnheiður segir að tilgangurinn með bókaskrifunum sé að vekja athygli á helstu málavöxtum þessa umfangsmikla en dapurlega máls, með því að draga fram málsskjöl og myndefni sem því tengjast þannig að til sé heimild um það fyrir framtíðina. Efnið geti líka nýst á margan hátt í vísindasamfélaginu, sérstaklega varðandi rannsóknir á þoli hrossa fyrir flúori, en einnig í umhverfisfræði, eiturefnafræði og fleiri greinum svo sem stjórnsýslufræðum.

Spurð um hvort áhrifa hafi orðið vart á öðrum nágrannabæjum hennar, segir hún að engin hross hafi verið haldin á bæjunum milli Kúludalsár og Grundartanga þegar mengunarslysið átti sér stað. „Við og við hafa verið þar hross síðan. Það skiptir mestu máli varðandi áhrif flúors á hross, hvort um langtíma, stöðugt flúorálag er að ræða.

Hrossin mín sem veiktust voru allan tímann hér heima og þau voru undir langtíma og stöðugu flúorálagi.  Líffæri þeirra höfðu ekki möguleika á að hreinsast inn á milli eins og getur gerst hjá sauðfé sem fer um stór svæði þar sem flúorálag er mismikið. Sauðféð er líka á húsi fimm til sex mánuði á ári og sleppur því við mikið af mengunartoppunum sem útigangshross lenda í.“

Mest af flúormenguninni lendir vestan við Grundartanga

Til staðfestingar á almennum áhrifum mengunarinnar á búfé í Hvalfirði, vísar Ragnheiður á rannsókn sem gerð var af Gyðu S. Björnsdóttur umhverfisfræðingi og fyrrum íbúa í Kjós. Hún vann lokaverkefni sitt við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands árið 2014 sem bar heitið: Sýnir sauðfé við Hvalfjörð merki um líffræðilegt álag af völdum mengunar? „Rannsóknin leiddi í ljós marktækt minni frjósemi sauðfjár vestan við iðjuverin á Grundartanga miðað við önnur svæði í grennd við Norðurál, einnig að heilsa sauðfjár var verri og gæði ullar rýrari vestan við iðjuverin. Þessi atriði bera vott um álag sem sauðféð vestan iðjuveranna verður fyrir, enda mælist mest flúormengun á því svæði miðað við allan Hvalfjörð.

Auðvitað lenda hrossin líka í menguninni, mest þó hrossin sem ganga úti,“ segir Ragnheiður.

Enn eru haldin hross á bænum

Þegar spurt er hvort halda eigi hross Kúludalsá miðað við ástand undanfarinna ára, segir Ragnheiður að eðlilega sé spurt, þar sem um fjórfalt meiri flúor mælist í hrossum frá bænum miðað við hross frá ómenguðum svæðum. „Ef ég ætti hrossahóp núna eins og var 2007 og hefði þá reynslu sem ég hef núna, þá myndi ég koma flestum þeirra fyrir annars staðar en hafa aðeins örfá hérna á bænum og gera eins og núna, hýsa þau á nóttunni og takmarka aðgang að hagabeit því mengunin er í haganum.

En ég var ekki fróð um áhrif flúors vorið 2007 þegar veikindin byrjuðu. Hrossin urðu stirð og sum gátu ekki staðið. Lengi vel hélt ég að ég gæti hjúkrað hrossunum til bata. Einnig trúði ég því að yfirvöld myndu standa með hrossunum og skikka Norðurál til að hemja flúorlosunina eftir að upp komst um mengunarslysið. Hvorugt hefur gengið eftir.

Nú hafa öll veiku hrossin sem veiktust á bænum verið felld. Tuttugu og fimm talsins. Þeim var hjúkrað eins vel og kostur var og þegar ljóst var að bati næðist ekki, voru þau ekki látin kveljast heldur felld á mannúðlegan hátt. Ég á þrjú hross eftir af hrossunum frá Kúludalsá. Það er 24 vetra reiðhestur sem ég hef að öllu jöfnu haft á húsi á nóttunni allan ársins hring og tvö systkini 10 og 11 vetra sem eru að miklu leyti alin upp fjarri heimahögum. Þessi hross hafa ekki sýnt einkenni veikinnar.“

Hross í gjörgæslu

„Hrossin sem ég á núna hef ég í gjörgæslu þannig að þau eru öll á húsi á nóttunni og er skammtaður aðgangur að grasi yfir daginn. Ég heyja eftir rigningar til að sem minnst sé af flúor í heyinu og einnig kaupi ég dálítið af heyi frá ómenguðum svæðum,“ útskýrir Ragnheiður.

„Þetta er auðvitað fáránlega dýrt og mikil vinna miðað við venjulegt hrossahald, en mig dreymir um umhverfi eins og það var fyrir tíma Norðuráls. Ég á skýlausan rétt á slíku umhverfi á mínu landi og fyrir mína skjólstæðinga, hrossin og mun áfram kalla eftir að sá réttur sé virtur.“

Afskipaleysi og þöggun eru þungbær

Þegar Ragnheiður horfir til baka þykir henni sárt að horfa upp á hversu illa var staðið að málum hjá þeim stjórnmálamönnum sem komu því til leiðar að Norðurál fékk svo rúm starfsskilyrði að það fær sjálft að halda utan um vöktun vegna eigin mengunar.

„Það svíður einnig að stofnanir innan stjórnsýslunnar létu sér fátt um finnast þó það veiktust hross á bæ nærri Grundartanga, rétt eftir mengunarslys hjá Norðuráli og svo gæti ég líka nefnt undarlega málsmeðferð í dómskerfinu.

En þegar allt er skoðað þá finnst mér afskiptaleysið og þöggunin gagnvart veikindum hrossanna vera sárast. Ég er bæði að tala um yfirvöld og nærsamfélagið, þar með talið Norðurál sem leggur flúorinn til því þaðan er hann kominn og ekki frá neinum öðrum stað.“

Hún vill sjá nágrannana og sveitarstjórn taka við sér. „Besta vörnin er sókn og við sem búum hér eigum ekki að vera fórnarkostnaður stóriðjunnar. Bændur mega gjarnan hugsa til þess að innan skamms munu neytendur kalla eftir upprunamerkingum matvæla. Þá er eins gott að vera búin að hrista af sér slenið og endurheimta hreint land fyrir búpeninginn.“

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt