Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Mikill fjöldi ferðamanna hefur lagt leið sína um Kjalveg í sumar þrátt fyrir ryk og mikinn barning á grófum, hörðum og holóttum niðurgröfnum vegi. Stór hluti þessara ferðamanna hefur ekið inn í Kerlingarfjöll sem nú er búið að friðlýsa. Þessi mynd var tekin í sneiðingnum í hlíðum Innriskúta, skammt sunnan við vegamótin að Kerlingarfjallaafleggjara.
Mikill fjöldi ferðamanna hefur lagt leið sína um Kjalveg í sumar þrátt fyrir ryk og mikinn barning á grófum, hörðum og holóttum niðurgröfnum vegi. Stór hluti þessara ferðamanna hefur ekið inn í Kerlingarfjöll sem nú er búið að friðlýsa. Þessi mynd var tekin í sneiðingnum í hlíðum Innriskúta, skammt sunnan við vegamótin að Kerlingarfjallaafleggjara.
Mynd / HKr.
Fréttir 9. september 2020

Vegabætur á hálendinu ekki í takt við mikla fjölgun ferðamanna

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Mikill fjöldi Íslendinga hefur lagt land undir fót, eða kannski öllu heldur hjól, í sumar. Vakið hefur athygli hvað víða er unnið að endurbótum á vegum og slitlagsviðgerðum. Mikið verk er þó óunnið til að hægt sé að segja að vegakerfi landsmanna standist kröfur um öryggi til að geta talist boðlegt fyrir þá stórauknu umferð ferðamanna sem skipulega hefur verið unnið að á undanförnum árum.

Í tíð Sturlu Böðvarssonar sem samgönguráðherra á árunum 1999 til 2007 voru fimm vegir á hálendi Íslands í fyrsta sinn teknir út og taldir til grunnnets samgangna. Þetta eru Kaldidalur, Fagradalsvegur, Kjalvegur, Sprengisandsleið og Fjallabaksleið nyrðri. Á málþingi sem haldið var í Bændahöllinni, Hótel Sögu sumarið 2013 kom fram að þessar leiðir voru þá enn ekki annað en illa færir troðningar með þeirri undantekningu að nokkuð hefur verið unnið í veginum um Kaldadal. Sú vinna hafði þá að nokkru leyti verið unnin fyrir gýg þar sem ekki tókst að klára að setja bundið slitlag á veginn. Þegar ekið er um þessa vegi sjö árum síðar, eða árið 2020, hefur harla lítið verið unnið þar að endurbótum.

Hálendisvegir aftarlega á merinni í samgönguáætlun

Í nýlega samþykktri samgöngu­áætlun 2020 til 2034 eru skilgreindir þeir vegir sem taldir eru til stofnvegakerfis. Þar á meðal er Sprengi­sandsleið, Þjórsárdalsvegur – Fjallabaksleið nyrðri, Uxahryggja­vegur, Kaldadalsvegur – Þing­vallavegur og Kjalvegur – Hring­vegur.

Í samgönguáætlun eru 1.850 milljónir króna eyrnamerktar framkvæmdum á 23 km kafla sem heitir Brautartunga – Kaldadalsvegur á síðari hluta samgönguáætlunar. Þá eru 1.600 milljónir króna áætlaðar í 37 km vegagerð á Bárðardalsvegi vestri, þ.e. það sem nefnt er Hringvegur – Sprengisandsleið, en ekki fyrr en undir lok samgöngu­áætlunarinnar 2034.

Kjalvegur er um 165 km frá Gullfossi norður að Eiðsstöðum í Blöndudal. Á um níu kílómetra kafla frá brúnni yfir Hvíta rétt ofan við Hólmavað og að veitingaskálanum Hrefnubúð Café hafa Vegagerðarmenn sýnt fram á hvað hægt er að gera á hagkvæman og snyrtilegan hátt með hófstilltri uppbyggingu til að ná veginum upp úr niðurgröfnum ýtuslóða. Þó þetta sé engin hraðbraut, þá kemur slíkur vegur í veg fyrir utanvegaakstur og náttúruspjöll og auðvelt er að margfalda endingu hans og koma í veg fyrir tjón á ökutækjum með því að leggja á hann slitlag.

Yfir milljón ferðamönnum stefnt á liðónýtan Kjalveg fram til 2034

Ekki er að sjá að gert sé ráð fyrir einni krónu í framkvæmdir á Kjal­vegi samkvæmt útlistun í samgöngu­áætlun fram til 2034. Þar kemur ekki heldur fram hvort fé sem skilgreint er einhverju öðru eins og viðhaldi verði varið í þennan veg.

Þarna er um að ræða 14 ára tímabil. Miðað við þróun liðinna ára má varlega áætla að á þeim tíma verði ríflega 1,1 milljón ferðamanna búnir að aka þennan liðónýta ýtuslóða með tilheyrandi þjóðhagslegum kostnaði vegna slits á ökutækjum. Vart þarf mikið ímyndunarafl til geta sér til að öll sú umferð muni valda náttúruspjöllum þegar ferðamenn neyðast til að aka út fyrir vegslóða þegar slóðinn fyllist af vatni og aur.

Mikilvægar lagfæringar á hálendisvegum

Trausti Valsson, þáverandi prófessor, benti á það á málþinginu 2013 að mikill hugur hafi þá verið í ferðaþjónustuaðilum að efla ferðamennsku á þessum slóðum, ekki síst inn í Kerlingarfjöll og líka norður í land. Þá var talið að um 30 þúsund ferðamenn færu um Kjalveg á hverju ári. Varlega áætlað mætti telja að um 60–70% af þeim hafi verið erlendir ferðamenn, eða hátt í 20.000. Ástand vegarins er hins vegar þannig að rútufyrirtæki voru farin að veigra sér við að senda bíla sína inn á Kjalveg vegna skemmda og mikils viðhaldskostnaðar á bílunum. Árið 2012 var heildarfjöldi ferðamanna til landsins með flugi og Norrænu samtals tæplega 673 þúsund. Miðað við það voru um 3% erlendra ferðamanna að fara um Kjalveg.

Litlar vegabætur en fjöldi ferðamanna hefur margfaldast

Frá því þetta var sagt sumarið 2013 hefur fátt annað gerst nema að ferðamönnum um þessar slóðir hefur stórfjölgað með tilheyrandi auknum kostnaði vegna slits á ökutækjum. Í dag er vegurinn nánast allur eitt þvottabretti.

Árið 2005 komu 378 þúsund erlendir ferðamenn til landsins. Árið 2015 voru erlendir ferðamenn orðnir tæplega 1, 3 milljónir og rúmlega 2,3 milljónir þegar mest var 2018. Miðað við þær tölur má gera ráð fyrir að þeir erlendu ferðamenn sem hafa farið um Kjalveg og upp í Kerlingarfjöll, inn á Sprengisand, eða norður í land, hafi verið nær 70 þúsund talsins. Ferðamönnum fækkaði aðeins 2019, eða í rúmar tvær milljónir og þrettán þúsund. Þannig að það ár má áætla að fjöldi erlendra ferðamanna um Kjalveg hafi verið um 60 þúsund. Varla er þá ofáætlað að því til viðbótar hafi íslenskir ferðamenn verið á bilinu 15 til 20 þúsund og heildarfjöldinn þá kominn í 75 til 80 þúsund.

Hóflega byggt upp úr niðurgröfnum ýtuslóða

Kjalvegur er um 165 km frá Gullfossi norður að Eiðsstöðum í Blöndudal. Þrátt fyrir gríðarlega aukningu ferðamanna, þar sem stöðugt vaxandi straumi þeirra er beint inn á hálendisvegina, hefur samt harla lítið gerst í vegabótum á Kjalvegi norður yfir landið og eins inn í Kerlingarfjöll. Að vísu hefur Vegagerðin „stolist“ til að byggja upp um níu kílómetra kafla frá brúnni yfir Hvíta rétt ofan við Hólmavað og að veitingaskálanum Hrefnubúð Café og gera hann nánast kláran fyrir lagningu slitlags. Meira að segja er búið að mala efni sem tilbúið er í stórum haug við brúarsporðinn sem nýta má í slíkt slitlag.

Sú uppbygging er mjög hófleg og aðeins til að koma veginum upp úr niðurgröfnum ýtuslóðanum og setja ræsi í lægðir sem oft eru fullar af vatni snemma á sumrin og þegar mikið rignir á hálendinu. Þetta er samt ekki vegur sem ætlað er að standa upp úr snjó á vetrum. Það verður að segjast Vegagerðinni til hróss, að þarna hefur verið unnið af mikilli skynsemi og snyrtimennsku að vegabótum án þess að fara í jarðrask sem nokkru nemur. Þær endurbætur duga til þess að halda veginum upp úr vatni og koma þannig í veg fyrir utanvegaakstur ferðalanga sem reyna að sneiða hjá forarvilpum í niðurgröfnum veginum. Til að verja þessa níu kílómetra frá því að eyðileggjast vantar þó enn að leggja á þá bundið slitlag. Er þessi spotti í raun í sömu stöðu og lagfæringar á Kaldadalsvegi voru fyrir sjö árum. Frá þessum uppbyggða spotta er síðan grjótbarið þvottabretti stóran hluta af leiðinni framhjá Hveravöllum og yfir Kjöl að Blönduvirkjun og líka inn í Kerlingarfjöll. Svipaða sögu er reyndar að segja af Sprengisandsleið. Nú þarf bara að halda áfram með lagfæringar á Kjalvegi með sama hætti og gert hefur verið á þeim níu kílómetrum sem komnir eru.

Ægifagurt er á hverasvæðinu í Hverafjöllum sem nú er búið að friðlýsa. Búast má við að þangað sæki hundruð þúsunda ferðamanna á næstu árum.

Friðlýsing Kerlingarfjalla kallar á innviðauppbyggingu

Fyrir um hálfum mánuði var lýst yfir við hátíðlega athöfn friðlýsingu Kerlingarfjalla. Því hefur víða verið fagnað þar sem afar mikilvægt er að koma skipulagi á þann mikla átroðning sem er á viðkvæmu hverasvæði Kerlingarfjalla. Þeirri friðlýsingu hljóta þá líka að verða að fylgja innviðauppbygging og endurbætur á aðkomuleiðum að svæðinu til að koma í veg fyrir að náttúran við vegina þangað inn eftir skaðist af miklum fjölda ferðamanna. Reyndar er þegar orðið mjög aðkallandi að lagfæra vegslóðann frá hálendismiðstöðinni Ásgarði inn að hverasvæðinu sem er beinlínis orðinn hættulegur ferðafólki vegna skemmda.

Náttúruvernd og náttúruspjöll

Fjölmargir hafa gagnrýnt hug­myndir um að gera endurbætur á Kjalvegi og gjarnan borið við náttúruverndarsjónarmiðum. Trausti Valsson og fjölmargir aðrir hafa hins vegar spurt hvað sé náttúruvænt við það að beina tugþúsundum ferðamanna inn á niðurgrafna og illfæra vegaslóða á hálendinu, með tilheyrandi utanvegaakstri og kæfandi rykmekki á þurrum dögum. Eitt má þó telja nær öruggt að ferðamönnum á bara eftir að fjölga um Kjalveg og líklega enn frekar eftir friðlýsingu Kerlingafjalla, með tilheyrandi náttúruspjöllum verði ekkert að gert.

Kerlingarfjöll friðlýst

Þann 10. ágúst var undirrituð friðlýsing Kerlingarfjalla og nærliggjandi svæða, alls um 344 km2. Friðlýsingunni var fagnað við hálendismiðstöðina í Ásgarði í Kerlingarfjöllum.

Kerlingarfjöll eru í hópi helstu náttúruperla landsins, vinsælt útivistarsvæði með mikið verndargildi. Áform um friðlýsingu hófust árið 2016 en sveitarfélagið Hruna­mannahreppur hafði frumkvæði að samstarfi við undirbúning hennar. Margir hafa komið að verkefninu auk sveitarfélagsins, s.s. Skeiða- og Gnúpverjahreppur og Kerlingarfjallavinir. Vill Umhverfisstofnun koma á framfæri þakklæti til samstarfs­hóps um friðlýsinguna fyrir frábært samstarf en friðlýsta svæðið verður í umsjá Umhverfisstofnunar, sem sinna mun landvörslu, viðhaldi og rekstri á svæðinu til framtíðar.


„Við erum mjög glöð á þessum degi, enda hefur með friðlýsingu svæðisins verið stigið tímamótaskref, landi og þjóð til heilla,“ sagði Hildur Vésteinsdóttir, teymisstjóri friðlýsinga og áætlana hjá Umhverfisstofnun.

Kerlingarfjöll draga nafn sitt af móbergsdranga sem rís upp úr líparítskriðu sunnan í Tindi í vestanverðum fjöllunum. Fjallaklasinn samanstendur af litríkum líparíttindum og stórbrotnu landslagi. Svæðið er megineldstöð og eitt af öflugri háhitasvæðum landsins. Í Hveradölum, einu helsta aðdráttarafli Kerlingarfjalla, hvína og sjóða fjölbreyttir og litríkir gufu- og leirhverir. Í kringum marga þeirra vex sérstæður og viðkvæmur gróður. Á svæðinu eru fjölmargar gönguleiðir, m.a. að jarðhitasvæðunum.
Svandís Svavarsdóttir, settur umhverfis- og auðlindaráðherra í málinu, undirritaði friðlýsinguna.

7 myndir:

Kjalvegur

Skylt efni: Vegagerð | Samgöngumál | Vegamál

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði
Fréttir 16. apríl 2024

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði

Matvælastofnun hefur birt leiðrétta skýrslu yfir áburðareftirlit síðasta árs.

Ísteka í yfirburðastöðu
Fréttir 15. apríl 2024

Ísteka í yfirburðastöðu

Í nýrri ályktun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að Ísteka beiti sterkri stöðu ...

Hverfandi líkur á riðusmiti árið 2032
Fréttir 15. apríl 2024

Hverfandi líkur á riðusmiti árið 2032

Í nýrri landsáætlun verður stefnt að því að hverfandi líkur verði að upp komi ri...

Hrútaverðlaun fyrir Gullmola og Blossa
Fréttir 15. apríl 2024

Hrútaverðlaun fyrir Gullmola og Blossa

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var í Ásgarði Landbúnaðarháskóla Ísla...

Sláturhús brann til grunna
Fréttir 12. apríl 2024

Sláturhús brann til grunna

Sláturhúsið í Seglbúðum í Landbroti brann til grunna þann 1. apríl.