Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Klauf er fyrst íslenskra kúa til að ná yfir 15.000 kg mjólkur á almanaksári. Aðrar kýr í fjósinu virðast átta sig á stöðu hennar, því þær víkja fyrir henni þegar hún vill komast í mjaltir.
Klauf er fyrst íslenskra kúa til að ná yfir 15.000 kg mjólkur á almanaksári. Aðrar kýr í fjósinu virðast átta sig á stöðu hennar, því þær víkja fyrir henni þegar hún vill komast í mjaltir.
Mynd / Hafdís Laufey Ómarsdóttir
Fréttir 23. janúar 2025

Undrakýrin Klauf

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Klauf 2487 í Lambhaga á Rangárvöllum var nythæsta kýr Íslands árið 2024. Hún mjólkaði 15.846 kg sem er nýtt Íslandsmet, en meiri afurðir hafa ekki mælst úr íslenskri kú á einu almanaksári frá upphafi.

Klauf er fædd 23. apríl 2018 í Lambhaga á Rangárvöllum. Lambhagabúið er rekið af bræðrunum Ómari og Björgvini Helgasonum og fjölskyldum.

Ómar segir að það hafi komið strax í ljós að Klauf mjólkaði vel eftir að hún bar sínum fyrsta kálfi vorið 2020. „Hún mjólkaði yfir tólf þúsund lítra árin 2022 og 2023, bar svo síðast 3. desember 2023 og var því í hárri nyt allt árið 2024.“

Mest mjólkaði Klauf rúma 54,9 kg á dag og var enn í 30 kg dagsnyt í desember síðastliðnum sem telst mjög gott tólf mánuðum eftir burð. „Hún hefur líka fengið vænan skammt af kjarnfóðri og heimaræktuðu byggi,“ segir Ómar sem telur góðan aðbúnað og stöðugt aðgengi að jöfnu og góðu fóðri vera lykilinn að umönnun hánytjakúa.

Aðrar kýr víkja fyrir Klauf

Ómar segir Klauf vera spaka og gæfa en þó ráðandi í fjósinu.

„Hún er afar meðfærilegur gripur sem maður veit ekki af í fjósinu. Aldrei neitt vesen og sér um sig sjálf, en hún stjórnar hjörðinni og er borin mikil virðing fyrir henni. Hún þarf til dæmis aldrei að bíða eftir að komast í mjaltir, þar sem aðrar kýr færa sig frá ef það er biðröð.“

Klauf hefur átt fjögur afkvæmi, þrjár kvígur og einn nautkálf. „Tvær af kvígunum komu því miður ekki vel út en sú þriðja lofar mjög góðu og virðist líkjast móður sinni. Einnig bindum við vonir við nautkálfinn, sem er núna rúmlega ársgamall, undan Hengli (20014). Kálfurinn er með DNA kynbótamat upp á 116 og 119 í afurðamati,“ segir Ómar. Burði hennar var seinkað núna svo Klauf mun næst bera á vormánuðum 2025. „Hún verður til eins lengi og hægt er eins og aðrar mjólkurkýr á búinu.“

Meðalframleiðsla búa um 333 þúsund lítrar

Í niðurstöðum skýrsluhaldsársins hjá mjólkurframleiðendum 2024 kemur fram að skráðar æviafurðir Klaufar hafi verið 57.386 kg um síðustu áramót og á yfirstandandi mjólkurskeiði eru afurðirnar nokkru meiri en ársafurðirnar, eða 16.886 kg mjólkur. Þess má svo geta að á síðasta mjólkurskeiði mjólkaði Klauf 17.063 kg. Klauf er jafnframt fyrst íslenskra kúa til að ná yfir 15.000 kg mjólkur á almanaksári.

Í niðurstöðum skýrsluhaldsársins hjá mjólkurframleiðendum 2024 kemur fram að meðalnyt hjá árskú var 6.411 kg. Kúabú í framleiðslu eru í dag 459 talsins og fækkaði um tólf milli ára. Meðalbúið stækkaði í takti við fækkunina og aukið innlegg mjólkur. Meðalinnlegg á bú nam 333.467 lítrum samanborið við 318.531 lítra árið 2023.

– Sjá nánari niðurstöður skýrsluhaldsársins hjá mjólkurframleiðendum á síðum 38–39 í nýju Bændablaði sem kom út í dag. 

Mesti fjöldi skráðra sæðinga
Fréttir 27. janúar 2026

Mesti fjöldi skráðra sæðinga

Metþátttaka var í sauðfjársæðingum nú í desember. Þann 9. janúar var búið að skr...

Kynbótamat byggs við íslenskar aðstæður
Fréttir 27. janúar 2026

Kynbótamat byggs við íslenskar aðstæður

Anna Guðrún Þórðardóttir kynnti í haust frumniðurstöður úr doktorsverkefninu Erf...

Þari í sauðakjöt, krydd og kex
Fréttir 27. janúar 2026

Þari í sauðakjöt, krydd og kex

Nýtt frækex, unnið úr íslenskum þara, er komið á innlendan markað.

Ómarktæk vísindagrein um skaðleysi glýfosats
Fréttir 27. janúar 2026

Ómarktæk vísindagrein um skaðleysi glýfosats

Í niðurstöðum vísindagreinar í tímaritinu Regulatory Toxicology and Pharmacology...

Kynntu sér lífgas- og áburðarver í Færeyjum
Fréttir 27. janúar 2026

Kynntu sér lífgas- og áburðarver í Færeyjum

Sunnlenskir bændur heimsóttu á dögunum Förka, lífgas- og áburðarverið í Færeyjum...

Bjóða upp á mótorhjólaferðir um hálendið
Fréttir 27. janúar 2026

Bjóða upp á mótorhjólaferðir um hálendið

Hjónin Eva Sæland frá Espiflöt í Bláskógabyggð og Óskar Sigurðsson frá Sigtúni í...

Orka án næringar
Fréttir 23. janúar 2026

Orka án næringar

Fæðan sem við borðum gæti orðið orkumeiri en næringarsnauð og jafnvel eitraðri v...

Hjúkrunarfræðinemi hlaut 500.000 króna styrk úr Snorrasjóði
Fréttir 20. janúar 2026

Hjúkrunarfræðinemi hlaut 500.000 króna styrk úr Snorrasjóði

Hinn 29. desember fór fram úthlutun í Múlaþingi úr svonefndum Snorrasjóði en þet...