Tvö söguskilti afhjúpuð í Reykjanesi
Í tilefni af því að öld er liðin síðan steinsteypt sundlaug var byggð í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp og níutíu ár frá upphafi skólahalds þar, verða tvö söguskilti afhjúpuð laugardaginn 5. júlí klukkan 15. Aðstandendur verkefnisins bjóða upp á kaffiveitingar.
Söguskiltin eru annars vegar um sundlaugina og hins vegar um skólann og verða þau staðsett á flötinni neðan við skólabyggingarnar. Skiltin eru með QR kóðum sem vísa á vef Reykjaness þar sem hægt er að nálgast ljósmyndir og frekari upplýsingar.
Á söguskiltinu kemur fram að sundkennsla í Reykjanesi hafi hafist í lítilli torflaug árið 1853, en samkvæmt heimildum hafi hún verið grafin 1837. Endurbætur fóru fram á lauginni árið 1890 og 1899, en hún lengd í 20 metra í seinna skiptið. Árið 1906 voru veggir laugarinnar steyptir. Steinsteypt sundlaug var byggð á núverandi stað við Hveravík árið 1925. Fyrst var hún 30 metra löng, en lengd í 50 metra árið 1944.
Um sögu Reykjanesskóla segir á skiltinu að barnaskólinn í Reykjanesi hafi verið stofnaður árið 1934 og héraðsskólinn 1937. Fyrsta bygging skólans var teiknuð af Þóri Baldvinssyni og byggð 1934. Þar var jafnframt gistiaðstaða í timburhúsi sem var byggt fyrir nemendur á sundnámskeiðum árið 1930, en það hús brann árið 1941. Þá var byggt nýtt heimavistarhús ofan á hverasvæðinu, en skemmdist timbrið í því út af jarðhitanum og var það rifið. Núverandi byggingar voru reistar á sjöunda og áttunda áratugnum. Héraðsskólinn var lagður niður árið 1991 en í Reykjanesi starfaði barnaskóli til ársins 1996.
Að verkefninu standa Sögumiðlun ehf., ásamt afkomendum Aðalsteins Eiríkssonar og Bjarnveigar Ingimundardóttur, fyrstu skólastjórahjónanna í Reykjanesi, og afkomendum skólastjórahjónanna Páls Aðalsteinssonar og Guðrúnar Hafsteinsdóttur. Styrki veittu Uppbyggingarsjóður Vestfjarða, Háafell, HS Orka og Ísafjarðarbær
