Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 mánaða.
Tímabundinn skortur á mygluostum hjá Mjólkursamsölunni
Mynd / MS
Fréttir 11. október 2021

Tímabundinn skortur á mygluostum hjá Mjólkursamsölunni

Höfundur: smh

Skortur er á mygluostum frá starfsstöð Mjólkursamsölunnar í Búðardal sem átti að setja í sölu í október, vegna galla í nýjum framleiðslubúnaði. Á það við um allar tegundir mygluosta, nema gráðaostinn.

Að sögn Guðbjargar Helgu Jóhannesdóttur, markaðs- og vöruflokkastjóra osta og smjörvara hjá Mjólkursamsölunni, kom gallinn í ljós eftir að búið var að setja búnaðinn upp og framleiða í september það magn sem átti nú að fara í sölu í október. 

Framleiðsla hafin á ný

„Okkur hjá MS þykir þetta miður en þetta leiðir til tímabundinnar vöntunar á mygluostum frá fyrirtækinu.

Framleiðsla á mygluostum er hafin á ný eftir viðgerð á framleiðslutækjunum en ostagerð er langtíma ferli og þurfa ostarnir tíma til að þroskast áður en þeir verða söluhæfir.  Neytendur mega því eiga von á mygluostunum aftur í verslanir í næstu viku,“ segir Guðbjörg og tekur fram að nóg sé til af gráðaostinum. „Nú er sannarlega tími fyrir fólk að njóta þess að smakka aðra íslenska osta. Nokkrir nýir ostar voru að koma á markað; mexíkósk ostablanda, sterk ítölsk ostablanda sem og fimm nýir spennandi ostar frá Ostakjallaranum í takmörkuðu magni sem fást í sérvöldum matvöruverslunum og sælkeraverslunum. Þá hófst í morgun sala á nýjum osti frá KS í Goðdalalínunni sem heitir Vesturós,“ segir Guðbjörg.