Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Spínat – ekki bara fyrir Stjána bláa
Á faglegum nótum 30. júní 2015

Spínat – ekki bara fyrir Stjána bláa

Höfundur: Hafsteinn Hafliðason

Nú er komið fram yfir Jónsmessu. Norðursólin okkar hefur náð hæsta punkti á himinboga sínum og er byrjuð að slaka á spennunni. Daga tekur að stytta á ný. Því fylgir ákveðin sæla fyrir spínatið.

Spínat er í eðli sínu tvíær jurt sem eðlilegast er að bera blóm sín að vori og hafa þá úr að spila þeim forða sem það safnaði í blöð sín sumarið áður til að koma frá sér nýrri kynslóð sem spírar og grær upp úr miðju sumri. Safnar holdum og styrk til að þrauka af svala vetur Suðvestur-Asíu, þar sem það er upprunnið, og spretta upp með blómnjóla sína um leið og vetri linnir.

Persneskur uppruni

Þrátt fyrir að spínat hafi verið í ræktun í nokkur þúsund ár í heimkynnum sínum, núverandi Íran, Írak og Afganistan, eru ekki nema um tólf hundruð ár síðan það barst til landanna við Miðjarðarhaf. Austur til Kínaveldis mun það þó hafa borist um tveim öldum fyrr. Fyrstu heimildir um það í Vestur-Evrópu eru frá því um 1350. Til Norðurlanda mun það ekki hafa komið fyrr en á sautjándu öld. Og hinn sænski Linné – „faðir grasafræðinnar“ – gaf því það vísindaheiti sem það ber enn, Spinacia oleracea árið 1753. Spínat hefur líka nýlega (ásamt hrímblöðkunnni íslensku) verið fært úr Hélunjólaætt yfir í Skrauthalaætt. En er þó sagt tilheyra undirættbálknum hélunjólar. Spínat ber hvorki litrík blóm né skrautleg á neinn hátt. Á slíku er ekki þörf þegar frjóvgunin fer fram með vindfrævun. Íslenska nafnið spínat á uppruna sinn í persnesku. Það hefur borist eftir mörgum krókaleiðum og haldist í öllum nágrannamálum íslenskunnar.

Fjölbreytni og kynusli

Spínat er merkileg jurt sem hagar sér nokkuð fjölbreytilega í tilverunni. Hvergi finnst það villt, en á upprunaslóðum þess vaxa tvær tegundir sem gætu verið foreldrar ræktunarspínatsins. En þó skilur nokkuð mikið á milli þeirra og þess. En ræktunarspínatið skiptist frá fornu fari í tvo hópa. Þ.e. þann hóp sem þroskar „hyrnd“ fræ og hinn með „rúnnum“ fræjum. En það er ekki nóg, því þar að auki er kynferði plantnanna nokkuð á víxl. Satt að segja er leitun á nokkurri ræktunartegund sem býr við jafn mikinn kynusla. Sumar plönturnar eru sérbýlisjurtir, sem eru þá annað hvort með karlblómum eða kvenblómum. Þetta er meginreglan. Aðrar eru tvíkynja en bera blóm af mismunandi kynjum. Enn aðrar hafa blóm þar sem eru bæði fræflar og frævur, það er samt afar sjaldgæft.

Oftast skera karlplönturnar sig úr vegna þess hversu ræfilslegar þær geta orðið og hlaupa í njóla skömmu eftir að þær eru farnar að teygja sig upp úr moldinni. Og þrátt fyrir mikla kynbóta- og ræktunarvinnu hefur ekki alveg tekist að fá fram stofna sem eru alveg einsleitir.
Þó má búast við að úr þeim spínatfræbréfum sem merkt eru með yrkisnöfnum og tilvísuninni „F1-fræ“ verði einstaklingarnir nokkuð jafnir.

Best að sá eftir Jónsmessu

Fyrsta spínatið sem ræktað var hér í Vestur- og Norður-Evrópu var af þeirri gerð sem þroskar hyrnd fræ. Þá stofna mun enn vera hægt að fá hjá félögum og fræsölum sem halda upp á forna stofna af nytjajurtum. En þau fræfyrirtæki sem selja spínatfræ í fræverslunum og til stórræktunar bjóða ekki annað en stofna með „rúnnuðum“ eða ertulaga fræjum. Og af því að spínat hefur ekki aðlagast vel daglendinni á norðurslóðum er best að sá því upp úr miðju sumri. Það er að segja eftir Jónsmessu og eitthvað fram í júlímánuð. Þá hefur það síður tilhneigingu í að hlaupa í njóla, heldur skilar bústnum og pattaralegum plöntum þegar kemur fram á haustið. Í ræktun er spínat einært. Og það gerir ekki miklar kröfur. Heldur þrífst ágætlega þar sem er fremur svalt og jarðvegurinn mátulega rakur og frjór. Gjarna í dálitlum skugga þar sem bara nýtur morgun- eða kvöldsólar. Best er að sá fræjunum í raðir um einn til einn og hálfan sentimetra djúpt í moldina, hafa 8–10 cm á milli fræja í röðinni og 25–30 cm á milli raða. Eftir því sem plönturnar vaxa, má taka aðra hverja plöntu til að nota strax og skilja þá eftir 16–20 cm bil milli þeirra plantna sem stendur til að frysta og nota að vetrinum.

Gefur krafta í köggla

Spínat er afar næringarríkt og gefur krafta í köggla. Það vitum við sem fylgdumst með dagegu lífi teiknimyndasöguhetjunnar Stjána bláa hér í eina tíð. Alltaf hafði hann dós af niðursoðnu spínati innan seilingar og greip til á ögurstundum – og hafði þaðan ofurkraftinn úr. Það inniheldur mörg mikilvæg vítamín og snefilefni. Mikið hefur verið látið að því liggja að spínat sé sérlega járnríkt, um 3–4 mg í 100 grömmum af hráu spínati. Og einnig er kalkinnihaldið um 130 mg í sama magni. En á móti kemur að spínat inniheldur um 800 mg í umræddum skammti. Hún temprar svolítið upptöku járnsins, þótt kalkið hjálpi nokkuð til. Reynt hefur verið að rækta oxalsýrumagnið úr spínatinu, en ekki alveg tekist. Þó innihalda nýjustu F1-sortirnar yfirleitt mun minna af oxalsýrunni. Vegna oxalsýrunnar er ekki ráðlegt að leggja sér spínat til munns óhitað eða ósoðið. Nokkuð af henni fer burt við hitunina. Aðkeypt fersk-spínat þarf undantekningarlaust að sjóða áður en það er notað vegna þess hve oft hafa borist með því óþægilegar sýkingar. Hitun eða suða í 3–6 mínútur er yfrið nóg.

Þegar frysta á spínat þarf að skola það vel undir rennandi vatni og skella því svo í vírsigti ofan í sjóðandi vatn í eina til tvær mínútur. Frysta það svo í mátulegum einnar máltíðar bögglum eftir að mesta vatnið hefur sigið af.

Matseld

Á síðustu árum hefur spínat orðið mál málanna hjá mörgum heilsukostspostulum. Það má nota á marga vegu og ekki vantar uppskriftirnar á matreiðslusíðum vefsins og prentfjölmiðla. Sjálfur held ég upp á það í jafningi eins og gert var á mínu bernskuheimili. En það er líka afar gott með steiktum fiski og lambasteik. Þá er það hitað, eiginlega látið hjaðna, í smjöri á pönnu. Kryddað ögn með svörtum pipar og flögusalti. Til að efla litagleðina má bæta smáskorinni papriku út í rétt áður en pannan er tekin af hitanum. Og ef menn eru í sérlega skapandi stuði er flott setja góða slummu af feitum rjóma út í um leið.

Skylt efni: Garðyrkja | ræktun | spínat

Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018
Fréttir 13. september 2024

Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018

Ekki hefur orðið vart við kartöflumyglu í sumar sem er þá fyrsta myglulausa suma...

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum
Fréttir 13. september 2024

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum

Kartöflubændur í Nesjum í Hornafirði urðu fyrir verulegu tjóni á dögunum þegar h...

Bændur selja Búsæld
Fréttir 13. september 2024

Bændur selja Búsæld

Um 90 prósent bænda í Búsæld hafa ákveðið að taka kauptilboði Kaupfélags Skagfir...

Frekari fækkun sláturgripa
Fréttir 12. september 2024

Frekari fækkun sláturgripa

Um 28 þúsund færri lömb komu til slátrunar síðasta haust en árið á undan. Áfram ...

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi
Fréttir 12. september 2024

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi

Fjár- og stóðréttir eru fram undan og venju samkvæmt birtir Bændablaðið lista yf...

Lækkað verð á greiðslumarki
Fréttir 12. september 2024

Lækkað verð á greiðslumarki

Niðurstöður tilboðsmarkaðar fyrir greiðslumark mjólkur í byrjun september sýna l...

Smalað vegna óveðurs
Fréttir 12. september 2024

Smalað vegna óveðurs

Fyrsta haustlægðin kom á dögunum, með gulum og appelsínugulum viðvörunum, norðan...

Garðyrkjubændur rafmagnslausir
Fréttir 12. september 2024

Garðyrkjubændur rafmagnslausir

Raforkusamningum meirihluta garðyrkjubænda landsins hefur verið sagt upp. Í suma...