Sölufélagið í góðu lagi
Nú hafa Sölufélag garðyrkjumanna, Báran stéttarfélag og Framsýn stéttarfélag undirritað samning um um vottunarmerkið „Í góðu lagi“.
Um er að ræða vottunarkerfi sem staðfestir að vinnustaðir fari eftir kjarasamningum og almennum reglum vinnumarkaðarins. Þrjár garðyrkjustöðvar hafa nú farið formlega í gegnum vottunarferlið; Ártangi, Friðheimar og Hveravellir. „Í góðu lagi“ merkið verður nú sýnilegt á umbúðum hjá þeim garðyrkjustöðvum sem hafa hlotið vottun.
Vottunin er framkvæmd á þann hátt að vinnustaðir eru heimsóttir og farið yfir þau gögn sem til þarf. Stofnuð var sameiginleg nefnd skipuð fulltrúum frá hlutaðeigandi stéttarfélögum og Sölufélagi garðyrkjumanna, sem vann að undirbúningi sérstakrar vottunar. Í fyrstu verður verkefnið tilraunaog þróunarverkefni afmarkað við grænmetisframleiðslu en vonir standa til að vottunin „Í góðu lagi“ geti náð útbreiðslu til fleiri greina ef vel tekst til.
