Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Skreppur seiðkarl og Þorbjörg lítilvölva
Á faglegum nótum 17. júní 2016

Skreppur seiðkarl og Þorbjörg lítilvölva

Höfundur: Vilmundur Hansen

Fyrir rúmum fjörutíu árum voru sýndir í ríkissjónvarpinu þættir um undarlegan náunga sem var kallaður Skreppur seiðkarl. Aðalsögupersónan var góðlátlegur galdramaður sem átti lítinn frosk og hafði flogið um í tíma frá elleftu öld til ársins 1960.

Þættirnir nutu talsverðra vinsælda og undarlegir menn voru gjarnan uppnefndir Skreppur seiðkarl í höfuðið á þessum skemmtilega furðufugli. Á sínum tíma, á elleftu öld, hefði hann líklega verið flokkaður sem sjamani.

Í alfræðiritinu Britannica segir að sjamani sé töfralæknir, prestur og dulspekingur samfélagsins. Hann læknar sjúka, stjórnar fórnarathöfnum samfélagsins og leiðbeinir sál dauðra yfir í aðra heima. Hann getur þetta vegna hæfileika síns til að fara út úr líkamanum að vild. Í Síberíu og Norður-Asíu gengur staðan í erfðir og starfsgreinin er ekki kynbundin.

Fyrirbærið þekkist einnig í norrænni goðafræði og tengist Óðni og trúnni á volduga anda. Í bókinni Hugtök og heiti í norrænni goðafræði eftir Rudolf Simek segir að sjálfsfórn Óðins, þegar hann hékk í tré í níu nætur, minni á manndómsvígslur fornra menningarsamfélaga og Óðinsdýrkun sé að mörgu leyti lík því ástandi sem grípur töfralækna við lækningar og spásagnir. Óðinn er goð trúaralgleymis og dýrkun hans hefur öll einkenni vitundarvímu eða trúarleiðslu. Tilfinningaleysi berserkja og úlfhéðna fyrir hita og sársauka er vel þekkt í andatrú þar sem mönnum blæðir ekki þótt borin séu á þá eggvopn.

Það að Óðinn sjái um alla heima úr hásæti sínu gæti bent til þess að hann fari sálförum eins og sjamanar. Simek bendir á að sætið Hliðskjálf minni í ýmsu á turna, palla eða seiðhjalla sem seiðmenn og seiðkonur notuðu til að sjá sýnir.

Til þess að verða sjamani þurfa menn og konur að ganga í gegnum stranga vígslu og jafnvel sjálfs­pyntingar. Aðferðin er þekkt meðal ýmissa þjóðflokka á norðurhveli og í Suður-Ameríku þar sem tilvonandi sjamani þarf að vinna fyrir kraftinum sem hann öðlast með því að fórna sjálfum sér líkt og Óðinn.

Í Hávamálum segir um Óðinn að hann hafi fórnað sjálfum sér með því að hanga níu nætur í tré, þjáður af hungri og þorsta, særður spjóti. Ekki ósvipað og Kristur á krossinum.

Þekkingarleit Óðins líkist innvígsluþrautum síberískra sjamana sem meðal annars felst í því að klifra í trjám og dvelja þar dögum saman. Óðinn öðlast þekkingu gegnum þjáninguna, þekkingu sem er fólgin í töfraþulum, meðul sem hann beitir til að lækna, stilla eld, æra nornir og stjórna örlögum manna.

Sleipnir, hinn áttfætti hestur Óðins, og fararskjóti hans til undirheima, á sér hliðstæðu í trúnni á fararskjóta síberískra sjamana. Óðinn ríður Sleipni til Heljar að særa upp löngu dauða spákonu og leita frétta og það verður að teljast mögnuð vígsla.

Sjamanar gátu einnig magnað seið en vegna erginnar sem fylgir seiðnum voru það einkum konur sem lögðu stund á hann.

Í Eiríks sögu rauða er sagt frá Þorbjörgu lítilvölvu og sagt er að hún hafi haft staf í hendi. Þegar Þorbjörg ætlaði að magna seið bað hún nokkrar konur að hjálpa sér og slógu þær hring um seiðhjallinn. Með því að stunda seið var seiðkonunum kleift að leita frétta um ókomna atburði og þannig hafa áhrif á samfélagið.

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...