Pöddur í hundamat
Fyrirtæki hafa sett á markað hundamat úr skordýrum. Slíkt fæði hefur minna kolefnisspor en hefðbundinn gæludýramatur með dýrapróteini.
„Hundarnir munu ekki ofhugsa þetta,“ segir Anne Carlsson, forstjóri Jiminy‘s, sem framleiðir hundamat úr skordýrum, í samtali við New York Times. Hún telur þetta góða leið til að auka framleiðslu á próteini úr skordýrum, enda sé hundum sama hvort maturinn sé úr nautakjöti eða engisprettum. Samkvæmt rannsóknum ber framleiðsla þurrmetis fyrir hunda og ketti ábyrgð á einu til þremur prósentum af losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði. Hundar geta því verið með umtalsvert kolefnisspor.
Þó svo að ýmislegt bendi til þess að prótein úr skordýrum sé af miklum gæðum, auðmeltanlegt og bragðgott, er enn þörf á rannsóknum til að staðfesta fullyrðingar um að fóðrið hafi þau heilsubætandi áhrif sem framleiðendur halda fram. Í nýlegri rannsókn kom fram að næringargildi í gæludýrafóðri úr skordýrum var oft vitlaust skráð og gjarnan var skortur á nauðsynlegum næringarefnum.
