Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Ónæmar bakteríur virðast nokkuð útbreiddar í umhverfinu
Fréttir 18. júní 2020

Ónæmar bakteríur virðast nokkuð útbreiddar í umhverfinu

Höfundur: smh

Í byrjun júní gaf Matvælastofnun út skýrslu með niðurstöðum úr vöktun á sýklalyfjaónæmi baktería í dýrum fyrir síðasta ár. Vöktunin skiptist annars vegar í skimun á sýklalyfjaónæmum bakteríum í dýrum, búfjár­afurðum og umhverfi og hins vegar í prófun á ónæmi í sjúkdómsvaldandi örverum í búfé og búfjárafurðum. Niðurstöðurnar gefa meðal annars vísbendingu um að sýklalyfjaónæmar bakteríur séu nokkuð útbreiddar í umhverfinu hér á landi.

Í fyrsta sinn var skimað fyrir sértækum lyfjaónæmum bakteríum (ESBL/AmpC myndandi E. coli) í yfirborðsvatni og reyndist 60 prósent sýnanna jákvæð. Er það mun hærra hlutfall en finnst í dýrum og dýraafurðum.

Aukning í jákvæðum botnlangasýnum lamba og svína

Töluverð aukning var í fjölda jákvæðra botnlangasýna af þessari sömu bakteríu hjá lömbum og svínum, miðað við árið 2018. Hlutfallið var 10,9 prósent hjá lömbum og 12,7 prósent hjá svínum. Hins vegar fundust engar í botnlangasýnum kjúklinga á þessu ári.

Annað árið í röð fannst ekki sams konar baktería í svínakjöti á markaði, en hins vegar voru 2,6 prósent sýna af kjúklingakjöti sem innihéldu bakteríuna; eitt prósent innlendra sýna en 14,8 prósent erlendra sýna.
Rúmlega 1.200 sýni voru rannsökuð, úr sýnatökum Mat­­væla­­­stofnunar, heil­brigðiseftirlits sveitarfélaga og Umhverfisstofnunar. Sýni voru tekin úr svínum, alifuglum, lömbum, innlendu og erlendu svína-, nautgripa- og alifuglakjöti, bæði á markaði og í afurðastöðvum. Að auki var skimað fyrir tilteknum ónæmum bakteríum í yfirborðsvatni víðs vegar um landið.

Alþjóða­heilbrigðis­mála­stofn­unin hefur gefið það út að sýkla­­lyfjaónæmar bakteríur séu ein helsta heilsu­farsógnin sem steðjar að mannfólkinu og hafa rannsóknir á þeim, hér og víðast hvar annars staðar, aukist samhliða aukinni útbreiðslu.

Að sögn Vigdísar Tryggvadóttur, sérgreinadýralæknis hjá Matvæla­stofnun, sem hefur yfirumsjón með vöktuninni, voru ónæmisprófanir á salmonellustofnum frá dýrum og afurðum dýra í mörg ár gerðar á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans, eða fram til ársins 2013. „En árið 2014 var næmisprófunum breytt í samræmi við Evrópuregluverk og fara núna allar fram á Keldum. Prófað er fyrir fleiri lyfjum en áður og önnur gildi eru notuð við mat á næmi, ásamt því að við erum að skoða ónæmi hjá fleiri bakteríutegundum og skima fyrir sértækum sýklalyfjaónæmum bakteríum. Síðustu ár hefur fjöldi sýna, dýrategunda og afurða – sem liggur til grundvallar vöktuninni – fjölgað jafnt og þétt,“ segir Vigdís.

Vonandi er fjölgunin undantekning

Vigdís segir að mjög erfitt sé að meta breytingar á milli ára, hvað varðar tíðni staðfestra sýna með slíkum bakteríum. „Við fáum mjög fáa stofna til næmisprófunar, til dæmis af salmonellu – sem er auðvitað gott mál. Við sáum þó töluverða aukningu milli ára í botnlangasýnum frá svínum og lömbum á sértækum sýklalyfjaónæmum bakteríum, sem kallast ESBL/AmpC myndandi E. coli; eða úr um fimm prósentum í tæp 13 prósent í svínum og úr fjórum prósentum í tæp 11 prósent í lömbum. Við höfum engar haldbærar skýringar á þessari aukningu og verður áhugavert að fylgjast með þessu áfram. Vonandi eru þetta undantekningar og við sjáum sambærilegar tölur árið 2020 og við sáum 2018. Það er ekki tímabært að draga víðtækar ályktanir um tíðnina í mismunandi dýrategundum og afurðum þar sem kerfisbundin vöktun er skammt á veg komin hér á landi. Gagnaöflun yfir lengri tíma er nauðsynleg til að meta tíðni og þróun sýklalyfjaónæmra baktería í dýrum og dýraafurðum,“ segir Vigdís.

Fjöldi jákvæðra sýna í yfirborðsvatni kom á óvart

Hún segir að ekki megi gleyma umhverfisþættinum en skim­að hafi verið, í samvinnu við Umhverfisstofnun, fyrir þessum sömu sértæku sýklalyfjaónæmu bakteríum í yfirborðsvatnssýnum í fyrsta skipti í ár. „Þar fengum við mun hærra hlutfall en finnst í dýrum og dýraafurðum, eða 15 af 25 sýnum sem voru tekin víðs vegar um landið reyndust jákvæð – sem kom okkur á óvart. Við fáum vonandi tækifæri til að skoða það frekar á næstu árum.“

„Almennt er staðan á Íslandi svipuð og í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi,“ segir Vigdís, spurð um samanburðinn við önnur lönd. „Samanburður er reyndar mjög erfiður nema á þeim sýnum sem eru tekin samkvæmt regluverki Evrópu; aðallega úr kjúklingum, svínum og afurðum þeirra. „Við stöndum hins vegar almennt nokkuð vel í samanburði við meginland Evrópu,“ bætir hún við. 

Svínaflensa í Rússlandi
Fréttir 27. september 2022

Svínaflensa í Rússlandi

Afríska svínaflensan greindist á stóru rússnesku svínabúi í lok sumars. ...

Hækkun upp á 35,5 prósent að meðaltali fyrir dilka yfir landið
Fréttir 30. ágúst 2022

Hækkun upp á 35,5 prósent að meðaltali fyrir dilka yfir landið

Uppfærslur á verðskrám sláturleyfishafa, vegna sauðfjárslátrunar 2022, halda áfr...

Fjár- og stóðréttir 2022
Fréttir 25. ágúst 2022

Fjár- og stóðréttir 2022

Fjár- og stóðréttir verða nú með hefðbundnum brag, en tvö síðustu haust hafa ver...

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður
Fréttir 7. júlí 2022

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður

Staðfest er að samtals 128 gripir bera annaðhvort ARR-arfgerð, sem er alþjóðlega...

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021
Fréttir 7. júlí 2022

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021

Afurðatekjur af nautaeldi mæta ekki framleiðslukostnaði og hafa ekki gert síðast...

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir
Fréttir 27. júní 2022

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar umtalsverðar hækkanir á afurðaverði til sauðfjárb...

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“
Fréttir 14. júní 2022

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“

Stjórn Bændasamtakana telur skýrslu og tillögur Spretthóps, sem lagaðar voru fyr...

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning
Fréttir 14. júní 2022

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning

Spretthópur, sem matvælaráðherra skipaði vegna alvarlegrar stöðu í matvælaframle...