Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Grýla er mannæta eins og önnur tröll og óþekk börn eru eftirlætismatur hennar en hún er lítið gefin fyrir fisk, súpur og grauta.
Grýla er mannæta eins og önnur tröll og óþekk börn eru eftirlætismatur hennar en hún er lítið gefin fyrir fisk, súpur og grauta.
Á faglegum nótum 22. desember 2014

Nefið á Grýlu er stórt og hlykkjótt og úr vitum hennar kemur helblá gufa

Höfundur: Vilmundur Hansen

Grýla er mannæta eins og önnur tröll og óþekk börn eru eftirlætismatur hennar en hún er lítið gefin fyrir fisk, súpur og grauta. Mestur tími Grýlu fer í að afla matar handa sér og fjölskyldu sinni.

Kerlingarskarið hefur búið með þremur tröllkörlum í gegnum tíðina og heitir núverandi bóndi hennar Leppalúði. Hinir tveir hétu Boli og Gustur og átti hún tæplega áttatíu börn með þeim.
Grýla er mannæta og óþekk börn eftirlætismatur hennar.

Nefið á Grýlu er stórt og hlykkjótt og úr vitum hennar kemur helblá gufa.

Grýla er ævagömul kerling og nefnd meðal tröllkvenna í Snorra-Eddu en hún er ekki bendluð við jólin fyrr en í kvæði frá 17. öld. Kerlingunni er lýst sem fullkominni andstæðu kvenlegrar fegurðar.

Hún er með klær og hófa, kjaftstór, með vígtennur og horn. Grýla er með augu í hnakkanum og í þeim logar eldur, eyrun ná langt út á axlir, nefið er stórt og hlykkjótt og úr vitum hennar kemur helblá gufa. Sögur um Grýlu eru fremur fáar en því meira er fjallað um hana í kvæðum og þulum.

Grýla reið fyrir ofan garð
hafði hala fimmtán,
en á hverjum hala
hundrað belgi,
en í hverjum belg
börn tuttugu.
Þar vantar í eitt,
og þar skal fara í barnið leitt.

Kerlingin á sér hliðstæðu í Færeyjum, á Shetlandseyjum og víðar. Í Færeyjum er Grýlu lýst sem gamalli og ljótri kerlingu sem líkist gamalli rollu sem gengur upprétt á tveimur fótum. Á Shetlandseyjum þekkist tröllkerling sem kallast Skekla og er hún á ýmsan hátt lík Grýlu í háttum. Skekla kemur ríðandi til byggða á svörtum hesti með hvíta stjörnu í enni, hesturinn er með fimmtán tögl og á hverju tagli eru fimmtán börn.

Fyrir skömmu hélt Valgerður H. Bjarnadóttir námskeið þar sem hún tengdi Grýlu við skosku gyðjuna Cailleach Beur og írsku gyðjuna Cailleach Bhéara. Valgerður segir að á Skotlandi og á Írlandi finnist sagnir sem minna mjög á Grýlusagnirnar og að enginn vafi sé á því að við landnám flytjast hingað sagnir og trú. Skoska gyðjan Cailleach Beur og írska gyðjan Cailleach Bhéara eru keltneskar útgáfur af gyðju eða vætti sem minnir um margt á Grýlu. Að sögn Valgerðar eru báðar tengdar vetrinum og minnkandi sól og óbyggðum og eru óhugnanlegar ásýndum. Báðar eiga staf sem frystir jörðina og karl sem er mun veikburðari auk þess sem í sumum sögnum eiga þær ótalmörg börn.

Grýlubörn

Kerlingarskarið hefur búið með þremur tröllkörlum í gegnum tíðina og heitir núverandi bóndi hennar Leppalúði. Hinir tveir hétu Boli og Gustur og átti hún tæplega áttatíu börn með þeim; þekktust þeirra eru jólasveinarnir. Leppalúði átti einn son, Skrögg, áður en hann hóf sambúð með Grýlu og tók hún Skrögg í fóstur.

Jólasveinar ganga um gátt
með gildan lurk í hendi.
Móðir þeirra hrín við hátt
og hýðir þá með vendi.

Í gömlum kvæðum er Grýlu lýst sem beiningakerlingu sem fer á milli bæja og biður foreldrana að gefa sér óþekku börnin en hörfar ef henni er rétt eitthvað matarkyns eða er rekin burt með látum.

Í Grýlukvæði séra Jóns Guðmundssonar segir:

Farðu til hunda,
herjans kerling,
ekki er ég skyldur
að skaffa þér vistir;
mér er fullstéttað
með hana Gunnu,
þótt ekki aukist þar
ofan á meira.

Grýla er mannæta eins og önnur tröll og óþekk börn eru eftirlætismatur hennar en hún er lítið gefin fyrir fisk, súpur og grauta. Mestur tími Grýlu fer í að afla matar handa sér og fjölskyldu sinni. Kerlingin hefur lengi verið notuð sem barnafæla og flestir hafa einhvern tíma verið hræddir með Grýlu gömlu.

Einmana kerling

Í seinni tíma frásögnum er Grýla búin að taka upp fasta búsetu og býr í helli, fjarri mannabyggðum. Þegar hér er komið sögu fer allur tími hennar í að sjóða mat í stórum potti, stjana við Leppalúða og gefa krakkaófétunum að éta. Grýla er hætt að fylgjast með tíðarandanum og verður sífellt forneskjulegri, hún er einmanaleg gömul kerling sem hefur gleymst í öllum látunum í kringum jólin.

Í Kóngulóarkvæði talar Leppalúði til dóttur sinnar þegar Grýla er komin í kör og hætt að afla fanga. Leppalúði segir Kónguló að nú verði hún að taka við og annast háaldraða foreldrana.

„Kæra dóttir Kóngluló“
karlinn þá svo orti,
„meðan hún Grýla móðir þín bjó,
mat oss aldrei skorti.

Vön var sú að veiða börn,
verka síðan og sjóða.
Hún kramdi þau sem kankvís örn
en krakkarnir voru að hljóða.

Ellimóð er orðin sú,
en ég farinn af lúa,
víst er það að verður þú
vegna okkar að búa.
Ertu bæði ung og hraust
okkur að veita fóður,
á þig set ég allt mitt traust,
að annast föður og móður.“

Er Grýla yfirvaldið?

Hugmyndin um Grýlu hefur breyst mikið í tímans rás þótt meginhlutverk hennar hafi alla tíð verið að temja börn. Árni Björnsson segir, með nokkrum fyrirvara, í bók sinni, Sögu daganna, að Grýla endurspegli grimmd yfirvalda gagnvart alþýðunni og að hún hafi farið að mildast eftir að einveldi var afnumið. Því hefur einnig verið haldið fram að Grýla og hyski hennar séu tákngervingar náttúruaflanna, skammdegismyrkursins eða flökkulýðs sem fór um landið. Grýla er með úlfgrátt hár og svartar brúnir, með tennur eins og ofnbrunnið grjót, augu sem loga eins og eldur og granir þar sem út stendur helblá gufa, líkari virkri eldstöð en konu. Hún var ekki talin mennsk og hyski hennar rennur saman við kletta og landslag og sést ekki nema við sérstakar aðstæður.

Grýla í uppeldisfræði

Grýla hefur mildast mikið á síðastliðnum áratugum og útlit hennar skánað. Hún er að vísu enn stórvaxin og tröllsleg en það er eitthvað góðlegt og umkomulaust við hana. Í Grýlukvæði Þórarins Eldjárns frá 1992 eru Grýla og Leppalúði hætt að eltast við börn, búin að klára öldungadeildina og eru við nám í uppeldis- og kennslufræði.

Er börnin uxu upp og burt
ellimóð þá sátu kjurt
veslings Grýla og Leppalúði.
Á lífið hvorugt þeirra trúði.

Uns Grýla mælti mædd og rám:
- Það mætti reyna að hefja nám.
Og uppi í Hamrahlíðarskóla
háöldruð þau vermdu stóla.

Í Háskólann þau héldu inn
er höfðu klárað öldunginn.
Innrituð þau eru bæði
í uppeldis- og kennslufræði.
Síðasta tröllið

Tröllin eru þær verur sem minnst fer fyrir í þjóðsögum síðustu alda og flest hefur dagað uppi fyrir löngu. Þrátt fyrir það er langt frá því að Grýla sé dauð úr öllum æðum og virðist reyndar vera við hestaheilsu og farin að sinna mannúðarmálum því fyrir nokkrum árum birtist mynd af henni í fjölmiðlum þar sem hún var að gefa blóð. Grýla er síðasta tröllið og jafnframt samnefnari fyrir þessar fornu vættir.

Ef hugmyndin um að Grýla sé táknmynd yfirvaldsins á við rök að styðjast er greinilegt góðæri í landinu og gaman verður að fylgjast með breytingum á henni á komandi árum eða, eins og Eggert Ólafsson segir í Grýlukvæði sínu:

Afturgengin Grýla
gægist yfir mar.
Ekki verður hún börnunum
betri en hún var. 
Gleðileg jól

Skylt efni: Jól

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði
Fréttir 16. apríl 2024

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði

Matvælastofnun hefur birt leiðrétta skýrslu yfir áburðareftirlit síðasta árs.

Ísteka í yfirburðastöðu
Fréttir 15. apríl 2024

Ísteka í yfirburðastöðu

Í nýrri ályktun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að Ísteka beiti sterkri stöðu ...

Hverfandi líkur á riðusmiti árið 2032
Fréttir 15. apríl 2024

Hverfandi líkur á riðusmiti árið 2032

Í nýrri landsáætlun verður stefnt að því að hverfandi líkur verði að upp komi ri...

Hrútaverðlaun fyrir Gullmola og Blossa
Fréttir 15. apríl 2024

Hrútaverðlaun fyrir Gullmola og Blossa

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var í Ásgarði Landbúnaðarháskóla Ísla...

Sláturhús brann til grunna
Fréttir 12. apríl 2024

Sláturhús brann til grunna

Sláturhúsið í Seglbúðum í Landbroti brann til grunna þann 1. apríl.