Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Sem fyrr eru dönsku kúabúin langstærst og eru að jafnaði með 177 kýr nú og jókst bústærðin að jafnaði um rúmlega 1 árskú í hverjum einasta mánuði síðasta ár í Danmörku.
Sem fyrr eru dönsku kúabúin langstærst og eru að jafnaði með 177 kýr nú og jókst bústærðin að jafnaði um rúmlega 1 árskú í hverjum einasta mánuði síðasta ár í Danmörku.
Mynd / HKr.
Fréttir 29. júní 2016

Mjólkurframleiðsla Norður­landanna jókst 2015

Höfundur: Snorri Sigurðsson
Árið 2015 var að mörgu leyti sögulegt sé litið til evrópskrar mjólkurframleiðslu en það ár var mjólkurkvótinn aflagður í Evrópusambandinu. 
 
Þessi breyting á framleiðslukerfi hafði veruleg áhrif á þróun mjólkurframleiðslunnar á síðari hluta ársins og sést þess berleg merki þegar horft er til mjólkurframleiðslunnar á Norðurlöndunum þar sem þrjú af fimm löndum eru í Evrópusambandinu.
 
 
Enn fækkar kúabúunum
 
Þróun síðustu áratuga heldur áfram og heldur kúabúum á Norðurlöndunum áfram að fækka og fækka. Um áramótin síðustu var heildarfjöldi kúabúanna 24.730 (sjá töflu 1) og hafði búunum fækkað á árinu um 1.595 talsins eða um 6,4%. 
 
Langmest fækkun búa varð í Noregi en þar hættu 769 kúabú á árinu, eða sem nemur 8,8% starfandi búa. Þar á eftir kom svo Finnland en þar fækkaði búunum um 480 á árinu, eða um 6,1%. Minnst hlutfallsleg fækkun varð í Danmörku en þar fækkaði búunum einungis um 119 á árinu eða 3,6%
 
Norðurlöndin framleiddu 12,3 miljarða kg
 
Eins og sést við skoðun á töflu 1 þá endaði mjólkurframleiðsla Norðurlandanna í 12,3 milljörðum kg árið 2015 sem er aukning um 2,0% frá fyrra ári. Afar misjafnt var á milli einstakra landa hvernig framleiðslan þróaðist á árinu. Þannig jókst hún langmest á Íslandi eða um 9,4% frá fyrra ári, um 3,2% í Danmörku, um 1,8% í Noregi og um 1,6% í Finnlandi. 
 
Í Svíþjóð stóð mjólkur­framleiðslan hins vegar í stað á milli ára þrátt fyrir að framleiðslan væri frjáls. Þegar horft er til mjólkurmagnsins er dönsk mjólkurframleiðsla sem fyrr í sérflokki með 5,3 milljarða kílóa mjólkur og stendur undir 42,9% allrar framleiðslu Norðurlandanna. Þar á eftir kemur Svíþjóð með 23,9% og Finnland með 19,5%.
 
1,5 milljónir mjólkurkúa
 
Á sama tíma og kúabúunum fækkar nokkuð ört hefur fjöldi mjólkurkúa á Norðurlöndunum hins vegar aukist en heildarfjöldi þeirra jókst um 54 þúsund á síðasta ári miðað við fyrra ár. Mest jókst fjöldi mjólkurkúa í Danmörku, eða um 32 þúsund kýr og næstmest í Noregi þar sem fjöldi þeirra jókst um 27 þúsund kýr. Á sama tíma fækkaði kúm hins vegar í Svíþjóð um 6 þúsund kýr. Þessar kýr mjólka eðlilega mismikið eftir löndum, kúakyni og framleiðsluaðferðum en sé horft til þeirrar mjólkur sem skilar sér í afurðastöðvar og svo heildarfjölda kúnna á Norðurlöndunum kemur fram einkar áhugaverð mynd. 
Mestar afurðir er að finna í Danmörku og Svíþjóð með rétt um 9 þúsund kíló eftir kúna en eðlilega lægst hér á landi. Að jafnaði skilaði hver kýr í afurðastöð 8.457 kílóum mjólkur árið 2015 sem er töluverð afturför frá árinu 2014, eða um 158 kíló. 
 
Mestu munar um hraustlegan samdrátt í Noregi um 827 kíló á kúna en skýringin gæti falist í því að vegna mikillar fækkunar kúabúa hafi mörg afurðahá kúabú farið út úr framleiðslunni. Einnig hefur kúnum þar verið að fjölga hratt og að yngjast upp sem getur komið fram sem tímabundin afurðalækkun.
 
Langstærstu búin í Danmörku
 
Meðalbústærðin á Norður­löndunum er nú komin í 59 árskýr og jókst bústærðin í öllum löndunum og að jafnaði um 5,6 árskýr. 
 
Sem fyrr eru dönsku kúabúin langstærst og eru að jafnaði með 177 kýr nú og jókst bústærðin að jafnaði um rúmlega 1 árskú í hverjum einasta mánuði síðasta ár í Danmörku. 
 
Kúabúin þar eru ekki einungis stærst meðal Norðurlandanna heldur einnig í allri Evrópu ásamt skoskum kúabúum.
 
Hægist á þróun með mjaltaþjóna
 
Síðustu árin hefur mjaltaþjónum fjölgað mikið á Norðurlöndunum en nú virðist sem heldur hafi hægst á þróuninni. 
 
Á línuritinu efst á síðunni má sjá þróun útbreiðslu mjaltaþjónabúa á Norðurlöndunum og eins og sjá má fækkar búunum bæði í Danmörku og Svíþjóð og þá hefur hægst á þróuninni í Finnlandi. Mjaltaþjónabúum fjölgaði þó á árinu úr 4.293 um áramótin 2014/2015 í 4.444 um síðustu áramót en þetta er minni hlutfallsleg aukning en verið hefur undanfarin ár. Þá hefur mjaltaþjónum fjölgað úr 6.894 um áramótin 2014/2015 í 7.179 um síðustu áramót. 
 
Mestan fjölda er enn að finna í Danmörku eða 2.194 mjaltaþjóna um nýliðin áramót, sem er þó fækkun um 73 mjaltaþjóna frá árinu á undan. Um liðin áramót voru mjaltaþjónar á 18,0% kúabúa Norðurlandanna en hæsta hlutfall þeirra er að finna í Svíþjóð þar sem 24,6% kúabúa landsins eru með mjaltaþjóna. Lægst er þetta hlutfall í Finnlandi þar sem einungis 12,0% kúabúanna eru með mjaltaþjóna. Hér á landi var hlutfallið 21,8% um síðustu áramót.
 
Þegar horft er til mjólkur­framleiðslu þessara mjaltaþjónabúa þá hefur tæknihópur NMSM áætlað að framleiðslan nemi 30,3% af allri framleiddri mjólk Norðurlandanna, þó verulega misjafnt eftir löndum. 
 
Hlutfallslega eru flestir mjaltaþjónar á Íslandi
 
Íslenska mjaltaþjónaframleiðslan er hlutfallslega sú langmesta á Norðurlöndunum og eftir því sem best er vitað í heiminum öllum eða 37,4%. Þar á eftir koma norsku kúabúin með 35,0% og þá sænsku búin með 33,6%. 
 
Lægst er hlutfallið í Danmörku sem er veruleg breyting frá því sem áður var en landið var lengi vel leiðandi í mjólkurframleiðslu með mjaltaþjónum. Skýringin á þessari breytingu felst í því að danskir kúabændur byggja afkomu sína að mestu leyti á útflutningi mjólkurvara og vinna því í mun meira samkeppnisumhverfi en starfsbræður þeirra á Norðurlöndum. 
 
Eins og áður hefur komið fram eru kúabúin í Danmörku einnig þau stærstu í Evrópu og á flestum þeirra er launað starfsfólk auk ábúenda. Hagræðið af því að vera með mjaltaþjóna fer því þverrandi auk þess sem mjaltaþjónar eiga mjög erfitt með að keppa í hagkvæmni við hefðbundnar framleiðsluaðferðir og því hopar þessi tækni jafnt og þétt í Danmörku.
 
Snorri Sigurðsson
sns@seges.dk
Ráðgjafi hjá SEGES P/S
Danmörku

3 myndir:

Áhersla á greiðslumarkið
Fréttir 22. febrúar 2024

Áhersla á greiðslumarkið

Á deildarfundi sauðfjárbænda hjá Bændasamtökum Íslands var samþykkt nær samhljóð...

Nú þarf að láta verkin tala
Fréttir 22. febrúar 2024

Nú þarf að láta verkin tala

Halldóra Hauksdóttir verður áfram formaður búgreinadeildar eggjabænda. Meðstjórn...

Misræmi milli framleiðslu og greiðslumarkseignar
Fréttir 22. febrúar 2024

Misræmi milli framleiðslu og greiðslumarkseignar

Tveir mjólkurframleiðendur uppfylltu ekki yfir 200.000 lítra af greiðslumarki í ...

Formannsslagur í vændum
Fréttir 22. febrúar 2024

Formannsslagur í vændum

Gunnar Þorgeirsson og Trausti Hjálmarsson hafa gefið kost á sér í embætti forman...

Betri afkoma í garðyrkju
Fréttir 22. febrúar 2024

Betri afkoma í garðyrkju

Afkoma ylræktenda fer batnandi en útiræktenda versnandi.

Seljavellir fyrirmyndarbú ársins 2024
Fréttir 22. febrúar 2024

Seljavellir fyrirmyndarbú ársins 2024

Seljavellir í Nesjum í Hornafirði var útnefnt fyrirmyndarbú nautgripabænda Bænda...

Opið fyrir umsóknir
Fréttir 21. febrúar 2024

Opið fyrir umsóknir

Opnað var fyrir umsóknir í Matvælasjóð þann 1. febrúar síðastliðinn.

Esther hættir eftir tólf ára starf
Fréttir 21. febrúar 2024

Esther hættir eftir tólf ára starf

Esther Sigfúsdóttir, sem gegnt hefur starfi framkvæmdastjóra Sauðfjársetursins á...