Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 11 ára.
Mislitt sauðfé
Á faglegum nótum 17. júlí 2014

Mislitt sauðfé

Höfundur: Dr. Ólafur Dýrmundsson

Dagana 18.-21. maí í vor var haldin í París 8. alþjóðlega ráðstefnan um mislitt sauðfé, en það er að finna í fjölmörgum sauðfjárkynjum víða um heim. Vaxandi áhugi á náttúrulegum litum í ull og gærum til ýmiss konar handverks og iðnaðar hefur örvað áhuga á verndun litafjölbreytni. Þar er Ísland framarlega í flokki.

Erfðaauðlindir

Fjölbreytilegir litir búfjár eru meðal eiginleika sem teljast í senn til erfðaauðlinda og menningargersema. Þar er Ísland í mikilli sérstöðu hvað varðar öll landnámskynin, bæði vegna einangrunar og áhuga bænda og annarra á verndun hinna margvíslegu lita.

Dr. Stefán Aðalsteinsson, búvísindamaður og erfðafræðingur (1928-2009), starfaði að grundvallarrannsóknum á þessu sviði og vann sér sess meðal fremstu vísindamanna í heimi, einkum varðandi litaerfðir sauðfjár. Stefán var óþreytandi baráttumaður fyrir verndun erfðaefnis búfjár hér á landi og tók virkan þátt í alþjóðlegu starfi um þau efni um áratuga skeið.

Minning Stefáns heiðruð

Þetta var í fyrsta skipti sem ráðstefna um mislitt sauðfé var haldin á meginlandi Evrópu en sú fyrsta var haldin í Ástralíu árið 1979. Stefán kom nokkuð við sögu sumra þessara ráðstefna, kynnti rannsóknaniðurstöður sínar og tók þátt í starfi vinnuhópa um litaerfðir búfjár. Sumir þeirra 80 þátttakenda á ráðstefnunni í París kynntust Stefáni á sínum tíma og enn fleiri vitna í verk hans. Í tilefni þessarar 8. ráðstefnu var gefin út vegleg bók, „Timeless Coloured Sheep“, 272 blaðsíður með fjölda mynda, undir ritstjórn Dawie du Toit, prentuð í Þýskalandi (sjá info@archehof-ketterle.de). Þar er efni eftir 30 höfunda og fluttu þeir erindi á ráðstefnunni. Bókin er sérstaklega helguð minningu Stefáns og er inngangskaflinn, „Adalsteinsson´s Fingerprints on Colour Genetics“, eftir dr. Phillip Sponenberg dýralækni og erfðafræðing frá Bandaríkjunum, því til staðfestingar. Þeir unnu töluvert saman á sínum tíma og var góður rómur gerður að erindinu. Að auki var mér sem höfundi efnis frá Íslandi og þátttakanda í ráðstefnunni gefinn kostur á að heiðra minningu Stefáns í stuttu máli í lok erindis míns. Það gerði ég með glöðu því að hann hvatti mig, öðrum fremur, til að vinna einarðlega gegn eyðingu erfðaefnis sem nú ógnar líffræðilegri fjölbreytni og fæðuöryggi í heiminum.

Mislita féð vinsælt

Þótt ræktun alhvítrar ullar hafi lengi verið meginmarkmiðið í ullarkynbótum, og ullariðnaður um heim allan sækist einkum eftir slíkri ull, er víða verið að leggja alúð við mislitina. Handverksfólk og listamenn sækjast mikið eftir mislitri ull, og einnig gærum, og algengt er að fólk með litlar hjarðir, gjarnan tómstundabændur, helgi sig ræktun á mislitu sauðfé.

Í mörgum tilvikum er jafnframt verið að vernda sauðfjárkyn og stofna sem eru í útrýmingarhættu. Þetta kom vel í ljós á ráðstefnunni, ekki aðeins í ræðu og riti, heldur einnig á handverkssýningu sem haldin var samhliða og í kynnisferðum á fjárbú. Í Frakklandi er fjöldi sauðfjárkynja, sauðfjárrækt er veigamikil búgrein þar í landi og þar kemur verndun litafjölbreytni vissulega við sögu. Frakkinn dr. J.J. Lauvergne, heimsþekktur litaerfðafræðingur, var reyndar meðal samstarfsmanna Stefáns á sínum tíma svo sem nokkrar vísindaritgerðir bera vitni um.

Eitt er víst að áfram verður haldið að efna til heimsráðstefna um mislitt sauðfé því að sú 9. í röðinni verður haldin í Biella á Norður-Ítalíu árið 2019.

1 myndir:

Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu
Fréttir 11. desember 2025

Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu

Ný rannsókn Matís sýnir að kolefnisspor helstu íslenskra matvæla – mjólkur, kjöt...

Þörungakjarni með mörg hlutverk
Fréttir 11. desember 2025

Þörungakjarni með mörg hlutverk

Undirrituð hefur verið formleg viljayfirlýsing um stofnun Þörungakjarna á Akrane...

Húsaeiningar frá Noregi
Fréttir 9. desember 2025

Húsaeiningar frá Noregi

Nýlega komu um tvö þúsund fermetrar af svonefndum „Modulum“, sem eru forsmíðaðar...

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni

Alþingi hefur samþykkt framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár til ársins 2029. Um tí...

Gervigreind í Grímsnesi
Fréttir 9. desember 2025

Gervigreind í Grímsnesi

Grímsnes- og Grafningshreppur tekur nú þátt í þróunarverkefni í samstarfi við up...

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti
Fréttir 8. desember 2025

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti

Niðurstöðu COP30 sem fram fór í Brasilíu í nóvember hefur verið lýst sem lægsta ...

Fituúrgangur til framleiðslu á hreinsivörum
Fréttir 8. desember 2025

Fituúrgangur til framleiðslu á hreinsivörum

Nýsköpunarfyrirtækið Gefn sérhæfir sig í framleiðslu á umhverfisvænum bílahreins...