Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Skagahellir, sem enn þann dag í dag er notaður sem kartöflugeymsla.
Skagahellir, sem enn þann dag í dag er notaður sem kartöflugeymsla.
Mynd / Ólöf Þórhallsdóttir
Fólk 8. ágúst 2016

Merkar minjar um sögu manngerðra hella sem brýnt er að varðveita

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Sandsteinshellar á Ægissíðu við Hellu í Rangárþingi ytra eru merkar minjar um sögu manngerðra hella hér á landi. Notkun þeirra hefur aldrei verið skráð með skipulegum hætti né heldur hefur mikilvægi þeirra í menningu og landbúnaði aldrei verið rannsakað. Á liðnu vori fengu þau Árni Freyr Magnússon og Álfrún Perla Baldursdóttir, nemendur við Háskóla Íslands, styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna til að rannsaka þessar minjar og gera upplýsingar um þær aðgengilegar fyrir almenning. Þau vinna nú að því að safna saman heimildum, bæði munnlegum og skriflegum og útbúa ítarlegt fræðsluefni um hellana, en stefnt er að því að gera þá aðgengilega fyrir ferðamenn á svæðinu, allan almenning og háskólasamfélagið. 
 
Hugmyndin að búa til hljóðleiðsögn
 
Upphaf þessa má rekja til þess að Stracta hótel var reist og tekið í notkun á Hellu og fóru eigendur þess að huga að afþreyingu fyrir þá ferðamenn sem þar dvelja. Vitneskja um hellana á Ægissíðu var fólki á svæðinu kunn. Forsvarsmenn Stracta hótels höfðu samband við Þórhall Ægi Þorgilsson, bónda á Ægissíðu 4, afa Álfrúnar, og spurðust fyrir um ástand hellanna og hvort möguleiki væri á að ferðamenn gætu skoðað þá. Þórhallur Ægir hafði sjálfur oft farið með hópa skólabarna til að skoða hellana. Leist honum vel á hugmyndina, en hellarnir voru ekki í því ásigkomulagi að hægt væri að fara með mikinn fjölda fólks ofan í þá. Úr varð að hann sótti um styrk og fékk fé til að loka hellunum þannig að þeir varðveittust betur en ella. 
 
„Við höfum nú í sumar unnið að þessu verkefni, höfum safnað saman ýmsum heimildum sem til eru og hugmyndin er að útbúa hljóðleiðsögn sem hægt verður að hlusta á í farsíma eða öðrum tækjum. Þannig geta ferðamenn sjálfir skoðað hellana og fengið um þá upplýsingar,“ segir Árni Freyr. Samhliða því verki er í samstarfi við Stracta hótel á Hellu unnið að því að koma í veg fyrir frekari skemmdir á hellunum, en þeir eru flestir í því ástandi að vera ósýningarhæfir sökum vanrækslu. 
 
Tólf hellar í landi Ægissíðu
 
Árni segir að í landi Ægissíðu séu 12 hellar, allir manngerðir, en ekki er með vissu vitað um aldur þeirra eða hvers vegna þeir voru gerðir. Nokkrir af þessum 12 hellum hafa hrunið, en 5 standa eftir og hægt að gera þá sýningarhæfa. Því verki er ólokið. Tveir af hellunum er enn í notkun, Skagahellir og Búrhellir, báðir nýttir sem búr, m.a. eru í þeim geymdar kartöflur. Hina hellana var hætt að nota fyrir búsmala og hey á árunum eftir 1970, sá síðasti var tekinn úr almennri notkun árið 1975. 
 
Langeldur og skáli
 
Árni segir að þegar íbúðarhúsið á Ægissíðu 2 var byggt árið 1966 hafi komið í ljós rústir af langeldi og skála umhverfis hann. Úr skálanum lá op ofan í Búrhelli, en innangengt hefur verið úr skálanum og í hellinn, en þar mátti sjá för eftir 7 keröld. „Hellirinn er líklegast jafngamall skálanum. Íslendingar hættu að nota langelda á 14. öld svo draga má þá ályktun að hellirinn sé að minnsta kosti það gamall en allt eins er líklegt að hann sé eldri. Þessi vitneskja skipar hellunum í hóp með allra elstu mannabústöðum sem enn standa hér á landi,“ segir Árni. Íbúðarhúsið var byggt yfir landnámsbæinn og er innangengt úr því og yfir í Búrhelli, þannig að einungis er hægt að komast inn í hann með því að fara um kjallarann í Ægissíðu 2. 
Liður í viðamiklu þróunarverkefni
 
„Það má eiginlega ekki seinna vera að hefja rannsókn á þessum hellum, notkun þeirra hefur minnkað til mikilla muna og sögur um þá og notagildi þeirra eru nú einungis þekktar meðal eldra fólks. Við höfum verið að ræða við eldri borgara hér á svæðinu og skrá niður munnmælasögur áður en þær falla í gleymsku,“ segir Árni. „Þessi rannsókn miðar svo að því að byggja upp ferðamannastað sem fyrr á árum var vinsæll en hefur fallið í gleymsku eftir að bændur hættu að sýna þá. Okkar rannsókn er hluti af viðamiklu þróunarverkefni með þátttöku landeigenda, fyrirtækisins Stracta Travel á Hellu, Minjastofnunar Íslands og fræðimanna við Háskóla Íslands. Ætlunin er að byggja upp áningarstað fyrir ferðamenn á Ægissíðu þar sem hægt verður að skoða hella, ganga um svæðið og njóta útsýnis,“ segir hann. 
 
Eykur aðdráttarafl svæðisins
 
Árni nefnir að Einar Benediktsson skáld hafi á sínum tíma, á árunum eftir þarsíðustu aldamót, haft mikinn áhuga fyrir hellunum, en hann var sýslumaður Rangárþings á árunum 1904 til 1907. Kannaði hann m.a. hellana á Ægissíðu. Einar var þeirrar skoðunar að Ísland hefði verið numið á undan norrænum mönnum og nefndi í því sambandi t.d. Fönikíumenn, Rómverja og Papa. Það sem rennur stoðum undir kenningar af því tagi segir Árni þá staðreynd að hellar hafi ekki verið notaðir sem mannabústaðir í Skandinavíu, en vel þekktir sem slíkir á Írlandi. „Kenningar af þessu tagi er erfitt að sanna, en þessir hellar eru engu að síður ákveðin vísbending. Það er ánægjulegt að áhugi fyrir þeim og varðveislu þeirra hefur aukist á ný, en það má rekja til aukins ferðamannastraums hingað til lands og leit okkar að ýmsu því sem merkilegt getur talist og kann að auka aðdráttarafl svæðisins,“ segir Árni.
 
Þau Árni og Álfrún eru með síðu á Facebook, Hellarnir á Ægissíðu, en þar má finna nánari upplýsingar um hellana.
 

Hvaðan kemur nafnið Ægissíða?

Hellarnir á Ægissíðu eru einna þekktustu manngerðu hellarnir á Íslandi og hafa löngum verið viðkomustaður fræðimanna, skólabarna og ferðamanna. Bæjarstæðið er fornt en bæjarnafnið er þó hvorki í Landnámu eða í fornsögum. Ægissíðu er fyrst getið í máldaga Oddakirkju frá 1270 en bærinn er þó að öllum líkindum mun eldri (Árni, Guðmundur og Hallgerður 1991, 148). 
 
Nafnið „Ægissíða“ hefur vafist fyrir mönnum en bærinn stendur 18 kílómetrum frá sjó og nafnið því líklegast ekki tilkomið frá norrænu goði Ægi eða ægi í merkingunni sjór (Árni, Guðmundur og Hallgerður 1991, 147). 
 
Landnámsbærinn Hrafntóftum standa fyrir neðan Ægissíðu, nær sjónum, og því ómögulegt að Ægissíða hafi staðið við sjó við landnám (Baldur Þórhallsson 2016). 
 
Áningarstaður eða reykt ærsíða?
 
Fjórar aðrar skýringar hafa verið gefnar fyrir nafngiftinni á bænum. Í fyrsta lagi sé nafnið tilkomið vegna tengingarinnar við sjóinn. Ekki vegna þess að bærinn stendur við sjóinn heldur hafi verið siglt frá sjónum upp Rangá og að Ægissíðufossi sem er örlitlu neðar í ánni en þar sem bærinn stendur. 
Í öðru lagi hefur því verið haldið fram að „Ægi“ sé komið af því að æja. Bærinn stendur við vaðið yfir Ytri-Rangá og því hafa margir ferðalangar í gegnum tíðan komið við á Ægissíðu á leið sinni um landið. 
Í þriðja lagi má finna ástæður nafngiftarinnar í Þjóðsögum Jóns Árnasonar. Þjóðsagan er á þá leið að í harðæri endur fyrir löngu hafi jörðin verið seld fyrir eina reykta ærsíðu. Eftir það hafi bærinn fengið nafnið Ærsíða sem með tíð og tíma breyttist í nafnið Ægissíða. 
 
Af keltneskum toga? 
 
Í fjórða lagi má nefna að til er sú skýring að nafnið sé af keltneskum toga. Í forn-írskum sögum er fjallað mikið um undirheimaguði eða hulduþjóð sem búa í hellum og fornsögulegum grafhýsum Írlands. 
 
Bústaðir hulduþjóðarinnar nefndust síde (et. síd). Hulduþjóðin eða guðaþjóðin var kennd við dvalarstað sinn og nefndist aes síde. Þessar hulduverur líktust álfum en keltar gerðu ekki skýran greinarmun á guðum, goðsagnahetjum, álfum og dísum. Írskar þjóðsögur segja því af ae síde, undirheimaþjóð eða hellisbúum. Hugsanlega gæti Ægissíða dregið nafn sitt af þessum írsku hellisbúum (Árni, Guðmundur og Hallgerður 1991, 147). 
 
Eða er það ef til vill bara tilviljun að bær sem þekktur hefur verið fyrir hella skuli bera nánast sama nafn og eldfornir keltneskir hellisbúar? Orðatengslin benda mögulega til þess að hellarnir á Ægissíðu séu eldri en bærinn sjálfur og að þeir hafi verið grafnir snemma á öldum. Bærinn hafi svo dregið nafn sitt af hellunum þegar hann var reistur. 

 

6 myndir:

Skylt efni: hellar | manngerðir hellar

Áfellisdómur um eftirlit MAST með dýravelferð
Fréttir 11. desember 2023

Áfellisdómur um eftirlit MAST með dýravelferð

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um stjórnsýsluúttekt á eftirliti Matvælastofnunar (MA...

Ungmenni berjast gegn stöðnun í dreifbýli
Fréttir 11. desember 2023

Ungmenni berjast gegn stöðnun í dreifbýli

Norrænt ráð 25 ungmenna frá öllum Norðurlöndum sat nýlega fund með norrænum ráðh...

Bæta má orkunýtingu í landbúnaði talsvert
Fréttir 8. desember 2023

Bæta má orkunýtingu í landbúnaði talsvert

Unnt er að spara allt að 1.500 GWst árlega á Íslandi og þar af um 43 GWst í land...

Opnunarhóf í Miðskógi
Fréttir 8. desember 2023

Opnunarhóf í Miðskógi

Byggingu nýs kjúklingahúss í Dölunum er lokið og verður tekið í notkun 1. desemb...

Skilgreina opinbera grunnþjónustu
Fréttir 8. desember 2023

Skilgreina opinbera grunnþjónustu

Unnin hafa verið drög að skilgreiningu á opinberri grunnþjónustu, ásamt greinarg...

Innleiða þarf vistkerfisnálgun
Fréttir 7. desember 2023

Innleiða þarf vistkerfisnálgun

Tímabært þykir að innleiða vistkerfisnálgun á Íslandi með skipulögðum hætti. Fræ...

Verðmætasköpun eykst og mikil sala
Fréttir 7. desember 2023

Verðmætasköpun eykst og mikil sala

Æðarræktarfélag Íslands (ÆÍ) hélt aðalfund að Keldnaholti 18. nóvember. Alls mæt...

Tilraun til að bjarga færeyska hrossakyninu
Fréttir 6. desember 2023

Tilraun til að bjarga færeyska hrossakyninu

Færeyska hestakynið er í útrýmingarhættu en í dag eru til 89 færeysk hross og af...