Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Kastalinn í Ósaka
Á faglegum nótum 1. júní 2016

Kastalinn í Ósaka

Höfundur: Vilmundur Hansen

Ósaka og nágrenni er annað fjölmennasta þéttbýli Japan með tæplega 20 milljón íbúum. Borgin er staðsett við Ósakaflóa og í borginni er að finna tilkomumikinn kastala sem var reistur í sinni upphaflegu mynd 1583.

Kastalinn og umhverfi hans hefur tekið miklum breytingum í aldanna rás. Byggt hefur verið við hann og garðinum breytt í almenningsgarð.

Kastalinn var upphaflega hernaðarmusteri og staðsettur á rúmlega eins ferkílómetra svæði á lítilli hæð, sem er að mestu manngerð. Hann stendur við Yodogawa-ána í Kyobashi-héraði og umhverfis hann er hlaðinn virkisveggur úr tilhöggnu graníti.

Ekkert var til sparað við byggingu kastalans sem stendur á háum stalli úr hlöðnu grjóti til að verjast árásum.

Handhöggnir grjóthnullungar

Virkisveggurinn umhverfis kastalann er stórkostleg sjón og ótrúlegt til þess að hugsa að vegurinn hafi verið hlaðinn með handafli.

Grjótið í hleðslunni er höggvið til með hamri og meitli og minnstu steinarnir hnullungar að stærð og þaðan af stærri. Veggurinn er um þrjátíu metra hár og tólf kílómetrar að lengd.

Grjótið í virkisveggnum var í mörgum tilfellum flutt langt að og þrátt fyrir stærð þess kemur talsvert af því frá eyjum í Ósakaflóa. Sé vel að gáð má finna merkingar steinsmiðanna sem hjuggu grjótið í hleðslurnar meitlað í hana hér og þar.

Þegar gengið er inn að kastalanum er farið um stórar dyr sem hægt er að loka með gegnheilli og járnstyrktri timburhurð sem er um fjörutíu sentímetra þykk.

Kastalinn er fimm hæðir séður utan frá en átta hæðir að innan þar sem þrjár fyrstu hæðirnar eru inni í grjóthleðslunni sem hann stendur á.

Stallurinn reistur af 60 þúsund manns á einu og hálfu ári

Sagt er að það hafi tekið 60.000 manns eitt og hálft ár að reisa stallinn sem kastalinn stendur á og hýsir þrjár neðstu hæðirnar.

Í dag er kastalinn safn þar sem eru til sýnis gamlir hermannabúningar sem oft eru ærið skrautlegir, málverk og bókrollur. Auk þess sem sögu kastalans eru gerð mjög góð skil.

Umhverfis kastalana er stór garður sem er annar stærsti almenningsgarðurinn í Ósaka og þar eru auk kastalans íþróttavöllur, opinn tónleikastaður og leikhús og fallega hannað svæði umhverfis litla tjörn.

Í garðinum eru um 600 kirsuberjatré og 1.250 japönsk apríkósutré sem flokka til 95 mismunandi yrkja auk fjölda haustrauðra lauftrjáa.

Sameiningartákn sem var brennt til grunna

Kastalinn er eitt af frægustu mannvirkjum í Japan og var sameiningartákn þjóðarinnar á seinnihluta sextándu aldar og í upphafi þeirrar sautjándu. Búið var í kastalanum frá 1583 til 1868 en þá féll hann í hendur andstæðinga keisaraveldisins og var nánast brenndur til grunna.

Veturinn 1614 var mikil orrusta við kastalann en íbúum hans tókst að verja hann þrátt fyrir að tvö hundruð þúsund manna herinn sem réðist að kastalanum væri þrisvar sinnum fjölmennari en verjendur hans. Þrátt fyrir að virkisveggir kastalans væru öflugir skemmdust þeir talsvert í orrustunni og voru styrktir enn frekar í kjölfar hennar.

Kastalinn féll nokkrum árum seinna eftir langt umsátur þar sem íbúar hans voru í orðsins fyllstu merkingu sveltir úr fylgsni sínu. Nýr stríðsherrann beið ekki boðanna. Hann endurbyggði og bætti við kastalabygginguna sem er að stórum hluta fyrirmynd kastalans sem stendur í dag.

Árið 1660 laust eldingu niður í púðurgeymslu kastalans sem sprakk með þeim afleiðingum að hann skemmdist talsvert. Fimm árum síðar laust eldingu aftur niður í kastalann en í þetta sinn í turn hennar sem brann til ösku í kjölfarið.

Að niðurlotum kominn

Um miðja nítjándu öldina var enn ein kastalabyggingin á staðnum nánast að hruni komin. Í þetta sinn vegna vanrækslu, og efnt var til almennra samskota meðal íbúa Ósaka til að endurreisa hana. Skömmu síðar, 1868, var kastalinn svo enn einu sinni brenndur til grunna.

Eftir það voru byggingarnar sem eftir stóðu og svæðið umhverfis þær teknar í þjónustu hersins og þar meðal annars framleidd stríðstól, byssur og sprengiefni. Frá 1870 til 1945 var þar hergagnageymsla japanska hersins en þeim var eytt við lok síðari heimsstyrjaldarinnar og öll hernaðarmannvirki fjarlægð úr garðinum.

Reistur í núverandi mynd í lok síðustu aldar

Í lok þriðja áratugs síðustu aldar hófst endurreisn kastalans á ný en hann skemmdist mikið í loftárásum Bandaríkjamanna á hernaðarmannvirkin umhverfis hann í seinni heimsstyrjöldinni.

Kastalinn í núverandi mynd var reistur á árunum 1995 til 1997. Ólíkt fyrri byggingum sem voru úr timbri er kastalinn nú gerður úr hvítri steinsteypu og bróderaður með gulli að hluta og með öllum nútímaþægindum. Til dæmis fara þeir sem heimsækja kastalann upp á efstu hæð með lyftu og ganga niður þegar þeir skoða hann að innan.

Frábært útsýni og sýning

Á efstu hæð kastalans er útsýnispallur í fimmtíu metra hæð með frábæru útsýni yfir borgina. Þaðan er gengið niður á sjöundu hæð sem hýsir sýningu á lífi íbúa kastalans og atburðum sem tengdust honum á þeim tíma sem hann var byggður.

Sjötta hæðin er lokuð almenningi en á fimmtu hæðinni er sýning sem helguð er orrustum sem tengjast kastalanum. Á fjórðu hæðinni er sýning á herklæðum og vopnum stríðsherranna sem ráðið hafa kastalanum í gegnum aldirnar. Þriðja hæðin er helguð módelum sem sýna kastalann á mismunandi tímaskeiðum og byggingarsögu hans. Þar er einnig lítil minjagripaverslun. Á annarri hæð má lesa sig til um sögu kastalans á veggspjöldum og skoða myndir. Inngangurinn með lyftu er á fyrstu hæðinni.
Bannað er að taka myndir inni í kastalanum og því banni er fylgt fast eftir.

Skammt frá Kyobashi-lestarstöðinni

Kastalinn er staðsettur rétt sunnan við Kyobashi-lestarstöðina og auðvelt að komast í hann frá henni. Lestarstöðin og svæðið umhverfis hana er nefnd eftir Kyobashi-brúnni sem liggur yfir ána Yodogawa sem áður var í þjóðleið frá Ósaka til Kyoto. 

Skylt efni: Japan | Osaka | ferðalög

Vilja flytja út færeysk hross
Fréttir 6. júní 2023

Vilja flytja út færeysk hross

Til þess að bjarga færeyska hrossastofninum frá aldauða hefur komið til skoðunar...

Árlegt rit Sögufélags Eyfirðinga komið út
Fréttir 5. júní 2023

Árlegt rit Sögufélags Eyfirðinga komið út

Sögufélag Eyfirðinga var stofnað árið 1971 með það fyrir augum að safna, skipule...

Framtíð jarðvangs hangir á bláþræði
Fréttir 5. júní 2023

Framtíð jarðvangs hangir á bláþræði

Sveitarfélögin á Suðurlandi geta ekki rekið Kötlu jarðvang án þátttöku ríkisins ...

Enginn tannlæknir á Hvolsvelli lengur
Fréttir 5. júní 2023

Enginn tannlæknir á Hvolsvelli lengur

Íbúar á Hvolsvelli og í sveitunum þar í kring eru nú án tannlæknis.

Innlit í kjúklingabú
Fréttir 2. júní 2023

Innlit í kjúklingabú

Kjúklingabændurnir Eydís Rós Eyglóardóttir og Ingvar Guðni Ingimundarson á Vatns...

Vaxandi áhugi bænda og smáframleiðenda
Fréttir 2. júní 2023

Vaxandi áhugi bænda og smáframleiðenda

Sauðfjárbóndinn Jónas Þórólfsson og kjötiðnaðarmeistarinn Rúnar Ingi Guðjónsson ...

Fuglavarnir til bjargar laxaseiðum
Fréttir 1. júní 2023

Fuglavarnir til bjargar laxaseiðum

Nýstárleg tilraun var gerð við ósa Haffjarðarár síðasta sumar, þegar fuglavarnar...

Fjölgun nema í kjötiðn
Fréttir 1. júní 2023

Fjölgun nema í kjötiðn

Rúnar Ingi Guðjónsson segist finna fyrir mjög miklum áhuga hjá ungu fólki að lær...