Þetta verður árleg ferð hjá okkur
Höfundur: Gunnar Bender
Sjóbirtingsveiðin er flott þessa dagana og veiðimenn eru að fá fína veiði. Fiskurinn er vænn og það virðist vera mikið af honum víða. Ómar Smári Óttarsson var að koma úr veiði við Kirkjubæjarklaustur. Gefum honum orðið.
„Við fórum nokkrir félagar í Tungulæk og gekk nú bara frekar vel, náðum að landa í kringum 50 fiskum og misstum eitthvað svipað. En maður þurfti nú heldur betur að vinna fyrir því samt. Við vorum að kasta á Breiðuna fullt af fiski, örugglega í kringum þúsund fiska, en þeir voru bara ekki í miklu tökustuði. Þeir voru þó að sýna sig mikið á svæðinu.
Þær flugur sem virkuðu á þá voru þurrflugur, „hitce“ og litlir „stremerar“ eins og „sunrey, black ghost“ og „Flæðarmúsin“. Þá vorum við að vinna með þunga „stremera“ og sökkutaum.
Það komu fjórir risar á land, stærsti 88 sentímetrar og 52 sm í ummál. Svo komu tveir 83 cm alveg nákvæmlega jafn stórir, en mjög ólíkir á litinn. Síðan kom einn silfraður og flottur í kringum 80 og eitthvað cm. Meðalstærðin var býsna góð, í kringum 60–70 cm og feitir og sterkir.
Eins og ég sagði, þá var þetta ekki gefin veiði. Við þurftum að vinna vel fyrir þessu og myndi ég segja að við hefðum verið grjótharðir, því það var hræðilegt veður. Engu að síður var þetta rosalega skemmtileg ferð og ætlum við að hafa þetta árlegt,“ sagði Ómar enn fremur.