Miklir veiðimöguleikar í Skjálfandafljóti
Höfundur: Gunnar Bender
Skjálfandafljót er mikið fljót og fagurt austan Akureyrar. Helsta kennileiti þess er Goðafoss. Veitt er á 6–7 laxastangir í fljótinu en silungasvæðin eru fjögur og staðsett nær sjónum.
Veiðin hefur verið með ágætum síðastliðin veiðitímabil og hefur verið áhugavert hve hreint fljótið hefur verið síðastliðin ár. Getgátur eru uppi um að Holuhraunsgosið hafi haft þau áhrif að ekki fari eins mikið af óhreinsuðu jökulvatni í fljótið. Skjálfandafljót litast þó og gerði síðustu daga í hitabylgjunni fyrir norðan.
Það eru áhugaverð silungasvæði á mjög hagstæðu verði í Skjálfandafljóti og á nokkrum stöðum er þar ágætis laxavon.
Nýr samningur er um fljótið en samið var við tvo aðila, annars vegar við félagsskap norðlenskra veiðimanna sem haft hafa fljótið á leigu lengst af og skipta með sér veiðidögum og hins vegar við Iceland Outfitters sem selur veiðileyfi á veidileyfi.com.
Þess ber að geta að það er ágætis veiðistaðalýsing í síðasta Sportveiðiblaði um Skjálfandafljót.