Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Bræðurnir Aðalsteinn og Garðar Hallgrímssynir í Garði í Eyjafjarðarsveit með Pétri Haraldssyni mjólkurbílstjóra. Hann var leystur út með gjöfum þegar hann kom að sækja mjólkina í síðasta sinn í liðinni viku.
Bræðurnir Aðalsteinn og Garðar Hallgrímssynir í Garði í Eyjafjarðarsveit með Pétri Haraldssyni mjólkurbílstjóra. Hann var leystur út með gjöfum þegar hann kom að sækja mjólkina í síðasta sinn í liðinni viku.
Mynd / MÞÞ
Fólk 20. október 2015

Hefur sótt um 300 milljón lítra af mjólk

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Bændur í Garði í Eyjafjarðarsveit, bræðurnir Aðalsteinn og Garðar Hallgrímssynir, buðu Pétri Haraldssyni mjólkurbílstjóra upp á kaffi og meðþví þegar hann kom að sækja mjólk á bæinn í liðinni viku. 
 
Það var síðasta ferð Péturs, sem lét af störfum um síðustu mánaðamót, en Garðsbændum taldist svo til að hann hefði á rúmlega 40 ára ferli sínum sem mjólkurbílstjóri komið yfir 4.000 sinnum í Garð. 
 
Skráir ferðirnar niður
 
Pétur hóf störf hjá Mjólkursamlagi KEA, sem þá var og hét, í maí árið 1975, þannig að starfsferillinn spannar ríflega 40 ár. Í fyrstu var hann í afleysingum og ók þá vítt um hérað en mörg undanfarin ár hefur hann tekið sama rúntinn um Eyjafjarðarsveit, auk þess að fara um Svalbarðsströnd og Höfðahverfi. Frá því hann tók við eigin bíl skráði hann niður sínar ferðir og hversu mikið magn sótt var. 
 
„Ég á hér heima einar 26 bækur þar sem ég hef skrifað ferðirnar niður, ég byrjaði ekki á þessu alveg strax og einhvern veginn hefur mér tekist að týna þremur bókum. En mér sýnist að ég hafi frá árinu 1987 sótt um 300 milljónir lítra af mjólk,“ segir Pétur. Hann hefur haft heppnina með sér á starfsferlinum, afar sjaldan lent í óhöppum.
 
„Ég velti einu sinni, bíllinn lagðist bara á hliðina í snjó. Það slapp allt vel til, ég meiddist ekki og bíllinn var óskemmdur,“ segir Pétur. 
 
Vegabætur skipta mestu
 
Þróun í mjólkurframleiðslu hefur undanfarna áratugi verið sú að framleiðendum hefur fækkað, en búin að sama skapi stækkað. Áður fyrr var því farið á fleiri bæi en nú hin síðari ár. „Það hafa orðið miklar breytingar í greininni, því er ekki að neita,“ segir hann.
 
„Fyrir okkur bílstjórana skipta þær miklu vegabætur sem orðið hafa miklu. Snjómokstur er einnig betri nú en var, betri tæki notuð og afkastameiri, þannig að sú staða kemur sárasjaldan upp að ófært sé um héraðið,“ segir Pétur, en mjólkurbílarnir eru líka góðir og öflugir. „Það hefur alltaf verið lögð áhersla á að hafa góða bíla.“
 
Pétur segist hafa kunnað vel við sig í starfi, „þetta er fjölbreytt og skemmtilegt starf, maður hittir marga. Ég er uppalinn í sveit og líður best í sveitinni, þannig að það segir sig sjálft að mér líður vel í þessu starfi.“
 
Leggur ekki árar í bát
 
Pétur á nokkra hesta og er með haustbeit fyrir þá í Eyjafjarðarsveit þannig að hann stefnir á að vera sem mest í sveitinni áfram þótt hann hafi hætt að aka um á mjólkurbíl. „Framtíðin er óskrifað blað hjá mér eins og öðrum, en ég er ekki á þeim buxunum að leggja árar í bát. Helst myndi ég vilja halda áfram að vinna og mun gera það ef einhver hefur not fyrir mig,“ segir hann. 

Skylt efni: Mjólkursamsalan

Skoða alla möguleika til að mæta mikilli eftirspurn eftir lóðum
Fréttir 20. janúar 2022

Skoða alla möguleika til að mæta mikilli eftirspurn eftir lóðum

„Við erum hvergi nærri hætt með okkar uppbyggingu, en stefnan er að íbúar í svei...

„Fyrir okkur öll“ er nýtt slagorð Rangárþings ytra
Fréttir 19. janúar 2022

„Fyrir okkur öll“ er nýtt slagorð Rangárþings ytra

Rangárþing ytra efndi nýlega til slagorðakeppnis um slagorð fyrir sveitarfélagið...

Mikilvægt skref í uppbyggingu Akureyrarflugvallar
Fréttir 19. janúar 2022

Mikilvægt skref í uppbyggingu Akureyrarflugvallar

Samningur um smíði á 1.100 fermetra viðbyggingu við Flug­stöðina á Akureyri var ...

Byggðasaga Skagafjarðar tók 26 ár í vinnslu og í verkið fóru um 50 starfsár
Fréttir 19. janúar 2022

Byggðasaga Skagafjarðar tók 26 ár í vinnslu og í verkið fóru um 50 starfsár

Hjalti Pálsson frá Hofi, ritstjóri og aðalhöfundur Byggðasögu Skagafjarðar, skil...

Vinna hefst við gerð reglna um raforkuöryggi
Fréttir 19. janúar 2022

Vinna hefst við gerð reglna um raforkuöryggi

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur skipað starfshóp um raforkuöryggi....

Ný reglugerð um velferð alifugla
Fréttir 19. janúar 2022

Ný reglugerð um velferð alifugla

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur undirritað reglugerð um velferð alifu...

Skútustaðahreppur kaupir Kálfaströnd á 140 milljónir
Fréttir 18. janúar 2022

Skútustaðahreppur kaupir Kálfaströnd á 140 milljónir

Gengið var frá kaupsamningi undir lok síðasta árs um jörðina Kálfaströnd (Kálfas...

Segist hafa fengið hótun um málefni sveitarfélagsins
Fréttir 18. janúar 2022

Segist hafa fengið hótun um málefni sveitarfélagsins

Það hefur vakið athygli að Halldóra Hjörleifsdóttir, oddviti Hrunamannahrepps, h...