Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Bræðurnir Kristján og Guðjón Hildibrandssynir, staðarhaldarar í Bjarnarhöfn í Helgafellssveit á Snæfellsnesi. Þar hefur verið hákarlasafn síðan 2001 og nú er búið að reisa þar við hliðina veglegan veitingastað.
Bræðurnir Kristján og Guðjón Hildibrandssynir, staðarhaldarar í Bjarnarhöfn í Helgafellssveit á Snæfellsnesi. Þar hefur verið hákarlasafn síðan 2001 og nú er búið að reisa þar við hliðina veglegan veitingastað.
Mynd / HKr.
Líf og starf 6. september 2019

Hákarlasafnið dregur að fjölda ferðamanna

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Bjarnarhöfn í Helgafellssveit á Snæfellsnesi hefur verið starfrækt hákarlasafn þar sem uppi er vegleg lifandi sýning um hákarlaveiðar og verkun auk fróðleiks um gamla búhætti og sjósókn. Stofnandi þessa safns var Hildibrandur Bjarnason, en hann lést haustið 2017 og hafa synir hans, Guðjón og Kristján, haldið rekstrinum gangandi síðan. 
 
Hákarlasafnið hefur verið í núverandi byggingu síðan 2001, en búið er að bæta við aðstöðuna og byggja veglegan veitingaskála þar við hliðina. Kristján Hildibrandsson segir að matsalurinn sé opinn alla daga yfir sumartímann og þess utan sé hægt að panta fyrir hópa ferðafólks. Í ár var sumaropnunin á veitingastaðnum hafin um páskana og segir Kristján að mest hafi þá verið um útlendinga. Annars spili veðrið stóra rullu í hvernig samsetningin er í hópi þeirra sem sækja safnið heim og góða veðrið í sumar hafi dregið að Íslendinga. 
 
Auk þeirra bræðra hafa verið um fjórir til fimm starfsmenn á safninu og á veitingastaðnum í sumar. Að meðaltali eru þar fimm stöðugildi yfir allt árið. Er staðurinn því farinn að skipta töluverðu máli sem vinnuveitandi í sveitarfélaginu Helgafellssveit og er þar stærsti atvinnurekandinn. Hafa bræðurnir tileinkað sér vel þá þekkingu sem faðir þeirra hafði á hákarlaveiðum og vinnslu. Miðla þeir þeirri þekkingu og sögum Hildibrands af mikilli innlifun til útlendinga og annarra gesta sem þykir alltaf jafn mikið til koma. 
 
Fólk eltir góða veðrið
 
„Sumarið í fyrra var alveg hræðilegt, stöðug rigning og leiðinleg tíð. Þá sóttu allir Íslendingarnir í sólina austur á land. Við sáum varla Íslending meðal gestanna hjá okkur í fyrra, en nú hefur þetta gjörbreyst. Í sumar höfum við notið góða veðursins og þeir Íslendingar sem hafa verið að bíða með að ferðast á þessar slóðir hingað til hafa verið að koma til okkar,“ sagði Kristján þegar blaðamaður Bændablaðsins staldraði við á safninu í lok júlí. Þá var þar fjöldi gesta og verulegur hluti þeirra voru Íslendingar. Sömu sögu var að segja af tjaldstæðum eins og á Grundarfirði, sem var fullt af ferðamönnum, aðallega íslenskum. 
 
Guðjón segir að þarna gildi greinilega að Íslendingarnir fari þangað sem veðrið er best, annað en útlendingar, sem séu ekki eins kunnugir og glöggir að fylgjast með veðurspám og hafi síður verið í þeim sporum til þessa. „Ég er þó farinn að halda að útlendingarnir séu búnir að læra þetta líka.“
 
Segir Guðjón að veðrið hafi vissulega leikið við þá í sumar, en fyrir safn gildi þó oft önnur lögmál. 
„Ef það er bongóblíða úti, þá hefur fólk engan áhuga á að koma inn í safn. Það vill miklu heldur vera í göngutúrum úti í náttúrunni eða eitthvað því um líkt. Um leið og það kólnar og sérstaklega ef það kemur rigning, þá flykkist fólk hingað í leit að stað til að komast í skjól.“
 
– Hvað með sveitungana og íbúa í þorpum og bæjum hér í grenndinni, eru þeir að koma til ykkar í heimsókn?
 
„Jú, þeir koma af og til. Það er þó bara þannig með okkur Íslendinga að við látum bíða að heimsækja þá staði sem eru í okkar næsta nágrenni. Við hugsum sem svo að þeir séu ekki að fara neitt. Við ætlum svo að heimsækja þá seinna en gerum það kannski aldrei. Maður er ekki laus við að hugsa svona sjálfur. 
Það er skemmtilegt varðandi erlenda ferðamenn sem eru að ferðast um langan veg og meðvitað í þeim tilgangi að koma hingað, að þeir vilja skoða allt mjög vel og fá ítarlegar upplýsingar. Enda vita þeir að þeir eru ekkert að fara að koma hingað aftur,“ segir Kristján.
 
Nýi veitingasalurinn gerir þeim bræðrum kleift að bjóða ferðafólki upp á veitingar og taka á móti hópum sem ferðast með rútum. Er staðurinn opinn alla daga yfir sumartímann, en er opnaður samkvæmt pöntun aðra mánuði ársins. 
 
Hákarlssmökkun vekur alltaf athygli
 
Guðjón var önnum kafinn við að sinna gestum  í veitingasal þegar blaðamann bar að garði. Hann var samt fús til að gefa sér smá tíma í spjall um reksturinn. 
 
Bræðurnir í Bjarnarhöfn virðast nokkuð ánægðir með stöðuna því til þeirra streymir fólk í heimsókn og fer frá þeim yfir sig ánægt með upplifunina og þjónustuna. 
 
„Við bjóðum að sjálfsögðu líka upp á hákarl sem við framleiðum hér á staðnum. Það er alltaf gaman að sjá hvernig fólk bregst við. Þetta þekkjum við allt saman mjög vel og getum um leið miðlað af okkar reynslu, enda aldir upp við þetta allt okkar líf. Salan á hákarli hefur líka gengið vel og neysla á hákarli er ekki lengur eingöngu bundin við þorrablót. Þá er það líka nánast liðin tíð að við séum að senda sérpantanir hingað og þangað, heldur reiðum við okkur að mestu á tvo til þrjá dreifingaraðila.“
 
 
Hildibrandur þótti nett ruglaður þegar hann byrjaði að byggja safnið
 
„Starfsemin hér hefur spunnist út frá því sem faðir okkar var að gera og eitt hefur þar leitt af öðru. Samt talaði fólk um það þegar hann byrjaði að hrinda þessari hugmynd í framkvæmd hvað þetta væri eiginlega glórulaust. Þegar hann byrjaði á að reisa húsið yfir safnið árið 2000 var ferðaþjónusta varla orðin til á Snæfellsnesi. Var hann því spurður hvaðan í ósköpunum hann ætlaði að fá fólk til að koma á safnið. Hann byggði hér líka veglega klósettaðstöðu fyrir marga í einu sem þótti hreinasta bilun á þessum stað. Í þessu var hann því langt á undan sinni samtíð. Raunar var hann þá löngu áður farinn að fá fólk til að koma á staðinn og smakka hákarl. 
 
Við erum vissulega svolítið afskekkt hér í Bjarnarhöfn og úti á enda á þessum slóða í vegakerfinu. Hins vegar erum við orðin vön því að hér gerist ekkert nema menn taki til hendinni sjálfir. - Það skemmtilega við dæmið sem pabbi byrjaði á er síðan að allt hefur þetta gengið upp og andi pabba svífur hér enn yfir vötnum,“ segir Guðjón.   

10 myndir:

Skógarfura í Varmahlíð föngulegust
Fréttir 4. október 2024

Skógarfura í Varmahlíð föngulegust

Skógræktarfélag Íslands hefur valið skógarfuru í Varmahlíð tré ársins 2024.

Þrír forstjórar skipaðir fyrir nýjar ríkisstofnanir
Fréttir 4. október 2024

Þrír forstjórar skipaðir fyrir nýjar ríkisstofnanir

Nýlega voru skipaði þrír forstjórar fyrir nýjar ríkisstofnanir sem urðu til með ...

Eftirlíking af hálfri kú
Fréttir 4. október 2024

Eftirlíking af hálfri kú

Nautastöð Bændasamtaka Íslands tók á dögunum í notkun eftirlíkingu af kú sem er ...

Gagnrýna nýjar reglur um hollustuhætti
Fréttir 3. október 2024

Gagnrýna nýjar reglur um hollustuhætti

Heilbrigðisnefndir kringum landið hafa gagnrýnt skort á kynningu á nýrri regluge...

Aðgerðaáætlun gefin út
Fréttir 3. október 2024

Aðgerðaáætlun gefin út

Matvælaráðherra, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, hefur gefið út aðgerðaáætlun fyrir...

Grasrótin gaumgæfir atvinnulíf og nýsköpun
Fréttir 3. október 2024

Grasrótin gaumgæfir atvinnulíf og nýsköpun

Verkefnið Vatnaskil á Austurlandi miðar að því að efla nýsköpun og stuðla að fjö...

Áburðarverkefni í uppnámi
Fréttir 3. október 2024

Áburðarverkefni í uppnámi

Áburðarverkefni í Syðra-Holti í Svarfaðardal, sem gengur út á moltugerð úr nærsa...

Aukinn innflutningur á lægri tollum
Fréttir 2. október 2024

Aukinn innflutningur á lægri tollum

Ekki er hægt að fá uppgefna þá aðila sem standa að baki innflutningi á landbúnað...