Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Vala frá Garðshorni á Þelamörk. Knapi er Agnar Þór Magnússon, sem einnig er ræktandi hennar ásamt Birnu Tryggvadóttur Thorlacius.
Vala frá Garðshorni á Þelamörk. Knapi er Agnar Þór Magnússon, sem einnig er ræktandi hennar ásamt Birnu Tryggvadóttur Thorlacius.
Mynd / Óðinn Örn Jóhannsson, Eiðfaxi.
Fréttir 12. desember 2022

Hæst dæmdu hross ársins

Höfundur: Elsa Albertsdóttir og Halla Eygló Sveinsdóttir

Sýningar voru haldnar á 6 stöðum um allt land, 11 vorsýningar, 1 miðsumarssýning og 3 síðsumarssýningar.

Á þessum sýningum voru felldir 1.300 dómar, fullnaðardómar voru 961, sköpulagsdómar 173 og hæfileikadómar 164. Hápunktur sýningarhaldsins var síðan LM2022 en þar áttu 176 hross þátttökurétt.

Efstu þrjár hryssur í hverjum flokki

Alls komu 610 hryssur til fullnaðardóms á árinu en dómar voru vissulega mun fleiri enda þó nokkuð um endursýningar.

Sýndar voru 59 fjögurra vetra hryssur en það er um 7% sýndra hrossa.

Þriðju hæstu aðaleinkunn ársins í flokki 4 vetra hryssna hlaut Herdís frá Rauðalæk, 8,33. Ræktandi Herdísar er Pabbastrákur ehf. en eigandi er Takthestar ehf. Herdís er dóttir Arions frá Eystra-Fróðholti og Logadísar frá Syðra-Garðshorni. Herdís hlaut 8,43 fyrir sköpulag, hún er framfalleg og fótahá með 8,5 í einkunn fyrir háls, herðar og bóga, bak og lend, samræmi og fótagerð. Hún er fjölhæf á gangi og hlaut m.a. 9,0 fyrir samstarfsvilja enda viljug og þjál.

Næsthæstu aðaleinkunn ársins hlaut Þrá frá Lækjamóti, en hún hlaut 8,33 eins og Herdís en á milli skilja nokkrir aukastafir. Ræktendur og eigendur eru Elín Rannveig Líndal og Þórir Ísólfsson. Þrá er undan Þráni frá Flagbjarnarholti og Rán frá Lækjamóti. Þrá hlaut 8,48 fyrir sköpulag enda fríð og stæðileg hryssa m.a. með 9,0 fyrir samræmi. Þrá er fjölhæf alhliðahryssa sem hlaut 8,5 fyrir tölt, hægt stökk, fet og samstarfsvilja. Þrá varð í öðru sæti á LM2022.

Hæstu aðaleinkunn ársins, 8,39 hlaut Vala frá Garðshorni á Þelamörk. Ræktendur hennar eru Agnar Þór Magnússon og Birna Tryggvadóttir Thorlacius, eigendur eru Sporthestar ehf. og Svarthöfði- Hrossarækt ehf. Vala er undan Þráni frá Flagbjarnarholti og heiðursverðlauna hryssunni Eldingu frá Lambanesi. Gaman er að geta þess að systir Völu, Afródíta stóð einmitt efst í flokki fjögurra vetra hryssna í fyrra. Vala er fríð og glæsileg hryssa með 9,0 fyrir höfuð og samræmi. Vala er snillingur á skeiði en hún hlaut 9,5 fyrir skeið sem er magnað af 4 vetra hrossi. Hún stóð efst í sínum flokki á LM2022.

Hryssur 5 vetra

Í fimm vetra flokki hryssna voru sýndar 159 hryssur og voru þær því 17% sýndra hrossa.

Díva frá Kvíarhóli hlaut þriðju hæstu aðaleinkunn ársins í þessum flokki, 8,46. Ræktandi hennar er Ingólfur Jónsson en eigendur eru Egger-Meier Anja og Kronshof GbR. Díva er undan Skýr frá Skálakoti og Birtu frá Mið-Fossum. Díva er glæsileg hryssa á velli með 8,51 fyrir sköpulag en hún er með 8,5 fyrir flesta sköpulagsþætti og 9,5 fyrir prúðleika. Fyrir hæfileika hlaut hún 8,42, en þar er hún með 9,0 fyrir tölt, brokk, hægt stökk, samstarfsvilja og fegurð í reið.

Önnur í þessum flokki var Rakel frá Hólaborg, en hún hlaut 8,51 í aðaleinkunn. Ræktandi og eigandi hennar er Kristina Forsberg. Rakel er undan Hreyfli frá Vorsabæ II og heiðursverðlauna hryssunni Rán frá Þorkelshóli 2. Rakel er stórglæsileg hryssa á velli enda með 8,70 fyrir sköpulag, þar ber hæst 9,5 fyrir fótagerð og 9,0 fyrir háls, herðar og bóga og samræmi. Rakel er skrefmikil og rúmur alhliðagæðingur með 8,5 fyrir tölt, brokk, skeið, samstarfsvilja og fegurð í reið. Rakel var í öðru sæti á LM2022.

Hæstu aðaleinkunn ársins í þessum flokki hlaut Hildur frá Fákshólum, 8,58. Ræktandi hennar er Jakob Svavar Sigurðsson en eigandi er Gut Birkholz GbR. Hildur er undan Ölni frá Akranesi og Gnýpu frá Leirulæk. Hildur er ákaflega fríð og stórglæsileg alhliðahryssa enda hlaut hún 8,67 fyrir sköpulag og 8,53 fyrir hæfileika. Í sköpulagi fékk hún fjórar níur, fyrir höfuð, háls, herðar og bóga, bak og lend og samræmi. Í hæfileikum ber hæst 9,0 fyrir skeið og samstarfsvilja, 8,5 fyrir tölt, brokk og fegurð í reið. Hildur stóð efst í sínum flokki á LM 2022.

Hildur frá Fákshólum hlaut hæstu einkunn 5 vetra hryssa.

Hryssur 6 vetra

Alls voru sýndar 194 hryssur í flokki 6 vetra en það mun vera um 22% sýndra hrossa.

Þriðju hæstu aðaleinkunn ársins í þessum flokki fékk Dögun frá Austurási, en hún hlaut í aðaleinkunn 8,64. Ræktendur hennar eru Haukur Baldvinsson og Ragnhildur Loftsdóttir en eigandi hennar er Austurás hestar ehf. Dögun er undan Hákoni frá Ragnheiðarstöðum og Ör frá Strönd II. Dögun hlaut fyrir sköpulag 8,61 í einkunn enda fönguleg hryssa með 9,0 fyrir háls, herðar og bóga og samræmi. Fyrir hæfileika fékk hún í aðaleinkunn 8,65, þar ber hæst 9,0 fyrir tölt, samstarfsvilja og fet.

Næsthæstu aðaleinkunn ársins 8,76 fékk Salka frá Efri- Brú. Ræktandi hennar er Óli Fjalar Böðvarsson en eigandi er Stapabyggð ehf. Salka er undan Vökul frá Efri-Brú og Vöku frá Efri- Brú. Salka er glæsileg alhliðahryssa með 8,69 fyrir sköpulag og 8,79 fyrir hæfileika. Hæst ber 9,5 fyrir samstarfsvilja en hún hlaut einnig 9,0 fyrir háls, herðar og bóga, samræmi, skeið, hægt stökk og fegurð í reið.

Hæstu aðaleinkunn ársins í þessum flokki, 8,77 hlaut Díva frá Austurási. Ræktendur hennar eru Haukur Baldvinsson og Ragnhildur Loftsdóttir en eigandi er Austurás hestar ehf. Díva er undan Konsert frá Hofi og Prinsessu frá Litla- Dunhaga I. Díva er stórglæsileg alhliðahryssa með 8,75 fyrir sköpulag og 8,78 fyrir hæfileika. Þar ber hæst 9,5 fyrir háls, herðar og bóga, fótagerð og fegurð í reið en hún hlaut einnig 9,0 fyrir samræmi, tölt, brokk og samstarfsvilja. Díva var í þriðja sæti í sínum flokki á LM2022.

Hildur frá Fákshólum hlaut hæstu einkunn 5 vetra hryssa.
Hryssur 7 vetra og eldri

Í flokki 7 vetra og eldri hryssna voru sýndar 200 hryssur eða um 22% sýndra hrossa.

Lýdía frá Eystri-Hól hlaut þriðju hæstu einkunn ársins í þessum flokki eða 8,67. Ræktandi hennar er Hestar ehf en eigendur eru eru Egger-Meier Anja og Kronshof GbR. Lýdía er undan Lexus frá Vatnsleysu og Oktavíu frá Feti. Lýdía er mikið fegurðardjásn, ákaflega framhá og léttbyggð. Hún hlaut fyrir sköpulag 8,81, ber þar hæst 9,5 fyrir háls, herðar og bóga og samræmi. Fyrir hæfileika fékk hún 8,59, er þó skeiðlaus, þar ber hæst 10 fyrir samstarfsvilja og 9,5 fyrir tölt, brokk og fegurð í reið, mögnuð hryssa, enda hafnaði hún í öðru sæti á LM2022.

Næsthæstu aðaleinkunn ársins hlaut Þyrnirós frá Rauðalæk en hún hlaut 8,67 eins og Lýdía en á milli skilja nokkrir aukastafir. Ræktandi hennar er Pabbastrákur ehf en eigandi er Takthestar ehf. Þyrnirós er undan Sjóði frá Kirkjubæ og Logadís frá Syðra- Garðshorni. Logadís á því tvær hryssur sem komast hér á blað með efstu hryssum ársins en Herdís frá Rauðalæk er einnig undan henni. Þyrnirós er glæsileg alhliðahryssa með 8,76 fyrir sköpulag og 8,62 fyrir hæfileika. Þar ber hæst 9,0 fyrir háls, herðar og bóga, bak og lend, samræmi og prúðleika. Fyrir hæfileika hlaut hún 9,0 fyrir skeið, samstarfsvilja og fegurð í reið. Þyrnirós varð í fjórða sæti í sínum flokki á LM2022.

Hæstu aðaleinkunn ársins í þessum flokki, 8,87 hlaut Álfamær frá Prestsbæ. Ræktendur hennar eru Inga og Ingar Jensen en eigendur eru Eggert-Meier Anja og Árni Björn Pálsson. Álfamær er undan Spuna frá Vesturkoti og heiðursverðlauna hryssunni Þóru frá Prestsbæ. Álfamær er vel gerð hryssa með 8,59 fyrir sköpulag en hún er með 9,0 og 8,5 fyrir flesta þætti sköpulags. Hún hlaut 9,02 fyrir hæfileika enda skrefmikil, skrokkmjúk og flugviljugur alhliðagæðingur. Fyrir skeið hlaut hún 10,0 enda snillingur á skeiði. Álfamær stóð efst í sínum flokki á LM2022.

Álfamær frá Prestsbæ, knapi Árni Björn Pálsson.

Efstu þrír stóðhestar í hverjum aldursflokki

Alls komu 289 stóðhestar til dóms á árinu. Í flokki fjögurra vetra stóðhesta voru sýndir 61 hestur eða um 7% sýndra hrossa.

Þriðju hæstu einkunn ársins hlaut Agnar frá Margrétarhofi. Ræktandi hans og eigandi er Margrétarhof. Agnar er undan Ölni frá Akranesi og Garúnu frá Garðshorni á Þelamörk sem var undan Dofra frá Steinnesi. Á vorsýningu á Hólum fór Agnar í 8,37 í aðaleinkunn, hann fékk 8,46 fyrir sköpulag og 8,32 fyrir hæfileika. Hæst ber 9,0 fyrir tölt, honum er einatt lýst sem skrefmiklum og lyftingargóðum.

Næsthæstur fjögurra vetra stóðhesta var Ambassador frá Bræðraá sem er undan Skaganum frá Skipaskaga og Hugadótturinni Tign frá Úlfsstöðum. Ræktandi hans og eigandi er Pétur Vopni Sigurðsson. Ambassador er alhliðagengur skrefmikill hestur og hlaut hann m.a. 9,0 fyrir tölt og samstarfsvilja.

Með hæstu aðaleinkunn eða 8,42 var Valíant frá Garðshorni á Þelamörk undan Adrían frá sama bæ og Kolfinnsdótturinni Mánadís frá Hríshóli 1. Ræktendur hans er Agnar Þór Magnússon og Birna Tryggvadóttir Thorlacius en eigendur eru K.Ó. Kristjánsson og Daníel Jónsson. Valíant er framfallegur og léttbyggður með 8,61 í sköpulagi þar af 9,0 fyrir háls, herðar og bóga og samræmi. Valíant var í efsta sæti í sínum flokki á Landsmótinu.

Valíant frá Garðshorni á Þelamörk, knapi Agnar Þór.

Stóðhestar 5 vetra

Í flokki fimm vetra stóðhesta komu 89 hestar í fullnaðardóm eða 10% sýndra hrossa.

Þriðju hæstu einkunn ársins í þessum flokki hlaut Drangur frá Steinnesi, undan Draupni frá Stuðlum og Ólgu frá Steinnesi, með 8,44 í aðaleinkunn. Ræktandi hans og eigandi er Magnús Jósefsson. Drangur er skrefmikill og hágengur myndargripur, með 8,73 fyrir sköpulag. Hann er með 9,0 fyrir samræmi, fótagerð og hófa. Fyrir hæfileika hlaut hann 8,28, með 8,5 fyrir flesta þætti kosta.

Næsthæstu einkunn ársins hlaut Geisli frá Árbæ undan Ölni frá Akranesi og Gleði frá Árbæ sem er undan Vökli frá Árbæ. Hann er ræktaður af Vigdísi Þórarinsdóttur og Gunnari Andrési Jóhannssyni og í eigu G. Jóhannsson ehf. Í aðaleinkunn á Landsmótinu hlaut Geisli 8,46 þar sem hann var í öðru sæti í flokki fimm vetra stóðhesta. Geisli er stór og afar framfallegur, léttbyggður og jafnvægisgóður hestur. Bak og lend er einstaklega gott en fyrir það hlaut hann 9,5, fyrir háls, herðar og bóga og samræmi hlaut hann 9,0. Geisli er skrefmikill hestur og fyrir flesta þætti kosta hlaut hann 8,5.

Hæstu einkunn í sínum flokki líkt og í fyrra hlaut Fróði frá Flugumýri, nú með aðaleinkunn upp á 8,58. Þá hlaut hann verðlaun fyrir hæstu aldursleiðréttu aðaleinkunn án skeiðs á þessu ári á nýafstaðinni ráðstefnu Fagráðs í hrossarækt. Fróði er undan Hring frá Gunnarsstöðum I og Fýsn frá Feti. Ræktendur eru Eyrún Ýr Pálsdóttir og Teitur Árnason en eigandi er Eyrún Ýr Pálsdóttir. Fróði stóð efstur á Landsmótinu í flokki 5 vetra stóðhesta. Fróði er mjög vel gerður hestur með 8,64 í sköpulag, þar ber helst að nefna úrvalsgóðan háls, herðar og bóga með 9,5 í einkunn, hann er með 9,0 fyrir samræmi enda fram- og fótahár. Fróði er úrvals klárhestur með 8,54 fyrir hæfileika, enda hágengur, skrefmikill og samstarfsfús. Hann hlaut 9,5 fyrir tölt og fegurð í reið og 9,0 fyrir brokk, greitt og hægt stökk, samstarfsvilja og hægt tölt.

Stóðhestar 6 vetra

Í flokki 6 vetra stóðhesta voru sýndir 62 hestar til fullnaðardóms eða um 7% sýndra hrossa.

Þriðju hæstu einkunn ársins hlaut eðaltöltarinn Sólfaxi frá Herríðarhóli en hann er einn þriggja hrossa sem hlotið hafa tíu fyrir bæði tölt og hægt tölt. Sólfaxi var sýndur á Vorsýningu á Gaddstaðaflötum og fékk þar 8,51 í aðaleinkunn. Hann er undan Óskasteini frá Íbishóli og Hyllingu frá Herríðarhóli sem er undan Herkúles frá sama bæ. Ræktandi Sólfaxa er Ólafur Arnar Jónsson en eigendur eru Anja Egger-Meier, Grunur ehf og Kronshof GbR. Fyrir sköpulag hlaut Sólfaxi 8,69, þar af 9,0 fyrir háls, herðar og bóga, bak og lend og samræmi. Þessi gæði koma vel fram í reið þar sem jafnvægi og frambygging njóta sín afar vel. Fyrir hæfileika hlaut hann 8,41 en auk tíanna sinna fyrir tölt fékk hann 9,5 fyrir fegurð í reið sem og samstarfsvilja. Sólfaxi var í öðru sæti á Landsmótinu í flokki 6 vetra stóðhesta.

Með aðra hæstu einkunn stóðhesta í 6 vetra flokki var Sindri frá Lækjamóti ræktaður af og í eigu Guðmars Hólm Ísólfssonar Líndal. Faðir Sindra er Skýr frá Skálakoti og móðir er Hágangsdóttirin Rödd frá Lækjamóti. Sindri fór hæst í 8,52 á vorsýningu á Hólum í Hjaltadal. Sindri er afar vel gerður hestur með 8,82 fyrir sköpulag þar sem hann státar af 10 fyrir prúðleika og úrvals bak og lend og fótagerð með 9,5 í einkunn fyrir þá þætti, auk 9,0 fyrir hófa. Sindri er jafnvígur skrefgóður alhliðahestur með góð gangskil og er með 8,5 fyrir flesta þætti hæfileika. Sindri var í fjórða sæti í sínum flokki á Landsmótinu.

Með hæstu einkunn í flokki sex vetra stóðhesta á árinu er Magni frá Stuðlum með 8,56 í aðaleinkunn. Ræktendur hans eru Edda Björk Ólafsdóttir og Páll Stefánsson en eigendur eru Páll Stefánsson, Hrafnkell Áki Pálsson og Ólafur Tryggvi Pálsson. Magni er undan Konsert frá Hofi og Stöku frá Stuðlum. Magni er glæsilegur hestur með 8,72 fyrir sköpulag, hæst hlaut hann 9,0 fyrir samræmi, fótagerð, hófa og prúðleika. Fyrir hæfileika hlaut Magni 8,47 þar af 9,5 fyrir úrvalsskeið og 9,0 fyrir þjálan og góðan samstarfsvilja.

Magni frá Suðlum, knapi Haukur Baldvinsson

Stóðhestar 7 vetra og eldri

Í elsta flokki stóðhesta voru sýndir 77 hestar eða um 9% sýndra hrossa.

Þriðju hæstu einkunn ársins hlaut Seðill frá Árbæ undan Sleipnisbikarhafanum á Landsmóti 2022, Sjóði frá Kirkjubæ og Aronsdótturinni Verónu frá Árbæ. Ræktandi hans og eigandi er Maríanna Gunnarsdóttir. Seðill hlaut hæst 8,75 í aðaleinkunn á vorsýningu á Sörlastöðum en á landsmótinu hafnaði hann í fimmta sæti. Seðill er afskaplega vel gerður hestur með úrvals frambyggingu, bak og lend, og fótahátt og jafnvægisgott samræmi. Hann hlaut 8,79 fyrir sköpulag þar sem hæst ber 9,0 fyrir framantalda þætti auk hófa. Seðill er afbragðsalhliðahestur með takthreinar, skrefgóðar vel aðskildar gangtegundir. Hann hlaut 8,72 fyrir hæfileika, 9,0 fyrir brokk, skeið, samstarfsvilja og fegurð í reið.

Með næsthæstu aðaleinkunn ársins er hinn magnaði léttleikahestur með sitt frábæra jafnvægi í geði og gangi, Sindri frá Hjarðartúni. Hann stóð efstur á Landsmótinu í sínum flokki með 8,99 í aðaleinkunn og hæstu hæfileikaeinkunn sem gefin hefur verið eða 9,38. Sindri er undan Stála frá Kjarri og Aronsdótturinni Dögun frá Hjarðartúni. Ræktandi er Óskar Eyjólfsson en eigendur Einhyrningur ehf, Bjarni Elvar Pétursson og Kristín Heimisdóttir. Sindri er ágætlega gerður hestur með 8,28 fyrir sköpulag. Sindri hlaut tíu fyrir brokk, skeið og samstarfsvilja, 9,5 fyrir tölt og fegurð í reið og 9,0 fyrir hægt tölt. Miðað við frammistöðu á vellinum og uppgefnar einkunnir má segja að Sindri falli afskaplega vel að þeim eiginleikum sem tilgreindir eru í ræktunarmarkmiði íslenska hestsins.

Hæstu aðaleinkunn ársins í elsta flokki stóðhesta, 9,04 hlaut Viðar frá Skör. Það er jafnframt hæsta aðaleinkunn sem hross hefur nokkru sinni hlotið. Viðar er undan Hrannari frá Flugumýri II og Vár frá Auðsholtshjáleigu sem var undan Spuna frá Miðsitju. Karl Áki Sigurðsson er ræktandi Viðars en eigendur hans eru Flemming og Gitte Fast Lambertsen. Viðar er einstaklega vel gerður hestur með 8,89 fyrir sköpulag. Fyrir bak og lend og samræmi hlaut hann úrvalseinkunnina 9,5 sem einkennist af afar góðu jafnvægi og fótahæð. Réttleiki er einnig úrval upp á 9,0 en fyrir aðra þætti sköpulags hlaut Viðar 8,5. Ekki eru hæfileikarnir síðri en fyrir þá hlaut Viðar 9,12 þar sem hæst ber 9,5 fyrir brokk og fet og 9,0 fyrir tölt, skeið og fegurð í reið. Ganghæfni Viðars er afbragð og einkennist af takthreinum gagntegundum með háum fótaburði og skrefmikilli og jafnvægisgóðri framgöngu með hvelfda yfirlínu.

Viðar frá Skör, knapi Helga Una Björnsdóttir

Að lokum er rétt að þakka öllu starfsfólki sýninganna fyrir vel unnin störf. Hópurinn sem að þessu kemur er vel þjálfaður og samhentur. Einnig ber að þakka fyrir gott samstarf við staðarhaldara á hverjum stað en það er ómetanlegt hvað þeir hafa sýnt mikinn áhuga og metnað til að hafa alla aðstöðu sem besta. Sömuleiðis ber að þakka sýnendum, ræktendum og eigendum fyrir gott samstarf.

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...

Jarðræktarmiðstöðin rís
Fréttir 22. apríl 2024

Jarðræktarmiðstöðin rís

Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands mun verða tilbúin árið 2027 gangi á...