Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Góðar afurðir sauðfjár á árinu 2018
Mynd / BBL
Fræðsluhornið 26. febrúar 2019

Góðar afurðir sauðfjár á árinu 2018

Höfundur: Eyjólfur Ingvi Bjarnason, sauðfjárræktarráðunautur hjá RML
Uppgjöri á skýrslum fjárræktar­félaganna fyrir árið 2018 er að mestu lokið. Þegar þetta er ritað í byrjun febrúar er þó enn eftir að ganga frá uppgjöri fyrir um 3100 ær sem hafa skráða burðarfærslu vorið 2018. 
 
Reiknaðar afurðir eru 0,1 kg meiri á hverja kind en árið 2017. Afurðir eru meiri um norðan- og austanvert landið en árið á undan en minni á suður- og vesturhluta landsins. Líklega hefur tíðarfar í maímánuði haft talsvert að segja um afurðir sunnan- og vestanlands en sá mánuður var bæði kaldur og votviðrasamur á þeim slóðum.
 
Alls skiluðu 1.742 aðilar skýrslum um 346.621 á (359.966 árið 2017). Veturgamlar ær í skýrsluhaldinu voru 68.980 (73.380 árið 2017). Fækkun kinda í skýrsluhaldi milli ára er því nærri 18.000 ær sem er meiri fækkun en nemur gögnum úr forðagæsluskýrslum og skýrist af því að fækkun gripa hefur frekar átt sér stað hjá búum sem eru í afurðaskýrsluhaldi en búum sem kjósa að standa utan þess. Til viðbótar þessum tölum eru svo tæplega 1.500 forystuær skráðar í Fjárvís en þær eru undanskildar formlegu afurðauppgjöri. 
 
 
Afurðir árið 2018
 
Frjósemi var svipuð og undangengin ár, 1,84 fædd lömb á hverja kind. Þetta er lítilsháttar aukning sem liggur í auknu hlutfalli fleirlembna en 8,6% áa áttu fleiri en 3 fædd lömb síðasta vor. Flest fædd lömb eru í Vestur-Húnavatnssýslu og Suður-Þingeyjarsýslu eða 1,91 fædd lömb að meðaltali en hæst hlutfall fleirlembdra kinda er í Vestur-Húnavatnssýslu (12,4%). Sífellt fleiri stærri bú ná nú frjósemi uppá 1,90 fædd lömb eða fleiri, vorið 2018 voru ríflega 140.000 ær á búum sem höfðu þessa meðalfrjósemi en voru 100.000, vorið 2015. Fjöldi lamba til nytja er 1,65 lömb á hverja kind, lækkar um 0,01 lamb milli ára en talan hefur verið á þessu reiki undanfarin ár.
 
Afurðir eftir fullorðnar ær voru 27,8 kíló eftir hverja kind árið 2018 sem er 0,1 kílói meira en árið á undan (27,7 kg árið 2017). Á 1. mynd má sjá afurðir síðustu tveggja ára (2018 rauð súla, 2017 græn súla) sýndar eftir sýslum ásamt meðaltali áranna 2014–2018 (blá súla) í viðkomandi héraði. Mestu afurðir í einu héraði árið 2018 voru í Strandasýslu en þær reiknast 30,5 kíló eða sömu afurðir og árið 2017. Næstir Strandamönnum koma Vestur-Húnvetningar með 30,3 kíló eftir hverja kind. 
 
 
Afurðahæstu búin
 
Afurðahæsta bú landsins árið 2018 er bú Eiríks Jónssonar í Gýgjarhólskoti, Biskupstungum með 44,3 kíló eftir hverja kind þar sem fleiri en 100 ær eru á skýrslum. Næst á listanum er bú Gunnars og Grétu á Efri-Fitjum í Fitjárdal með 40,3 kg eftir hverja kind. Þriðja búið sem einnig nær meira en 40 kílóum eftir hverja kind er bú Hákons og Þorbjargar á Svertingsstöðum í Eyjafirði. 
 
Í 1. töflu er listi yfir öll þau bú sem hafa 36 kg eða meira eftir hverja kind árið 2017 og fleiri en 100 ær í skýrsluhaldi.
 
Úrvalsbú
 
Á heimasíðu RML má finna lista yfir Úrvalsbú en þau eiga það sammerkt að ná góðum árangri fyrir nokkra skýrsluhaldsþætti. Skilyrði fyrir þeim lista eru: Bú með fleiri en 100 skýrslufærðar ær þar sem fædd lömb hjá fullorðnum ám eru fleiri en 1,90, fædd lömb hjá veturgömlum ám eru fleiri en 0,90, reiknað dilkakjöt eftir fullorðna kind er á landsmeðaltali eða meira, gerðarmat sláturlamba er yfir 9,2, fitumat sláturlamba sé á bilinu 5,4-7,6 og hlutfall gerðar og fitu yfir 1,3.
 
Gæðamatið
 
Í skýrsluhaldinu eru upplýsingar um rúmlega 522.000 sláturlömb haustið 2018. Meðalfallþungi þeirra var 16,9 kíló, ívið meiri en árið á undan (16,8 kíló árið 2017). Meðaltal einkunnar fyrir holdfyllingu er 9,08 árið 2018 (9,07 árið 2017) og meðaltal einkunnar fyrir fitumat er 6,53 árið 2018 (6,44 árið 2017). Best gerðu lömbin árið 2018 voru hjá Sveinbirni á Búvöllum í Aðaldal með einkunn 12,01 og næst kemur bú Björns og Ingu að Björk 2 í Grímsnesi með einkunn 12,00. Þriðji er svo Ólafur Sindrason á Grófargili í Skagafirði með einkunn 11,95. Hlutfallstala holdfyllingar og fitu var 1,39 haustið 2018. Hagstæðasta hlutfallið er 1,45 í þremur sýslum á landinu, Suður-Þingeyjarsýslu, Mýrasýslu og Borgarfjarðarsýslu. Af búum sem höfðu holdfyllingarmat yfir 9,5 árið 2018 er þetta hlutfall hagstæðast hjá Sigríði og Brynjari í Hólsgerði fremst í Eyjafjarðarsveit eða 1,87. Í 2. töflu má finna öll þau bú sem höfðu gerðarmat 11,0 eða hærra árið 2018 og fleiri en 100 sláturlömb.
 
Erfiðara er að bera saman árangur í fitumati vegna þess sambands sem er á milli fallþunga og fitumats. Stundum er þessi samanburður gerður sem hlutfall milli fallþunga og fitumats, það hlutfall er 2,59 árið 2018, lítið eitt lægri en árið á undan. Af búum sem höfðu holdfyllingarmat yfir 9,5 árið 2018 hafa tvö bú hlutfallstöluna 3 eða hærra. Það er bú Bergs Sigfússonar að Austurhlíð í Skaftártungu líkt og á síðasta ári ásamt búi Sigríðar og Brynjars í Hólsgerði.
 
 
Vaxtarhraði lamba
 
Á síðasta ári var útreikning á vaxtarhraða lamba útfrá fallþunga bætt við uppgjörið og reiknað fyrir öll bú. Þegar þær niðurstöður er skoðaðar nánar kemur í ljós að búin með mestan vaxtarhraða slátra lömbunum við yngstan aldur en fá eftir sem áður bestu flokkunina. Í 3. töflu má sjá yfirlit yfir þetta.
 
 
Í 4. töflu má finna öll þau bú sem höfðu vaxtarhraða yfir 150 gr/dag árið 2018 og fleiri en 100 sláturlömb.
 
Að lokum
 
Lista með öllum helstu niðurstöðum skýrsluhaldsins árið 2018 er hægt að finna á heimasíðu RML. Þar má einnig finna niðurstöður skýrsluhaldsins undanfarin ár.
 
Líkt og áður hefur verið sagt í samantektum sem þessum er vel fært skýrsluhald grunnforsenda allrar upplýsingaöflunar. Flest þau bú sem eru að ná góðum árangri eru að nýta sér kosti skýrsluhaldsins til fullnustu og því rétt að minna á þetta einu sinni enn.

5 myndir:

Stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar: tryggja á fæðuöryggi á Íslandi
Fréttir 29. nóvember 2021

Stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar: tryggja á fæðuöryggi á Íslandi

Stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar Framsóknarflokks, Sjálfsstæðisflokks og Vi...

Ný hitaveita Hornafjarðar formlega tekin í notkun
Fréttir 29. nóvember 2021

Ný hitaveita Hornafjarðar formlega tekin í notkun

Hitaveita Hornafjarðar var tekin formlega í notkun fimmtudaginn 21. október en l...

Vinstri grænir stýra ráðuneyti matvæla, sjávarútvegs og landbúnaðar
Fréttir 27. nóvember 2021

Vinstri grænir stýra ráðuneyti matvæla, sjávarútvegs og landbúnaðar

Samkvæmt heimildum Bændablaðsins mun þingmaður Vinstri grænna vera með ráðuneyti...

Bitbein um áburðarnotkun
Fréttir 26. nóvember 2021

Bitbein um áburðarnotkun

Lífrænir bændur í Danmörku geta nýtt sér húsdýraáburð frá ólífrænum búum í meira...

Nær 36 milljónir íbúa ESB geta ekki kynt heimili sín sómasamlega
Fréttir 26. nóvember 2021

Nær 36 milljónir íbúa ESB geta ekki kynt heimili sín sómasamlega

Í síðasta Bændablaði var greint frá því að samkvæmt könnun sem kynnt var af Euro...

Kolefnissporið kortlagt
Fréttir 26. nóvember 2021

Kolefnissporið kortlagt

Skútustaðahreppur hefur samið við nýsköpunarfyrirtækið Greenfo um að kortleggja ...

Flestir bílaframleiðendur veðja á efnarafala fremur en rafhlöður í þung ökutæki
Fréttir 25. nóvember 2021

Flestir bílaframleiðendur veðja á efnarafala fremur en rafhlöður í þung ökutæki

Vetnisvæðing, sem nú er rekin áfram af mikilli ákefð hjá öllum stærstu iðnríkjum...

Rekstur vindorkugarða sagður brjóta á mannréttindum Sama
Fréttir 25. nóvember 2021

Rekstur vindorkugarða sagður brjóta á mannréttindum Sama

Norðmenn hafa upplifað spreng­ingu í uppsetningu vindorkustöðva á undanförnum ár...