Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Jóhannes Sveinbjörnsson, dósent við Landbúnaðarháskóla Íslands, flytur erindi sitt í Salnum.
Jóhannes Sveinbjörnsson, dósent við Landbúnaðarháskóla Íslands, flytur erindi sitt í Salnum.
Mynd / smh
Fréttir 20. mars 2018

Gera þarf stuðningskerfið sveigjanlegra

Höfundur: smh
Á ráðstefnunni Landsýn, aukið virði landafurða, sem haldin var í Salnum í Kópavogi föstudaginn 23. febrúar, flutti Jóhannes Sveinbjörnsson, dósent við Landbúnaðarháskóla Íslands, erindi þar sem tekist var á við spurninguna um hvert virði landbúnaðarafurðanna væri og hvað yrði um það. 
 
Hann greindi opinbera stuðninginn og það sem tölur liggja fyrir um, en einnig verðmætin sem liggja undir yfirborði umræðu og opinberra gagna.
 
 
Heildar framleiðsluvirði landbúnaðarins 66 milljarðar
 
Jóhannes byrjaði á að sýna glæru þar sem fram kom hvert framleiðsluvirði landbúnaðarins væri eftir greinum. Heildar grunnverð árið 2016 var 66 milljarðar króna og var hlutur nautgriparæktarinnar mestur, eða 34 prósent. Inni í þeim hluta eru allar greiðslur til bænda reiknaðar með – til að mynda beingreiðslur – en framleiðslutengdir skattar dregnir frá. Samanlagður jarðargróði til fóðurs annars vegar (19 prósent) og manneldis hins vegar (8 prósent) var næststærstur með 27 prósent og sauðfjárræktin var með 16 prósent. 
 
Því næst braut Jóhannes niður ráðstöfun framleiðsluvirðisins, en samkvæmt Jóhannesi er í heimildum Hagstofu Íslands einungis til yfirlit yfir þetta hjá öllum greinunum til samans. Þar kemur í ljós að mestur hluti fer í fóður og fóðuröflun, eða 38 prósent. Liðurinn „önnur aðföng“ fær 29 prósent og 14 prósent fer í liðinn „tekjur af atvinnurekstri“. 
 
 
Gögn vantar um raunverulega verðmyndun
 
Að sögn Jóhannesar er aðeins hálf sagan sögð – og varla það – um virðiskeðjuna þegar þarna er komið sögu. Lítið sé til af opinberum gögnum um verðmyndun íslenskra landbúnaðarafurða frá haga til maga. Hann tók þó dæmi af verðmyndun lambakjöts árið 2012, sem Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri vann upp úr gögnum Hagstofu Íslands – og var framreiknað til ársins 2014. Bændur fengu í því dæmi 41 prósent afurðavirðisins, 24 prósent kom í hlut kjötvinnslu, verslunin 15 prósent og sláturhúsin fengu 14 prósent. Sex prósent kæmi svo í hlut ríkisins sem virðisaukaskattsgreiðslur. Inn í þetta dæmi þyrfti að taka til greina að frá árinu 2016 hefði lækkun á afurðaverði til sauðfjárbænda orðið 35-40 prósent. Á sama tíma hefði heildsöluverð á lambakjöti ekki lækkað að ráði.  Hann sagði að ljóst væri að bændur hefðu misst stjórn á hlut sínum í verðmynduninni. Hann sagði að það væri oftast þannig að bóndinn væri litli aðilinn í virðiskeðjunni, sérstaklega í þeim greinum þar sem margir bændur væru að framleiða eina vöru – eins og ætti við um sauðfjárræktina. 
 
Kjötgreinar keppa innbyrðis á markaði
 
Jóhannes fór svo aðeins ofan í hlut bænda í verðmynduninni. Greinarnar stæðu misvel, til að mynda gagnvart því að laga framboð að eftirspurn hverju sinni. Hann tók dæmi af kjúklingarækt þar sem þetta væri nærtækt, þar sem framleiðsluferillinn væri stuttur, fáir framleiðendur og slátrað allt árið um kring. Hann benti á að fyrirkomulag opinbers stuðnings geti haft veruleg áhrif á jafnvægi varðandi framboð og eftirspurn á kjötmarkaði. Offramboð af einni kjöttegund geti líka haft áhrif á aðrar, en kjötgreinarnar keppa innbyrðis á markaði. 
 
Til að setja málin aðeins betur í samhengi ræddi Jóhannes næst um opinberan stuðning við landbúnað á Íslandi. Þar kom fram – í tölum frá 2016 – að beinn stuðningur við bændur væri um 13 milljarðar. Tollvernd, sem væri munurinn á áætluðu innflutningsverði og innlendu verði, væri metinn sex til átta milljarðar á ári. Heildarframleiðslustuðningur árið 2015, sem hlutfall af tekjum bænda, var 44 prósent á Íslandi. Til samanburðar var hann 58 prósent í Noregi en 18 prósent í Evrópusambandinu. 
 
 
Af hverju eigum við að styðja við íslenskan landbúnað?
 
Jóhannes sagði það augljóst að það kosti meira að framleiða mat hér heima en að flytja hann inn. Menn verði því að spyrja sig í hverju virði íslensks landbúnaðar liggi og hverjar séu raunverulegar ástæður fyrir því að styðja við innlenda framleiðslu. 
 
Nokkrar ástæður væru fyrir því sem kannski ekki nægjanlega oft væri haldið á lofti í almennri umræðu þótt þær kæmu gjarnan fram til dæmis við gerð búvörusamninga. Fæðuöryggi væri ein af þessum ástæðum; að Ísland sé sjálfstæðara í eigin fæðuöflun með innlendri framleiðslu en ef ódýrasta leiðin væri farin. Matvælaöryggi væri önnur ástæða en Íslendingar geta haft meira eftirlit með heilbrigði og öryggi eigin matvælaframleiðslu en þeirri sem kemur að utan. Þá nefndi Jóhannes byggðamál sem mikilvægt atriði, sem þó væri oft illa skilgreint. Það hafi ekki verið verðmetið sérstaklega til dæmis í búvörusamningum, heldur blandað saman við annað. Þó séu flestir sammála um að þessi hlutur sé mjög mikilvægur. Menning og menningarlandslag er mikilvægur þáttur í verðmætasköpun –  til dæmis ferðaþjónustu – og loks nefndi Jóhannes hinn umhverfislega ávinning sem fælist í því að framleiða fæðuna hér á landi. 
 
Þetta sýndi að virði landafurðanna snerist um margt annað en matinn sjálfan – sem oft væri ekki uppi á yfirborðinu – en opinberi stuðningurinn væri samt að mestu tengdur matvælaframleiðslunni sjálfri. 
 
 
Stuðningsformið að breytast
 
Jóhannes sagði að beina stuðnings­formið væri á vissan hátt að breytast, en það er ennþá að langmestu leyti bundið við sauðfjár- og nautgriparækt. Greiðslurnar væru almennt að mjakast frá framseljanlegum stuðningi, bundnum í kvótakerfi, yfir í greiðslur á framleidda lítra mjólkur og kjöts, og einnig yfir í gripagreiðslur. Þetta væri til bóta vegna þess að framseljanlegi stuðningurinn endaði oft að drjúgum hluta hjá fyrrverandi bændum og fjármálastofnunum. 
 
Í kjúklinga- og svínarækt er tollvernd notuð til stuðnings við greinarnar. Hún virkar allvel, að sögn Jóhannesar, vegna þess að erlent heildsöluverð er mun lægra en innlent. 
 
Í garðyrkju voru tollar felldir niður á papriku, gúrku og tómata árið 2002 og teknar upp beinar greiðslur í staðinn og einnig niðurgreiðslur á rafmagni. Jóhannes segir að þessi breyting teljist hafa skilað hagræðingu, ekki síst til neytenda. Þó hafi markaðshlutdeild innlendu framleiðslunnar minnkað til að byrja með en svo aftur vaxið hin síðari ár. Það hafi gerst einfaldlega af því að neytendur voru tilbúnir til að borga meira fyrir þetta íslenska grænmeti en innflutt. 
 
Stuðningurinn enn of bundinn búgreinunum
 
Jóhannes vék síðan talinu aftur að stuðningsgreiðslum í lambakjöts- og mjólkurframleiðslunni. Hann sagði að margt jákvætt væri við þróunina, en þó væru nokkur atriði við fyrirkomulagið sem væru bændum óhagkvæm. Greiðslurnar væru alltof bundnar búgreinunum. Það gerði það að verkum að erfitt væri að sveigja framleiðsluna að eftirspurn. Bændur væru þannig valdalausir í verðmyndunarferlinu. Jóhannes tók dæmi af því ef sauðfjárbóndi vildi draga úr sinni ræktun og snúa sér til dæmis að hrossarækt, landgræðslu eða ferðaþjónustu í einhverjum mæli – tapaði hann stuðningsgreiðslum sem næmi samdrættinum. Ekki sé metið til stuðnings að þessar greinar geta verið jafn hliðhollar byggð, menningu og umhverfi – eins og sauðfjárræktin – og að skipta yfir í þær dragi ekki úr matvæla- eða fæðuöryggi við þær aðstæður sem við búum í dag. 
 
Beinn stuðningur við ræktunarlandið
 
Jóhannes sagði að það væru næg rök fyrir því að standa vörð um íslenskan landbúnað og íslenskar byggðir. Varðandi matvæla- og fæðuöryggi væri nokkuð markviss vinna í gangi en varðandi þætti eins og byggðamál, menningu og umhverfi væri fókusinn óskýrari.  
 
Jóhannes telur að með því að huga meira að beinum stuðningi við ræktunarlandið yrði kerfið sveigjanlegra. Byggðastuðningurinn mætti vera til staðar sjálfs síns vegna en ekki hengdur á ákveðnar greinar eins og til dæmis sauðfjárrækt. Hann gæti verið til staðar vegna ferðaþjónustunnar, öryggismála og almennrar þjónustu. Það mætti setja verðmiða á tengsl menningar, matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu og sömuleiðis viðhald og uppbyggingu gróðurauðlindarinnar – sem bændur eru vel í stakk búnir til að halda utan um. Vegna þess að ef halda eigi í þessi verðmæti, verði að meta þau til verðs. 
 
Áfellisdómur um eftirlit MAST með dýravelferð
Fréttir 11. desember 2023

Áfellisdómur um eftirlit MAST með dýravelferð

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um stjórnsýsluúttekt á eftirliti Matvælastofnunar (MA...

Ungmenni berjast gegn stöðnun í dreifbýli
Fréttir 11. desember 2023

Ungmenni berjast gegn stöðnun í dreifbýli

Norrænt ráð 25 ungmenna frá öllum Norðurlöndum sat nýlega fund með norrænum ráðh...

Bæta má orkunýtingu í landbúnaði talsvert
Fréttir 8. desember 2023

Bæta má orkunýtingu í landbúnaði talsvert

Unnt er að spara allt að 1.500 GWst árlega á Íslandi og þar af um 43 GWst í land...

Opnunarhóf í Miðskógi
Fréttir 8. desember 2023

Opnunarhóf í Miðskógi

Byggingu nýs kjúklingahúss í Dölunum er lokið og verður tekið í notkun 1. desemb...

Skilgreina opinbera grunnþjónustu
Fréttir 8. desember 2023

Skilgreina opinbera grunnþjónustu

Unnin hafa verið drög að skilgreiningu á opinberri grunnþjónustu, ásamt greinarg...

Innleiða þarf vistkerfisnálgun
Fréttir 7. desember 2023

Innleiða þarf vistkerfisnálgun

Tímabært þykir að innleiða vistkerfisnálgun á Íslandi með skipulögðum hætti. Fræ...

Verðmætasköpun eykst og mikil sala
Fréttir 7. desember 2023

Verðmætasköpun eykst og mikil sala

Æðarræktarfélag Íslands (ÆÍ) hélt aðalfund að Keldnaholti 18. nóvember. Alls mæt...

Tilraun til að bjarga færeyska hrossakyninu
Fréttir 6. desember 2023

Tilraun til að bjarga færeyska hrossakyninu

Færeyska hestakynið er í útrýmingarhættu en í dag eru til 89 færeysk hross og af...