Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Sigurður Sigurðarson dýralæknir kemur fyrir einni af mörgum merkingum sínum á miltisbrunagröf 2017.
Sigurður Sigurðarson dýralæknir kemur fyrir einni af mörgum merkingum sínum á miltisbrunagröf 2017.
Mynd / Ólöf Erla Halldórsdóttir
Fréttaskýring 30. júlí 2021

Vitað er um 160 miltisbrunagrafir á 130 bæjum á landinu

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Sigurður Sigurðarson dýra­læknir hefur um árabil safnað saman upplýsingum um miltisbrunagrafir á Íslandi. Sumarið 2017 hóf Sigurður ásamt konu sinni, Ólöfu Erlu Haraldsdóttur, að merkja allar miltisbrunagrafir sem hann vissi um á landi. Allar götur síðan hafa verið að koma fram upplýsingar um áður óþekktar grafir og eru þær nú alls orðnar 160 á um 130 bæjum víðs vegar um land. 

Í júnímánuði síðastliðnum fór Sigurður enn af stað ásamt Ólöfu Erlu til að merkja miltisbrunagrafir. Er þetta gert með númeruðum málmstautum sem Sigurður lét útbúa og reknir eru niður þar sem grafirnar eru. Þetta gerir hann til að þeir sem á eftir koma geti forðast að róta í jarðvegi á þeim stöðum með hættu á að dreifa úr gróum sýkilsins sem þar leynast.

Sár og vefjadrep á húð eftir miltisbrand. 

Baktería sem hefur verið á áhugasviði hernaðarsérfræðinga 

Sjúkdómurinn miltisbruni, miltisbrandur eða anthrax, stafar af eitri sem bakterían „Bacillus anthracis“ myndar. Getur hann verið bráðdrepandi og hafa hernaðaryfirvöld ýmissa landa því sýnt þessari bakteríu sérstakan áhuga í gegnum tíðina. Gallinn við notkun hennar er þó að hún fer ekki í pólitískt manngreinarálit og virðir heldur engin landamæri. Dánarlíkur eru taldar allt að 50 til 80%, ef um smit í öndunarfærum er að ræða, jafnvel þótt sýklalyfjum sé beitt. Húðsýking er þó algengust, eða í 95% tilvika, og er ekki talin eins hættuleg, Þar er dánarlíkurnar sagðar um 24%.

Sjúkdómurinn er oftast bundinn við grasbíta, en ef hann kemst í menn er hann m.a. sagður valda óvenjumiklum verkjum, þar á meðal brjóstverkjum, öndunar­örðugleikum, háum hita, ógleði, sljóleika, niðurgangi og ljótum útbrotum sem orsaka drep í vefjum.  Talið er að um 2.000 menn smitist árlega í heiminum af völdum miltisbrands. Smit eru algengust í Afríku, en einnig þekkt í Suður- Evrópu og í Bandaríkjunum. 

Fékk nýjar fregnir af gröfum á Tjörnesi

Sigurður segir að þau hafi nýlega frétt af miltisbrunagröfum á Tjörnesi og við Þistilfjörð.

„Ég vona að þá fari fækkandi ómerktum sýktum stöðum. Skýrslur um miltisbrunagrafir eru tilbúnar og hafa verið sýndar ráðuneyti landbúnaðar og Matvælastofnun.“

Hefur oft talað fyrir daufum pólitískum eyrum 

Sigurði er mjög umhugað um að Íslendingar framtíðarinnar hafi vitneskju um þessar hættulegu miltisbrandsgrafir. Af óbilandi eljusemi hefur hann gengið milli ráðamanna þjóðarinnar á liðnum árum til að tryggja að þessar upplýsingar falli ekki í gleymsku. Stjórnmálamenn og ráðherrar koma og fara og ekki hafa undirtektir alltaf verið í takt við alvarleika málsins. Enda er umræða um einhverjar grafir dýra og manna þó hættulegar séu, ekki líklegar til að skora hátt á pólitískum vinsældalistum. Samt hefur Sigurður ekki gefist upp og heldur enn áfram.    

Skýrsla um miltisbrunagrafir

Sigurður lét Bændablaðinu í té lista sem hér er birtur yfir staði sem hann hefur merkt þar sem ýmist er full vitneskja um miltisbrunagrafir, eða taldir líklegir greftrunarstaðir. Hann óskar samt enn eftir ábendingum frá þeim sem vita um staði, sem vantar inn í fyrirliggjandi upplýsingar og líka staði sem óvissa er um.

Í grein í Bændablaðinu sem Sigurður ritaði í ágúst 2017 sagði hann m.a.:

„Miltisbruni er bráður smitsjúkdómur, sem er hættulegur fólki og skepnum. Smitefnið er baktería „Bacillus anthracis“. Smitkrafturinn á jörðinni dofnar á fáum mánuðum, líklega fyrir áhrif sólarljóssins. Enginn veit nákvæmlega hve lengi smithættan varir í yfirborði en niðri í jörðinni virðist smitefnið lifa með fullum krafti í dvalargróum nær endalaust. Dæmi eru um erlendis að smitefni hafi lifað í 550 ár. Þess vegna skiptir svo miklu máli að vita, hvar grafnar hafa verið skepnur, sem drápust úr sjúkdóminum til að afstýra jarðraski og tryggja sem best friðun hættulegra svæða og bletta til framtíðar.“

Miltisbrandur – Bacillus anthracis  

Miltisbrandur, eða „antrax“ eins og það heitir á erlendu máli, er lífshættulegur sjúkdómur sem stafar af eitri sem sýkill að nafni Bacillus anthracis myndar. Sjúkdómurinn hefur gengið undir ýmsum nöfnum, eins og miltisdrep, miltisbráðadauði og skinnapest, en Páll Pálsson nefnir hann miltisbruna í Bók Davíðs sem Háskólaútgáfan gaf út árið 1966.  

Barst til landsins með ósútuðum hertum húðum frá Afríku

Talið er að miltisbrands hafi fyrst orðið vart á Íslandi árið 1865 eða 1866, en árið áður hófst innflutningur á ósútuðum, hertum húðum sem áttu uppruna í Afríku. Sjúkdómsins varð síðar vart af og til og olli hann talsverðum búsifjum og einnig manntjóni á Suður- og Vesturlandi.

Það eru einkum grasbítandi dýr sem taka þennan sjúkdóm en menn geta þó af og til sýkst af honum. Sjúkdómar sem finnast í dýrum en geta jafnframt lagst á menn eru nefndir súnur (zoonosis), að því er fram kemur í grein eftir dr. Harald Briem sem finna má á Vísindavefnum.

Sýkillinn getur myndað dvalagró eða spora. Sporarnir geta lifað áratugum saman í jarðvegi og jafnvel í aldir, einkum í rökum og súrum jarðvegi. Af þessum ástæðum getur miltisbrandur verið alvarlegt vandamál í búfjárrækt.

Stærð sporanna, sem eru 2-6 míkron (míkrómetrar, milljónustu partar úr metra) í þvermáli, gerir þá kjörna til að setjast á slímhúð í öndunarvegum manna og dýra. Sporarnir loða hins vegar við jarðveginn en það dregur úr líkum á því að menn smitist með beinum hætti frá jarðvegi. Þegar sporar komast í hýsil þar sem skilyrði eru hagstæð breytast þeir í það form sem sýkillinn hefur þegar hann er að vaxa. Sýkillinn ber með sér eiturefni eða toxín sem er afar skaðlegt og veldur drepi. 

Einkenni miltisbrands ráðast að nokkru af því hvernig dýr og menn smitast. Þegar sýkilsins er neytt með mengaðri fæðu kemst hann í blóðrásina og sogæðakerfið um meltingarveginn. Milti dýra bólgnar upp og skemmist af völdum dreps. Af þessu er nafnið miltisbrandur dregið. Þá getur sýkillinn komist gegnum húð sem er rofin. Þetta er algengasta smitleið til manna.

Þeir sem meðhöndla sýkt dýr eða afurðir dýra sem hafa drepist af völdum sjúkdómsins, svo sem húðkeipi, ull eða kjöt, eru í mestri hættu. Veldur sýkillinn þá kýli sem rofnar síðar og er þá með svörtum sárbotni vegna dreps (af því er væntanlega nafnið anthrax dregið en það merkir kol). Að lokum geta sporar sýkilsins borist í öndunarveg og þaðan í eitilvef og valdið þar sýkingu, drepi og blóðsýkingu. Þeir sem eru í mestri hættu að smitast á þann veg eru starfsmenn í ullariðnaði og sláturhúsum.

Miltisbrunagrafir á Íslandi 1866–2004

*=Stjörnumerkt, óvíst eða ekki merkt

Rangárvallasýsla:

(A490-500-1, A01, A1-5) Yztabæli (**2 staðir: Sitjandi og Torflækur, *Önundarhorn ?), *Skúmsstaðir, Meiritunga (2 st), Kaldakinn (2 st), Lýtingsstað

Vestmannaeyjar:

(A10) *1 maður

Árnessýsla (austan Ölfusár):

(A11-24) Hamrar, Úthlíð, Hjálmsstaðir(2st), Ketilvellir, *Eyvindartunga, *Lækur, S-Sýrlækur, Krókur, Tunga/Hólar, V-Íragerði, Eyrarb(2st).

Árnessýsla (vestan Ölfusár):

A31-40) Hagavík, Þórustaðir (3st), Stóri-Háls, Gljúfurárholt, Hvammur, Arnarbæli, Þorkelsgerði.

Gullbringusýsla:

(A41-50) Suðurkot, Sjónarhóll, Ás, Jófríðarstaðir, Urriðakot (2st), *Hraunsholt (2st),

Reykjavík og Kjós:

(A51-80) Reykjavík (*?staðir), Breiðholt, Sunnuhvoll, Klambrar, *Hlemmur, Miðdalur(2st), Hraðastaðir, Sólvellir.

Borgarfjarðarsýsla:

(A101-110) Skáneyjarkot, Skáney (*5 staðir a.m.k.), Laugavellir, Giljar, Grímsstaðir, Árdalur.

Mýrarsýsla:

A121-130) Síðumúli, Fróðastaðir, Hallkelsstaðir, Galtarholt

Dalasýsla:

(A141-160) Háafell, Hamraendar, Skriðukot, Hólar, Stóri-Galtardalur, Kjallaksstaðir, Harastaðir, Skarðsstöð

Austur- og Vestur-Barðastrandarsýslur, Vestur- og Norður-Ísafjarðarsýslur:

(A170-180) Gillastaðir, Barmar, Reykhólar, Saurbær, Minni-Hattardalur, Birnustaðir, Lágidalur.

Strandasýsla:

(A191-200) *Ófeigsfjörður, Grund (á Drangsnesi), Gautshamar, Smiðjuhús í Húsadal, Brunngil í Bitru.

Vestur- og Austur-Húnavatnssýslur:

 (A201-210) Ánastaðir (2 staðir), Höskuldsstaðir, Þórormstunga, Guðrúnarstaðir, *Grímstunguheiði.

Skagafjörður:

(A221-230) Skarðsá, Lækur (Viðvíkurhr), Hólakot (í Fljótum).

Eyjafjörður:

(A231-240) Háls, Gata, Krossanes (2 staðir), Ytragil, Hólsgerði, Svertingsstaðir (2 staðir).

Suður-Þingeyjarsýsla:

(A241-250) Grænavatn (2 staðir), Grundartóft, Kálfaströnd, Hallbjarnarstaðir Tjörnesi.

Norður Þingeyjarsýsla og Norður-Múlasýsla:

(A301-330) Jaðar, Engihlíð, Svínabakkar, *Fáskrúðsbakki, Hauksstaðir, Hof, Hrappsstaðir, Heiðarsel, Sleðbrjótssel, Hofteigur, Vellir v.Þistilfjörð

Hérað:

(A331-350) Hafrafell, Staff., Ekkjuf., Kross, Ormarsst., Refsmýri, Hlíðasel, Skeggjast., Meðalnes, Skriðuklaustur.

Vellir:

(A351-351) Víkingsstaðir, Jaðar, Ketilsstaðir(3), Keldhólar, Mjóanes

Austfirðir:

(A361-365) Brekka, Norðfjörður (Júdasarbali), Hólmaháls, Hólmar, Slétta

Suðurfirðir Austfjarða:

(A370-390) Skálavík, Berunes, Dalir (3 staðir), Hólagerði, Berufjörður, Teigarhorn, Búlandsnes, Djúpivogur.

Austur-Skaftafellssýsla (austan fljóta):

(A391-400) Bær í Lóni, Brekkubær í Nesjum, Bjarnanes (*ómerkt)

Austur-Skaftafellssýsla (vestan fljóta):

(A401-404 Stóraból, Einholt (2st.), Fell.

Miltisbrunagrunur á fyrri öldum:

Ár 1203, Skúmstaðir (í Land­eyj­um). „...7 menn fallnir, auk þess bæði naut og hross. Guðmundur góði var tilkvaddur og allt fall hætti með vígðu vatni, sem Guðmundur stökkti á fólk, fénað og umhverfi.“

Ár 1430, Skálholt. „Nautadauði mikill (óvíst hvort ástæðan var fóðurskortur, harðæri eða miltisbrandur).“

Ár 1545, Hamrar. „Naut 14 á Hömrum – Sakaði hvorki blóð né gor nema kæmi við andlitið 1 maður bar heim slátur, sem hann keypti, fékk mein af því á hálsi og dó. Naut og hundar urðu bráðdauðir, ef lyktuðu af því dauða hræi.“

Ár 1552-3, Hamrar. „...12 kýr og 6 naut dóu. Menn skaðaði hvorki blóð né gor, þótt það kæmi við hendurnar, en ef það kom við andlitið, þá varð strax mein og margir misstu sýnina af því

Ár 1564, Hamrar. „...13 naut á Hömrum og víða naut á bæjum í Grímsnesi, Eyvík, Fjall á Skeiðum.“

Ár 1566, Austurhlíð. „Nauta­dauði. Þar dóu 16 naut.“

Ár 1567, Miðdalur. „Þar dóu fyrst 2 hestar og eftir það 13 naut.“

Ár 1568, Kálfhóll. „...Sá 2 nautadauði 1568.“

Ár 1580. „...var sá 3. nautadauði á Kálfhóli þar dóu 13 naut. Þaðan bar maður nokkuð á hesti upp til Ása og dó hesturinn af því þar en nautin síðan. Maður einn bar þaðan nokkuð af þessu til síns heimilis. Þar af fékk hann mein aptan á hálsinn og bólgu um allar kverkarnar, svo var hann dauður eftir fáa daga.“

Ár 1635-6 Fjall á Skeiðum. „Nautadauði á Skálholtsbúinu Fjalli og nokkrum bæjum í kring.”

Ár 1660 Hamrar. „Þá andaðist Jón Jónsson lögréttumaður. Strax eftir hans dauða skeði sérkennilegur nautadauði á Hömrum og bæjum þar í kring. Líka dóu hestar og sumir misstu mikið. Kom faraldur þetta á aðra bæi, ef hestar þeirra átu áfóður eða moð á Hömrum, eður ef nokkuð af þessu slátri kom á aðra bæi. Þessir gripir dóu skyndilega... helst var það í kringum Fjall, sem það slæma kjöt var keypt. Naut sem komust að því og lyktuðu dóu öll og hestar, sem það hráa kjöt báru heim. Þeir dóu.“

 Nokkrar heimildir:

Biskupsannálar Jóns Egilssonar (Safn til sögu Íslands) Árbækur Espólins, Fitjaannáll, anno 1660, bls 187, Kjósarannáll bls 439 11 5 1660 Ingibjörg Tönsberg, Glæsibæ 13, Reykjavík , Auður Gunnars­dóttir Hömrum, s. 486 Hermann Tönsberg, Háaleitisbraut 17, s: 553 1396, 699 1396 Guðmund­ur Arason, Prestssaga (Sturl­unga 1)

  1. Útdráttur úr miltisbrunaskýrslu. Miltisbrunastaðir á Íslandi, (frá . 1866-2004 og frá fyrri öldum), lýsing og hnit.
  2. Sauðburðarkver, endurút­gef­ið í endurbættu formi, Sauðburðar­kver, endurútgefið gormabók, plasthlíf að framan.
  3. Geita- og kindakver, 80 bls. 90 myndir. Heilsufar og sjúkdómar í geitum og kindum.
  4. Barátta gegn smitandi sauðfjár­sjúkdómum. Karakúlpestir, kláði, riða og miltisbruni, 60 bls. 20 myndir.

Skylt efni: miltisbrandur

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs
Fréttaskýring 18. apríl 2024

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs

Alþingi samþykkti 21. mars sl. breytingu á búvörulögum sem felur í sér undanþágu...

Mikilvægasta rými jarðar
Fréttaskýring 29. mars 2024

Mikilvægasta rými jarðar

Stærsta innlögn nýrra fræsafna í Alþjóðlegu fræhvelfinguna á Svalbarða átti sér ...

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast
Fréttaskýring 23. febrúar 2024

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast

Á komandi áratugum er líklegt að landbúnaður breytist verulega. Þættir eins og t...

Úrgangsmálin í ólestri
Fréttaskýring 9. febrúar 2024

Úrgangsmálin í ólestri

Í byrjun síðasta árs tóku gildi lög hér á landi þar sem bann er lagt við urðun á...

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika
Fréttaskýring 30. janúar 2024

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika

Aðstöðumunur kúabænda vegna mismunandi stuðnings við kvótakaup milli landsvæða h...

Auður, kvóti, mjólk og skuld
Fréttaskýring 26. janúar 2024

Auður, kvóti, mjólk og skuld

Þegar tiltekinn hópur bænda hefur tök á að eignast mjólkurkvóta með því að vera ...

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða
Fréttaskýring 13. janúar 2024

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða

Eyþór Einarsson, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML), segir að ...