Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Stærsti fiskmarkaður heims
Fréttaskýring 21. október 2019

Stærsti fiskmarkaður heims

Höfundur: Kjartan Stefánsson

Fiskmarkaðurinn í Tókíó er stærsti fiskmarkaður heims. Fyrsta uppboð ársins vekur jafnan heimsathygli því mikil samkeppni er um að kaupa fyrsta túnfiskinn, jafnvel þótt greiða þurfi hundruð milljóna króna fyrir hann.

Japanir eru sem kunnugt er mikil fiskveiðiþjóð og Japanir sporðrenna einnig meira af fiski en flestar aðrar þjóðir. Fiskmarkaðurinn í Tókíó gegnir þarna veigamiklu hlutverki því frá honum streyma daglega 1.700 tonn af sjávarfangi til veitingahúsa og smásala og annarra kaupenda. Markaðurinn hefur líka það mikilvæga hlutverk að sjá veitingahúsum og fisksölum fyrir túnfiski í hina vinsælu sushirétti.

Formlegt nafn fiskmarkaðarins er Tokyo Metropolitan Central Wholesale Market en hann er jafnan kenndur við svæðið sem hann er á.

Fiskmarkaðurinn er sögufrægur og rekja má tilvist hans allt aftur til ársins 1657. Markaðurinn fékk nafnið Tsukiji árið 1884 og undir því nafni jókst hróður hans á síðustu öld. Hann eyðilagðist reyndar í jarð­skjálftunum miklu í Japan árið 1923. En þá hrundi og brann höfuðborgin Tókíó og 143 þúsundir manna fórust. Markaðurinn var endurreistur á svipuðum slóðum árið 1935. Þar var hann starfræktur í 83 ár uns hann var fluttur á nýtt svæði í Toyosu, rúma 2 kílómetra frá Tsukiji, og hóf þar starfsemi í október á síðasta ári.

Veltir tæpum 500 milljörðum íslenskum

Nýi Toyosu-markaðurinn erfir líflegustu fiskviðskipti heims. Tölur um viðskipti á markaðnum fyrsta starfsárið liggja ekki fyrir en salan á Tsukiji nam um 700 þúsund tonnum á ári að verðmæti um 4 milljarðar dollara, um 495 milljarðar íslenskra króna. Að auki eru grænmeti og ávextir seld á markaðnum.

Sala á fiski á degi hverjum var í kringum 1.700 tonn, sem fyrr getur að verðmæti 14 milljónir dollara, um 1,7 milljarðar íslenskir. Alls seldist meira en 2.800 tonn af fiski, grænmeti og ávöxtum á dag að verðmæti 17,8 milljónir dollarar, um 2,2 milljarðar íslenskir.

Á markaðinum er verslað með hátt í 500 mismunandi tegundir af sjávarfangi, sem koma víða að úr heiminum, og hátt í 300 tegundir af grænmeti eða ávöxtum. Þar kennir ýmissa grasa, allt frá ódýru þangi/þörungum til dýrasta kavíars og frá smæstu sardínum upp í 300 kílóa túnfisk.

Þess má geta til samanburðar að á Íslandi var árið 2018 landað um 93 þúsund tonnum af fiski á alla fiskmarkaði innanlands samkvæmt tölum Hagstofunnar, að verðmæti um 19,5 milljarða króna.

Vinsæll áfangastaður ferðamanna

Á Toyosu-markaðnum eru þrjár meginbyggingar, tvær fyrir sölu á fiski og ein fyrir sölu á grænmeti og ávöxtum. Annað fisksöluhúsið hýsir uppboð á fiski en hitt er fyrir viðskipti skráðra aðila með fisk og annað sjávarfang sín á milli. Auk þess er fjöldi veitingastaða og verslana á Toyosu-markaðnum sem njóta hylli ferðamanna.

Tsukiji-markaðinn var einn vinsælasti viðkomustaður ferða­manna í Tókíó. Fjöldi gesta skipti tugum þúsunda á degi hverjum. Þar gátu þeir gengið um milli sölubása, fylgst með uppboðum og drukkið í sig stemninguna á markaðnum. 

Á Toyosu-markaðnum er einnig lögð áhersla á að laða ferðamenn að en nú geta þeir aðeins fylgst með uppboðum og starfseminni á lokuðum útsýnispöllum á annarri hæð. Þykir það ekki vera jafnmikil upplifun og var á gamla staðnum.

Svæði losnar fyrir Ólympíuleikana

Þótt Tsukiji-markaðurinn hafi notið mikillar velgengni var strax á sjöunda áratug síðustu aldar farið að ræða um að færa hann. Það var þó ekki fyrr en í byrjun þessarar aldar sem ákveðið var að flytja markaðinn til Toyosu þótt fram­kvæmdir hæfust ekki strax. Ein af ástæðunum fyrir flutningnum var sú að menn litu hýru auga til Tsukiji, sem er miðsvæðis og þar eru verðmætar byggingalóðir. Fyrst um sinn kemur svæðið að notum þegar Ólympíuleikarnir verða haldnir í Tókíó árið 2020.

Mjög umdeilt var að flytja markaðinn og margir mótmæltu hástöfum. Þá fór kostnaður við byggingu nýja markaðarins úr böndunum, meðal annars vegna þess að jarðvegur á Toyosu var mengaður. Ófáir milljarðar fóru þar í súginn en það er önnur saga.

Hundruð milljarða fjárfesting

Kostnaður við nýja Toyosu-markað­inn var um 5,1 milljarður dollara, um 635 milljarðar íslenskra króna. Hann þekur 407 fermetra og er 1,7 sinnum stærri en Tsukiji að flatarmáli. Aðbúnaður er miklu betri eins og gefur að skilja, lokað húsnæði fyrir allan fisk, ólíkt því sem var á Tukiji þar sem opin svæði voru áberandi. Aðstaða fyrir vinnslu og pökkun hefur verið bætt til að mæta kröfu smásala og veitingastaða um unnar afurðir. Markaðurinn hefur fengið gæðavottun og forráðamenn hans gera sér vonir um að vottunin muni með tíð og tíma auka söluna um 40%.

Fréttaefni fjölmiðla

Fiskmarkaðurinn í Tókíó hefur jafnan verið vinsælt umfjöllunarefni fjölmiðla. Þeir fylgdust vel með flutningi markaðarins og fréttir birtust af síðasta uppboðinu á Tsukiji markaðnum og fyrsta uppboðinu á Toyosu-markaðnum. Dýrasti fiskurinn á báðum uppboðunum var bláuggatúnfiskur sem seldist á tæpa 38 þúsund dollara stykkið á hvorum stað, sem samsvarar rúmum 4,7 milljónum í íslenskum krónum. Fiskurinn sem sleginn var á Tsukiji-markaðnum var 162 kíló að þyngd þannig að kílóverðið var litlar 29 þúsund krónur.

Annars er algengt að túnfiskur seljist á um 88 dollara kílóið, um 11 þúsund íslenskar, en verðið tvöfaldast eða meir í árslok fyrir besta fiskinn.

Einn túnfiskur á 385 milljónir

Fyrsta uppboð ársins vekur jafnan mikla athygli því þá er hart barist um fyrsta bláuggatúnfiskinn sem seldur er. Það er keppikefli veitingahúsaeigenda að ná í fyrsta túnfiskinn, sama hvað hann kostar. Kaupandinn hlýtur heimsathygli fyrir vikið og getur stært sig af því að gera allt til að þjóna viðskiptavinum sínum sem best.

Fyrsta uppboð ársins 2019 á Toyosu-markaðinum var sögulegt. Fyrsti bláuggatúnfiskurinn var sleginn á 3,1 milljón dollara, sem jafngildir um 385 milljónum íslenskum á gengi dollarans í dag. Aldrei fyrr hefur túnfiskur verið seldur jafnháu verði. Fiskurinn vó 278 kíló þannig að kílóverðið var tæpar 1,4 milljónir íslenskar. Sá sem hreppti hnossið var Kiyoshi Kimura, sem rekur hina þekktu Sushi Zanmai veitingahúsakeðjuna. Hann hefur nokkrum sinnum áður unnið keppnina um fyrsta túnfisk ársins. Haft var eftir honum í fjölmiðlum að eftir á að hyggja hefði hann líklega greitt of hátt verð!

Matargestir Sushi Zanmai sem gæddu sér á þessum dýra túnfiski hafa væntanlega ekki þurft að borga brúsann. Hefði túnfiskurinn verið seldur á kostnaðarverði hefði hver sushibiti kostað í kringum 60 þúsund krónur.

Ræktunarland verður kortlagt
Fréttaskýring 8. desember 2023

Ræktunarland verður kortlagt

Gert er ráð fyrir að þingsályktunartillaga um nýja landsskipulagsstefnu til 15 á...

Mikilvægi sjálfsaflahlutfalls
Fréttaskýring 17. nóvember 2023

Mikilvægi sjálfsaflahlutfalls

Hugtakið „fæðuöryggi“ hefur verið mikið til umræðu undanfarin misseri. Ef litið ...

Ágreiningur um áhrif veiða
Fréttaskýring 11. nóvember 2023

Ágreiningur um áhrif veiða

Samkeppni um rými og auðlindir geta valdið misklíð milli manna og dýra. Í tilfel...

Beislun sjávarorku handan við hornið
Fréttaskýring 20. október 2023

Beislun sjávarorku handan við hornið

Virkjun sjávarorku er á margan hátt aðlaðandi kostur í þeim orkuskiptum sem fram...

Orka sjávar óbeisluð
Fréttaskýring 19. október 2023

Orka sjávar óbeisluð

Engin verkefni eru í gangi á vegum stjórnvalda varðandi nýtingu sjávarorku hér v...

„Grænmetið sprettur ekki upp af sjálfu sér“
Fréttaskýring 12. október 2023

„Grænmetið sprettur ekki upp af sjálfu sér“

Óli Finnsson og Inga Sigríður Snorradóttir tóku við garðyrkjustöðinni Heiðmörk í...

Enginn hvati til framleiðsluaukningar
Fréttaskýring 6. október 2023

Enginn hvati til framleiðsluaukningar

Garðyrkjubændur í útiræktun grænmetis eru nú í óða önn við að ljúka uppskeru úr ...

Varnarlínur og niðurskurður ekki lengur einu tólin
Fréttaskýring 29. september 2023

Varnarlínur og niðurskurður ekki lengur einu tólin

Hér á landi hafa verið lagðar ýmsar takmarkanir á sauðfjárræktina til að hindra ...